Færsla grunnskólans til sveitarfélaganna

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:01:32 (696)

1995-11-06 15:01:32# 120. lþ. 27.1 fundur 60#B færsla grunnskólans til sveitarfélaganna# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. menntmrh. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvar undirbúningsvinna varðandi færslu grunnskólans yfir til sveitarfélaganna sé á vegi stödd. Nú er það svo að tíminn líður hratt í þessu sambandi og það virðist óhjákvæmilegt að það þurfi að skýrast á allra næstu vikum, svo ekki sé sagt dögum, hvort raunhæft sé að reikna með að af þessari færslu geti orðið við mörk næstu skólaára og á í hönd farandi fjárlagaári. Þar eru mörg mál sem varða tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, réttindamál kennara og annað því um líkt, sem er gjörsamlega óhugsandi að verði látin hanga í lausu lofti. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh. í fyrsta lagi hvað líður störfum verkefnisstjórnarinnar sjálfrar og störfum þeirra þriggja undirnefnda sem eru þar að störfum og varðar réttindi kennara, tekjustofna og fagleg málefni. Mér er tjáð að óleyst vandamál og jafnvel ágreiningur séu enn uppi, í a.m.k. tveimur af þremur þessara nefnda.

Í öðru lagi spyr ég um kjarasamning kennara og undirbúning að þeim málum því að það virðist ljóst að ganga verði frá nýjum kjarasamningi við kennara á fyrstu mánuðum næsta árs ef ráðning þeirra til nýs vinnuveitenda á að geta farið eðlilega fram á vordögum.

Í síðasta lagi spyr ég hæstv. menntmrh. hvort það komi til greina að hans mati að þessi færsla fari fram á næsta ári ef ekki verður komin niðurstaða í öll þessi atriði fyrir áramót, þ.e. áður en gengið verður frá fjárlögum næsta árs á Alþingi í desember.