Vörugjald af olíu

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 15:58:17 (733)

1995-11-06 15:58:17# 120. lþ. 28.5 fundur 111. mál: #A vörugjald af olíu# (frestun gildistöku) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[15:58]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. sem finna má á þskj. 117 og er 111. mál þingsins. Með frv. þessu er lagt til að gildistöku laga nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, verði frestað um tvö ár.

Í lok febrúar sl. samþykkti Alþingi frv. til laga um vörugjald af olíu. Lögin áttu að taka við af lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Gildistími breytingarinnar er 1. jan. nk. Frv. var samið að tillögu starfshóps sem lagði til að tekið yrði upp olíugjald í stað þungaskatts. Starfshópurinn lagði til að tekið yrði til að byrja með upp olíugjaldskerfi án litunar gjaldfrjálsrar olíu en áfram yrðu kannaðir möguleikar á litun gjaldfrjálsrar olíu og fylgst með þróun annarra þjóða á því sviði. Ástæða þess að ekki var lagt til að taka upp litunarkerfi hér á landi var að hefðbundnar leiðir til litunar miðað við stærð markaðarins voru óheyrilega dýrar.

Í meðförum þingsins var frv. sent hagsmunaaðilum til umsagnar. Margir hagsmunaaðilar voru jákvæðir fyrir því að taka upp olíugjald í stað þungaskatts en gerðu athugasemdir við upphæð gjaldsins og eftirlitsleið. Töldu þeir að litunarleið væri heppilegri til eftirlits en svokölluð endurgreiðsluleið sem frv. gerði ráð fyrir. Ekki gafst tími til að ræða þessi mál rækilega við hagsmunaaðilana á annasömum dögum rétt fyrir þinglok. Þess vegna var sett inn í lögin bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið var á um að skipuð yrði sérstök samráðsnefnd til að vera til ráðgjafar um undirbúning framkvæmdar og til að kanna nánar forsendur sem liggja til grundvallar fjárhæð gjaldsins. Í nefndinni skyldu vera fulltrúar fjmrn., skattyfirvalda, olíufélaga, Vegagerðarinnar og annarra hagsmunaaðila.

[16:00]

Í maí skipaði ég fyrrnefnda samráðsnefnd og skilaði hún skýrslu um niðurstöður sínar 5. október sl. Niðurstaða nefndarinnar var þessi:

Gildistöku laga nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, sem koma eiga til framkvæmda um næstu áramót verði frestað um tvö ár meðan unnið er að útfærslu hagkvæmrar litunarleiðar í stað endurgreiðsluleiðar. Stefnt verði að því að leggja fram breytingarfrv. um lögin á árinu 1996 þar sem olíugjald með litun hefur verið útfært í lagatexta.

2. Lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, verði áfram í gildi þar til olíugjaldið með litun gjaldfrjálsrar olíu verði komið á. Lögin verði þó endurskoðuð til að styrkja eftirlit og bæta úr helstu agnúum. Jafnframt verður eftirlit með ökumælum aukið.

3. Skipuð verði ný nefnd, eða nefndir, til að útfæra litun gjaldfrjálsrar olíu, endurskoða lögin um fjáröflun til vegagerðar og athuga nánar forsendur gjaldsins og áhrif.

Ástæður fyrir þessum tillögum nefndarinnar eru þær að um miðjan september sl. bárust upplýsingar frá Danmörku um að olíufélögin þar í landi hefðu þróað tækjabúnað til að lita olíu við afhendingu úr birgðageymum og olíu úr flutningabifreiðum eða tankbifreiðum sem flytja olíu.

Danir þurfa eins og aðrar þjóðir Evrópusambandsins að taka upp litun gjaldfrjálsar olíu. Dönsk skattyfirvöld hafa ásamt rannsóknarfyrirtækinu Force institutet, tekið þátt í því að fullreyna ofangreinda litunaraðferð sem virðist mun hagkvæmari bæði með tilliti til fjárfestingar og dreifingarkostnaðar. Dönsk skattyfirvöld hafa lagt áherslu á að olíufélögin geti sýnt fram á að búnaðurinn sé öruggur og að afhending litaðrar olíu sé trygg þannig að ekki geti átt sér stað misferli við afhendingu úr olíuflutningabirgðum. Niðurstaða hvað varðar tæknibúnaðinn liggur nú fyrir og eru aðilar sammála um að búnaðurinn sé fullnægjandi. Hins vegar eru þeir þættir málsins sem snúa að umhverfismálum enn til skoðunar hjá þar til bærum yfirvöldum í Danmörku. Meiri hluti nefndarinnar telur að þessi þróun mála geti gert kleift að taka upp ódýra litunaraðferð hér á landi innan tveggja ára en litun gjaldfrjálsrar olíu er tvímælalaust besta aðferðin til að tryggja gjaldheimtuna. Ástæða þess að sú leið var ekki farin við setningu laga nr. 34/1995 var hversu hefðbundnar leiðir við litun og dreifingu litaðrar olíu eru kostnaðarsamar. Í ljósi þess að fyrirsjáanlegt er að unnt verði að taka upp litun með tiltölulega hagkvæmum hætti, telur meiri hluti nefndarinnar óráðlegt að leggja í kostnað við að byggja upp endurgreiðslu- og eftirlitskerfi til nota í stuttan tíma. Ljóst er að til þess að endurgreiðslukerfi geti gengið á fullnægjandi hátt þarf að byggja á mikilli skráningarvinnu hjá aðilum sem ekki eiga að bera gjaldið, bæði vegna olíunotkunar og við verkbókhald. Einnig þarf að ráða fólk til bókhaldseftirlits og til að safna stoðupplýsingum til nota við eftirlitið. Þá mun skattyfirvöldum verða mikil fyrirhöfn að sannreyna olíueyðslu ökutækja jafnt sem vinnuvéla þar sem eyðslan er háð því hvers konar verkefni og aðstæður unnið er við. Ávallt mun því verða til staðar óvissa um olíueyðslu sem veikir að sjálfsögðu möguleika skattyfirvalda til að sýna fram á misnotkun. Í litunarkerfi er unnt að beina innheimtu olíugjalds beint að þeim sem eiga að bera gjaldið, þ.e. eigendum skráningarskyldra ökutækja. Aðrir geta fengið litaða olíu án gjalds og losna þeir þannig við alla fjárbindingu og umstang við endurgreiðslur og bókhald. Eftirlitið er fyrst og fremst með skráningarskyldum ökutækjum og snýst um að kanna hvort á ökutækin er notuð lituð olía.

Nefndarmenn telja að innheimta skatts með ökumælum sé sem fyrr annmörkum háð en benda hins vegar á að eftirlit með ökumælum hefur aukist í kjölfar þess að Vegagerðin tók við því. Eftirlitsmönnum hefur fjölgað og telja fulltrúar Samtaka landflutningamanna að eftirlitið veiti nú mun meira aðhald en áður. Ástæða er til að ætla að aukið eftirlit með þungaskattsmælum geti skilað enn meiri árangri en raun er á. Í ársbyrjun 1994 tók Vegagerðin við þessu hlutverki og var þá skömmu síðar eftirlitsmönnum fjölgað úr tveimur í sjö. Tölur úr ríkisbókhaldi gefa til kynna að skil af þungaskatti hafi batnað. Fulltrúi Vegagerðarinnar hefur lýst stofnunina reiðubúna til að leggja mannafla og kostnað í enn umfangsmeira eftirlit enda fullviss um bættan árangur. Undirbúningur að lagfæringum að þungaskattskerfinu til næstu tveggja ára er þegar hafin í fjmrn. í samvinnu við fulltrúa Vegagerðarinnar.

Það er ástæða til að segja frá því, forseti, að auðvitað er að leitt að þurfa að flytja frv. eins og þetta. Ákjósanlegast er auðvitað fyrir þá sem þurfa að bera skatta að þeir geti treyst því að frv. sem hér eru samþykkt standi en ekki þurfi nokkrum mánuðum síðar að koma aftur til Alþingis og biðja um frest. Frá þessu máli var þó þannig gengið í hv. efh.- og viðskn. að þeir aðilar sem heimsóttu nefndina, þar á meðal fulltrúar olíufélaganna, bentu á að sú tækni sem ég hef minnst á gæti hafið innreið sína fyrr en ætlað hefði verið og í trausti þess að nefndin sem fór yfir málið fram til hausts tæki slíkt til athugunar féllust olíufélögin og reyndar nokkrir aðrir aðilar á samþykkt frv. á sl. vori. Nú hefur komið í ljós að tækninni fleygir ört fram. Þá stóðu stjórnvöld frammi fyrir þeirri spurningu hvort ástæða væri til þess að fresta málinu um eitt eða tvö ár því að margra áliti er hér um framfaraspor að ræða. Það var að mínu frumkvæði að frestunin er í tvö ár vegna þess að ég tel ótækt annað en að nægilegt ráðrúm fáist til að komast að endanlegri niðurstöðu. Og þá sé betra að hafa frestinn lengri og freista þess að niðurstaðan standi lengur en a.m.k. sú sem fékkst á hinu háa Alþingi á sl. vori.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar um frv. þetta að svo stöddu en legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. Ég hefði þó átt að minnast á það í mínu máli að nefndarmenn eru allir sammála þessari niðurstöðu utan einn, en það er fulltrúi LÍÚ. En þess skal getið að þetta gjald hefði engin áhrif haft á íslenska far- eða fiskiskipaflotann þannig að út af fyrir sig hafði það ekki hina minnstu þýðingu fyrir LÍÚ hvort þetta vörugjald á olíu var við lýði eður ei.