Rannsóknarlögregla ríkisins

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:10:00 (701)

1995-11-06 15:10:00# 120. lþ. 27.1 fundur 61#B Rannsóknarlögregla ríkisins# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:10]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. vita var ákveðið fyrir einu og hálfu ári að auka við fjárveitingar til Rannsóknarlögreglu til þess að gera henni frekar kleift að fást sérstaklega við efnahagsbrot. Auðvitað má ávallt um það deila hvort nægjanlegir fjármunir fari til þessa mikilvæga málaflokks að halda hér uppi virkri rannsóknarlöggæslu en ég tel að það hafi verið ágætlega vel staðið að framkvæmd þeirra mála að undanförnu og eins og fjárveitingar hafa verið eru þær auðvitað eins og allar fjárveitingar til opinberra verkefna sniðnar eftir þeim þrönga stakk sem við þurfum að búa við. En í meginatriðum hefur Rannsóknarlögreglan kappkostað við þær aðstæður að sinna verkefnum sínum af kostgæfni.