Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 17:47:01 (683)

1995-11-02 17:47:01# 120. lþ. 25.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[17:47]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt að beiðni samstarfsnefndarinnar í umræddum sveitarfélögum. Ég legg afar mikla áherslu á það þegar um er að ræða sameiningu sveitarfélaga að það sé réttur hins almenna kjósanda sem eigi að gilda og það eigi að vera val kjósenda í hverju sveitarfélagi fyrir sig að taka afstöðu til sameiningar eða ekki sameiningar. Ég vil sem sagt ekki þröngva neinum til sameiningar. Ég vil greiða fyrir sameiningu ef meiri hluti kjósenda vill svo í þessum sveitarfélögum. Þar af leiðandi er ég ekki hrifinn af því að festa það í lög varanlega að meiri hluti sveitarstjórnarmanna, sem kann að hafa aðrar skoðanir en meiri hluti kjósenda í viðkomandi sveitarfélagi, geti ákveðið sameiningu án þess að bera það undir íbúa. Það geta komið upp ótalmörg tilvik ef sameining hefur verið felld í einhverjum sveitarfélögum þó það séu ekki 2/3 sameinuðu sveitarfélaganna að það sé gjörbreytt viðhorf og þá sé eðlilegt að menn taki afstöðu til nýrrar sameiningar í almennum kosningum líka með tilliti til árstímans og þá er kannski nokkur harðneskja að etja mönnum í hverjar kosningarnar eftir aðrar á Vestfjörðum. Þess vegna er þetta sett fram sem bráðabirgðaákvæði.