Framtíð starfsmenntunar

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:17:42 (708)

1995-11-06 15:17:42# 120. lþ. 27.1 fundur 63#B framtíð starfsmenntunar# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:17]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Óhjákvæmilegt er þegar Borgarholtsskólinn tekur til starfa að breyting verði á verkaskiptingu framhaldsskólanna í Reykjavík. Það var einmitt það plagg sem var lagt fram á hinu háa Alþingi á fimmtudaginn var þar sem kynntar voru hugmyndir sem uppi eru um verkaskiptingu framhaldsskólanna. Eins og menn sjá ef þeir kynna sér það, þá eru þar vangaveltur um hlutverk Fjölbrautaskólans í Breiðholti og fleiri skóla. En ég sé ekki að unnt sé að túlka þær hugmyndir á þann veg að starfsmenntun verði hætt í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. En þetta er mál sem er til skoðunar í heild eins og liggur fyrir í þessu plaggi. Það er nú til umræðu í skólunum og verður til umræðu í menntmrn. og ákvarðanir verða teknar um þessi mál í ljósi þessara umræðna og þeirra tillagna sem fram koma. Öll gögn málsins hafa verið lögð fram á hinu háa Alþingi og menn geta kynnt sér þau, en ákvarðanir hafa ekki verið teknar. Framhaldsskólafrv. liggur fyrir og þar er lögð áhersla á að auka starsfmenntun. Ég tek því undir það með hv. þm. að það væri einkennilegt að leggja aukna áherslu á starfsmenntun ef síðan yrði dregið úr henni. En verkaskiptingin á milli skólanna er annað atriði sem menn verða að velta fyrir sér og taka afstöðu til í ljósi breyttra aðstæðna og heimildir um það hafa einnig verið kynntar hv. þingmönnum.