Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 17:26:11 (676)

1995-11-02 17:26:11# 120. lþ. 25.5 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[17:26]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Með þeirri reglu sem hér er lagt til að verði lögfest er komið til móts við þá gagnrýni sem höfð hefur verið uppi um skattfrjálsar greiðslur til alþingismanna. Enda þótt ætlunin með lagabreytingunni sl. vor kunni að hafa verið að koma á fót fyrirkomulagi þar sem inntar yrðu af hendi jafnaðargreiðslur, sem síðar var ákveðið að yrðu 40 þús. kr., fyrir starfskostnað alþingismanna hafði þetta m.a. þann annmarka að skattgreiðendum var mismunað án þess að fyrir því væru réttmætar ástæður. Með þessari breytingu á hins vegar að skattleggja umræddar greiðslur nema fram séu reiddir reikningar fyrir starfskostnaði. Þetta er vissulega til bóta að mínu mati. Ef þetta yrði samþykkt kæmu þeir alþingismenn sem tækju við þessum greiðslum engu að síður til með að sitja uppi með greiðslu sem er blanda af starfskostnaði og launahækkunum en hið síðarnefnda á samkvæmt núgildandi lögum að vera á hendi Kjaradóms en ekki Alþingis.

Ekki eru ráðagerðir uppi með að breyta lögunum um Kjaradóm og fæ ég því ekki séð annað en að þetta kerfi gangi ekki upp. Niðurstaða mín er sú, nú sem fyrr, að það fyrirkomulag sem haft er á varðandi launa- og starfskjaraákvarðanir fyrir alþingismenn og reyndar einnig aðra þá sem heyra undir Kjaradóm er með öllu ónothæft og ber því að breyta því í samræmi við þáltill. sem ég hef kynnt þinginu og talað fyrir við annað tækifæri. Þar sem sú tillaga hefur enn ekki náð fram að ganga hef ég ákveðið að leggja fram breytingartillögu við það frv. sem er til umræðu og gengur hún út á það að greiðsla á fastri fjárhæð verði ekki heimil og verði endurgreiðanlegur starfskostnaður einvörðungu samkvæmt reikningum.