Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 17:39:02 (679)

1995-11-02 17:39:02# 120. lþ. 25.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[17:39]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 144 en efni þessa frv. er að það er lagt til að við sveitarstjórnarlög, nr. 8/1986, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Frv. þetta er samið og lagt fram að frumkvæði samstarfsnefndar um sameiningu Flateyrarhrepps, Mosvallahrepps, Mýrahrepps, Suðureyrarhrepps, Þingeyrarhrepps og Ísafjarðarkaupstaðar. Sveitarstjórnir þessara sveitarfélaga hafa samþykkt að láta fara fram almenna atkvæðagreiðslu um sameiningu þeirra og hefur verið unnið að málinu á grundvelli 108. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í áskorun samstarfsnefndarinnar til mín er tekið fram að nefndin sé sammála um nauðsyn þess að af sameiningu umræddra sveitarfélaga geti orðið og það sem fyrst. Fjárhagur, íbúaþróun, bættar samgöngur og ótal fleiri þættir knýja mjög á um að um þetta mál náist góð samstaða. Samstarfsnefndin telur að sá möguleiki sé fyrir hendi að íbúar eins eða tveggja sveitarfélaga geti fellt tillögu nefndarinnar og að óbreyttum lögum yrði þá að hefja nýja tillögugerð og efna til nýrra kosninga. Jafnframt tekur hún fram að flest bendi til að verulegur dráttur yrði á því að kosið yrði um nýja tillögu og vafamál að umboð samstarfsnefndarinnar yrði framlengt af viðkomandi sveitarstjórnum.

Ljóst er að aðstæður munu breytast verulega á þessu svæði með tilkomu jarðganga. Þá aukast til muna möguleikar á samnýtingu þjónustu og samvinnu að öðru leyti.

Með tilliti til árstímans og efna málsins þótti mér rétt að verða við tilmælum samstarfsnefndarinnar. Bráðabirgðaákvæðisgreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 109. gr. laganna, sbr. lög nr. 20/1994, skal um atkvæðagreiðslu um sameiningu sex sveitarfélaga á Vestfjörðum hinn 11. nóvember 1995 gilda eftirfarandi:

Hljóti tillaga samstarfsnefndar skv. 108. gr. ekki samþykki í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum, en þó meiri hluta greiddra atkvæða í a.m.k. 2/3 þeirra og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/3 íbúa á svæðinu, er viðkomandi sveitarstjórnum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkt hafa sameininguna.``

Síðan er gildistökugrein, herra forseti.

Ekki þarf að segja þingmönnum að válegir atburðir hafa gerst á þessu svæði síðan þetta frv. var samið og upp hafa komið hugmyndir um að fresta e.t.v. kosningunum. Ég vænti þess ef af því yrði, sem er ekki ákveðið, að kosningum yrði frestað, að þá mundi hv. félmn., sem ég mun óska eftir að fái málið til meðferðar, breyta dagsetningu sem yrði í frumvarpsgreininni eftir því sem sameiningarnefnd kemur til með að óska.