Eftirlit með dagskrárfé

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:27:45 (714)

1995-11-06 15:27:45# 120. lþ. 27.1 fundur 65#B eftirlit með dagskrárfé# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntmrh. í framhaldi af skriflegu svari hans við fyrirspurn minni um hvernig opinbert fé eins og styrkir úr Menningarsjóði útvarpsstöðva hefur skilað sér í dagskrárefni. Í skriflega svarinu kemur fram að hjá sjóðnum hafi ekki verið haldin heilstæð skráð um stöðu einstakra verkefna sem styrkt hafa verið. Mér telst til að af því opinbera fé sem ætlað var samkvæmt lögum að færi í menningarlega dagskrárgerð séu yfir 90 millj., að ótöldu því fé sem er í verkefnum í vinnslu og í úthlutun frá því í ár, sem ekki hefur verið gerð grein fyrir hvort eða hvernig hafi skilað sér í dagskrá ljósvakamiðlanna. Hvað hyggst hæstv. menntmrh. gera til að fylgjast betur með því að opinbert fé skili sér í þau verkefni sem þeim er ætlað samkvæmt lögum, í þessu tilviki styrkveitingar úr Menningarsjóði útvarpsstöðva? Mun hann leggja vinnu í að kanna afdrif þessara a.m.k. 90 millj. sem ekki fengust upplýsingar um í skriflega svarinu við fsp. minni?