Ríkisreikningur 1991

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:45:14 (730)

1995-11-06 15:45:14# 120. lþ. 28.2 fundur 87. mál: #A ríkisreikningur 1991# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[15:45]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1991. Þetta er stjfrv., 87. mál þingsins á þskj. 88.

Frv. er samið eftir ríkisreikningi fyrir árið 1991 en hann var lagður fyrir Alþingi með bréfi fjmrh. til forseta Alþingis í janúar 1993. Frv. þetta var fyrst flutt á vorþingi 1993 og er því flutt óbreytt í fjórða sinn og reyndar er þetta í fjórða sinn sem ég flyt framsöguræðu fyrir þessum reikningi. Á dagskrá fundarins í dag er enn fremur ríkisreikningur 1992 og fram munu koma á næstu dögum ríkisreikningar vegna áranna 1993 og 1994.

Varðandi greinargerð um niðurstöðu og framvindu ríkisfjármála á árinu 1991, vísast til endurskoðunarskýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 1991 og skýrslu fjmrh. frá því í febrúar 1992 um ríkisfjármál á árinu á undan, þ.e. árinu 1991.

Ég mun ekki fara ítarlega yfir þetta frv. Það hef ég gert þrisvar áður í framsöguræðu, en í áritun Ríkisendurskoðunar með ríkisreikningi 1991 er gerð athugasemd við færslu á áföllnum skuldbindingum Framkvæmdasjóðs Íslands. Telur Ríkisendurskoðun að þessar skuldbindingar hefði átt að færa í ríkisreikninginn 1992 þar sem þá fyrst hafi Alþingi formlega heimilað yfirtöku á hluta af skuldum Framkvæmdasjóðs Íslands. Um þetta mál er reyndar fjallað á bls. 11 og 12 í athugasemdum við lagafrv. þetta.

Ágreiningur Ríkisendurskoðunar og fjmrn. felst í því að Ríkisendurskoðun telur að ekki megi undir neinum kringumstæðum bókfæra yfirtöku ríkissjóðs á skuldbindingum hans nema að undangenginni staðfestingu Alþingis í hverju tilviki. Er það óháð því hvort fyrir liggi skýlaus ábyrgð ríkissjóðs í lögum en fjmrn. lítur hins vegar svo á að markmið reikningsskilanna sé að sýna ávallt stöðu ríkissjóðs eins og hún sé best þekkt á hverjum tíma.

Það er óþarfi, virðulegi forseti, að fara frekar út í þetta mál. Aðalatriðið er auðvitað að hv. fjárln. fjalli um málið og reikninginn og hann fái þinglega meðferð. Því miður hefur þetta tafist allt of lengi en vonandi tekst nú þegar haldið er af stað í fjórða sinn að fá niðurstöðu í þetta mál enda hafa önnur mál tafist vegna þessa eins og ríkisreikningur 1992 og 1993.

Ég leyfi mér í lok þessa máls míns að gera tillögu um það að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln.