Neyðarlínan

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:23:51 (712)

1995-11-06 15:23:51# 120. lþ. 27.1 fundur 64#B Neyðarlínan# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:23]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hans svör. Hér hefur komið fram að lögreglan muni, alla vega að hluta til, standa fyrir utan þetta kerfi. Það kom ekki fram í svari hæstv. ráðherra hvort það sé rétt að Slökkviliðið í Reykjavík sé að leggja niður sína svörunarþjónustu.

Að mínu mati er hér um mikið alvörumál að ræða. Ég vil að það komi skýrt fram að ég tel það vera sjálfsagt framfaramál að samræma neyðarþjónustuna í landinu og þá með þeim hætti að einkafyrirtæki og félagasamtök komi þar að. Það er hins vegar grundvallaratriði að forsjá með slíkri þjónustu sé í höndum lögreglu og slökkviliðs, aðila sem búa yfir sérþekkingu og reynslu og lúta almannastjórn. Það hefur enginn amast við því að einkafyrirtæki bjóði upp á öryggisþjónustu, en forræði yfir neyðarþjónustu landsmanna á ekki að setja í hendur einkaaðila hversu góðir og gildir sem þeir kunna að vera og hvort sem þeir heita Slysavarnafélag Íslands, Vari, Sívaki eða Securitas. En hér hefur það verið upplýst að samkvæmt fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar verði þessir aðilar milligönguaðilar fyrir lögreglu og slökkvilið í landinu. Mér finnst þetta alvarlegt mál. Ég mun leggja fram fyrirspurn og óska eftir skriflegum svörum frá dómsmrn. og taka þetta mál upp að nýju í kjölfarið hér á Alþingi.