Fjáraukalög 1994

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:51:01 (732)

1995-11-06 15:51:01# 120. lþ. 28.4 fundur 45. mál: #A fjáraukalög 1994# (niðurstöðutölur ársins) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[15:51]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til síðari fjáraukalaga ársins 1994 sem lagt hefur verið fram á þskj. 45 og er 45. mál þingsins. Frv. var áður flutt á vorþingi en fékk ekki afgreiðslu þá og er nú endurflutt óbreytt.

Með frv. eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöðutölur ársins 1994, annars vegar um óhafnar fjárveitingar og hins vegar um greiðslur úr ríkissjóði umfram þær heimildir sem veittar voru af Alþingi í fjárlögum ársins 1994 og lögum nr. 143/1994, fjáraukalögum fyrir árið 1994.

Frv. að fyrri fjáraukalögum ársins 1994 var lagt fram á Alþingi 10. okt. það ár. Í greinargerð frv. er farið yfir helstu þætti ríkisfjármála á árinu 1994 og rakin frávik tekna og gjalda frá fjárlögum. Þar eru einnig ítarlegar skýringar á nýjum fjárveitingum sem óskað var eftir til viðbótar við heimildir fjárlaga. Þá var 20. febr. sl. lögð fyrir Alþingi Skýrsla um ríkisfjármál fyrir 1994, þar sem afkoma ríkissjóðs eftir greiðsluuppgjör ríkisbókhalds er rakin með samanburði við áform samkvæmt fjárlögum. Ég tel því ástæðulaust að fjalla um einstök mál eða lagagreinar frv. heldur mun ég einungis rifja upp meginatriðin í niðurstöðum ársins 1994.

Það sem stendur auðvitað upp úr er að greiðsluhalli ríkissjóðs á árinu 1994 varð 7,4 milljarðar kr. eða 2,3 milljörðum lægri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Miðað við útkomu ársins 1993 varð batinn á afkomunni heldur meiri að raungildi.

Heildartekjur ríkissjóðs árið 1994 urðu 109,6 milljarðar kr. eða 2,8 milljörðum hærri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum og fyrri fjáraukalögum ársins 1994 enda var framvinda efnahagsmála hagstæðari en áætlanir spáðu fyrir um. Heildarútgjöld reyndust vera 117 milljarðar kr. eða 2,8 milljörðum kr. lægri en samþykktar heimildir. Stafar það í fyrsta lagi af nokkrum stórum liðum sem reyndust hafa verið ofmetnir, svo sem atvinnuleysisbætur, vextir og ríkisábyrgðir. Í öðru lagi komu nokkrir liðir af ýmsum ástæðum að hluta til ekki til greiðslu fyrr en á árinu 1995, svo sem framlög vegna aðstoðar fyrir Vestfirði, framlög til alþjóðamála og stofnkostnaður hæstaréttarhúss. Ég bendi á að frávik hvers ráðuneytis frá fjárlögum eru rakin nánar í skýringum við 3. gr. frv. Í frv. er leitað staðfestingar á þeim greiðslum sem voru umfram fjárlög ársins 1994. Varðandi þær tölur vek ég athygli á yfirliti á bls. 10 í greinargerð með frv. þar sem sýnd eru umframgjöld og óhafnar fjárveitingar ráðuneyta ársins 1994. Þar eru einnig kynntar tillögur um hvernig tekið verði tillit til þessarar greiðsluniðurstöðu fjárlagaliða árið 1994 með breytingum á fjárveitingum fjárlaga 1995. Greint er frá einstökum atriðum í þeim tillögum í athugasemdum við 3. gr. frv. Þær tillögur eru eðli máls samkvæmt hins vegar ekki fluttar fyrr en í frv. til fyrri fjáraukalaga ársins 1995. Tel ég ekki tilefni til þess að gera nánari grein fyrir þeim atriðum að sinni þar sem þau mál eru til umfjöllunar í tengslum við frv. til fjáraukalaga 1995 en það frv. hefur þegar gengið til nefndar.

Virðulegi forseti. Það er kannski ástæða til þess enn einu sinni að rifja upp hvernig yfirfærsla milli ára er hugsuð. Á bls. 10 er tafla sem er í nokkrum dálkum. Fyrsti dálkurinn ber yfirskriftina Umframgjöld árið 1994. Annar dálkurinn ber nafnið Óhafið 1994. Síðan eru dálknarir c, d, e og f. Sá fyrsti þeirra er Rekstur, flutt umframgjöld, annar dálkurinn, þ.e. d-dálkurinn, reyndar fjórði dálkurinn frá vinstri, er Rekstur, fluttur afgangur, e-liðurinn Tilfærslur, flutt staða og f-liðurinn Stofnkostnaður og viðhald, flutt staða. Þeir sem fylgjast með á bls. 10 þurfa að taka b-liðinn, þ.e. heimildir sem voru ekki notaðar fyrir árslok 1994, þ.e. dálkurinn Óhafið 1994 og draga frá þessum dálki samanlagðar tölur í dálkunum d, e og f og með því að gera það fást út þær heimildir sem ekki verða og eru notaðar. Ekki veit ég, virðulegi forseti, hvort skýring mín var til bóta með því að fletta upp á bls. 10 en ég er þess fullviss að a.m.k. hv. fjárln. sem fjallar um málið hefur náð fullu valdi á þessum útreikningi og getur þá a.m.k. leitað sér aðstoðar hjá starfsmönnum fjmrn. Þess er vænst að þegar ný lög hafa verið samþykkt um fjárreiður ríkisins verði þetta allt mun einfaldara en er í greinargerðum frumvarpa sem eru nú lögð fram af hálfu fjmrn. til fjárlaga.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til hv. fjárln. að aflokinni 1. umr. og síðan til 2. umr.