Úthlutunarreglur Lánasjóðs ísl. námsmanna

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:31:42 (718)

1995-11-06 15:31:42# 120. lþ. 27.1 fundur 66#B úthlutunarreglur Lánasjóðs ísl. námsmanna# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur


[15:31]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Nú er það svo að árið 1994 voru samþykkt í sölum Alþingis lög um húsaleigubætur. Samkvæmt 1. gr. laganna er meginmarkmið þeirra að jafna aðstöðumun á húsnæðismarkaði á milli þeirra sem leigja húsnæði annars vegar og hins vegar þeirra sem eiga húsnæði eða eins og segir í 1. gr. laganna að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum.

Nú skilst mér að við úthlutun lána úr Lánasjóði ísl. námsmanna sé það svo að húsaleigubætur komi til frádráttar námsláni en vaxtabætur ekki og mér sýnist það vera í andstöðu við meginmarkmið laganna um húsaleigubætur. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann telji þessa framkvæmd vera í samræmi við markmið laganna um húsaleigubætur og ef svo er hvort hann hyggist þá beita sér fyrir því að framkvæmdin við úthlutun úr lánasjóðnum sé í samræmi við það meginmarkmið.