Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 18:02:33 (686)

1995-11-02 18:02:33# 120. lþ. 25.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[18:02]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég lít svo á að spurningu síðasta ræðumanns hafi veri beint til forseta en ekki mín og því leiði ég hest minn frá því að svara henni. Ég hygg að tímafrestir séu styttri þarna en ég man eftir þann tíma sem ég hef setið á þingi. Hitt er svo annað mál að það er fordæmi fyrir bráðabirgðaákvæði ekki ólíku þessu.

Það ber ekkert mikið á milli okkar hv. 5. þm. Vestf., Kristins H. Gunnarssonar, um það meginatriði að vilji íbúanna eigi að ráða þegar um sameiningu er að ræða, þ.e. um prinsippið. Ég vil ekki fara að blanda mér í vangaveltur um stærðfræðilega möguleika sem kunna að vera á útkomu úr svona kosningum, þ.e. hve margir möguleikar gætu orðið, en ég lít svo á, herra forseti, að ef sameiningin yrði felld á Ísafirði þá sé komin upp alveg ný staða og óhjákvæmilegt að láta fara fram aðra kosningu. Þó að sameining yrði felld t.d. í Mýrahreppi eða jafnvel Þingeyri getur þetta orðið fullburðugt sveitarfélag og það eru ekki ólíkar kringumstæður, ekki gerbreyttar forsendur fyrir sameiningunni með fullri virðingu fyrir bæði Þingeyri og Mýrahreppi. En ég lít svo á að ef sameining félli á Ísafirði væri komin upp ný staða og alveg óhjákvæmilegt að láta fara fram sérstaka kosningu um nýja tillögu. Það er ekki mér að kenna að sveitarstjórnarmenn fyrir vestan hafa geymt þetta mál. Tímasetningunni ráða þeir og ég vil undirstrika að það er alfarið á valdi sameiningarnefndarinnar eða sveitarstjórnarmanna fyrir vestan hvaða dag kosningin fer fram. Félmrn. getur ekkert skipt sér af því. En vegna þeirra hörmulegu atburða sem urðu á Flateyri kann að vera að viðhorf þeirra hafi eitthvað breyst án þess að ég hafi á því sönnur enda hefur samninganefndin ekki hist eftir að slysið varð á Flateyri.

Þetta er ekki fordæmislaust. Það var ákvæði, eins og hv. 5. þm. Vestf. veit og gat um, til bráðabirgða við sveitarstjórnarlögin 1993 og ég ákvað að gera ákvæðið ekki varanlegt heldur verða við ósk þessara tilteknu sveitarfélaga og flytja þetta frv. Ekki er verið að leggja til að þetta verði viðvarandi regla og ég vek líka athygli á því að þetta ákvæði er þrengra en bráðabirgðaákvæðið var 1993, þar sem hér er ekki einasta krafist að það séu 2/3 sveitarfélaganna að tölunni til heldur líka að þar búi 2/3 af íbúunum.

Varðandi þau vandamál sem upp hafa komið í Vesturbyggð og bón þeirra á Bíldudal um að ganga úr sveitarfélaginu þá vil ég láta þess getið að ef það er t.d vilji þingmanna Vestfjarða að beita sér fyrir lagasetningu um að leysa sveitarfélagið Vesturbyggð upp er þeim að sjálfsögðu frjálst að flytja frv. þar um. Það er ekki hægt að gera nema með sérstakri lagasetningu á Alþingi og mér finnst eðlilegra að ef svo væri og sterkur vilji fyrir því að leysa sveitarfélagið upp þá væru það þingmenn kjördæmisins fremur en félmrn. eða félmrh. sem beittu sér fyrir því. Ég lít svo á að hér sé um að ræða sveitarfélög sem eru í landshluta sem eru í mjög erfiðri stöðu eins og stendur. Þarna hafa orðið miklar breytingar í samgöngubótum síðan síðasta atkvæðagreiðsla fór fram. Það liggur fyrir að göngin um Breiðadals- og Botnsheiði verða opnuð til almennrar umferðar strax upp úr áramótum og það breytir mjög miklu um samstarf þessara sveitarfélaga. Ég tel að sameining sveitarfélaga á þessu svæði geti verið lyftistöng og tryggt byggð á svæðinu en ég legg hins vegar áherslu á að það er auðvitað íbúanna sjálfra að meta það.