Tjón á dreifingarkerfi rafmagnsveitnanna

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:14:00 (705)

1995-11-06 15:14:00# 120. lþ. 27.1 fundur 62#B tjón á dreifingarkerfi rafmagnsveitnanna# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:14]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að það er áætlað af hálfu Rafmagnsveitna ríkisins að tjón í ofviðrinu nú um daginn hafi verið í kringum 400 millj. kr., 120--130 millj. kr. hjá Orkubúi Vestfjarða og mismunurinn á því og 400 millj. kr. sem er rúnnuð tala er þá það tjón sem Rafmagnsveitur ríkisins urðu fyrir. Hv. þm. kemur mér dálítið í opna skjöldu með því að spyrja um tjón þrjú ár aftur í tímann. Ég verð að viðurkenna að þær tölur hef ég ekki nákvæmlega fyrir framan mig í óundirbúinni fyrirspurn. Hins vegar er það rétt hjá hv. þm. að á undanförnum árum hafa menn gert átak í því að koma þessum strengjum, sem uppi hafa verið, í jarðstreng, einfaldlega til þess að koma í veg fyrir þessi tjón. Áætlað að kostnaður við að setja þetta í jörð á þeim svæðum þar sem hægt er að leggja með svona sæmilega búnum tækjum, jarðýtu og plóg og öðru slíku, sé álíka mikill kostnaður og við að byggja upp línurnar aftur. Það er því átak í gangi í þessum efnum og þetta verður sérstaklega skoðað nú. Hins vegar er það svo að á mörgum stöðum er alls ekki hægt að koma streng í jörðu. Hvort þetta átak hafi allt saman byrjað út af þeirri þáltill. sem hér var flutt fyrir nokkrum árum síðan þori ég ekki að leggja mat á og vil ekki leggja mat á. Hins vegar er tillagan hjá hv. þm. ágæt. Hún var hins vegar ekki samþykkt á þinginu, lá þar fyrir í iðnn. Það er verið að skoða málið, hv. þm.