Vörugjald af olíu

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 16:09:42 (734)

1995-11-06 16:09:42# 120. lþ. 28.5 fundur 111. mál: #A vörugjald af olíu# (frestun gildistöku) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[16:09]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Mig rak nú vægast sagt í rogastans þegar ég sá þetta frv. framkomið því að ég man ekki betur en að það hafi verið nánast upp á líf og dauða að afgreiða þau lög sl. vetur sem hér er svo verið að fresta. Ef ég man rétt, voru þær breytingar sem þá var verið að gera hluti af öllu EES-dæminu þar sem verið var að samræma álagningu á olíu við þær reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þannig að maður spyr nú stundum: Í hvað erum við að eyða tímanum hér á hinu háa Alþingi? Þær athugasemdir sem hæstv. fjmrh. minntist á í ræðu sinni komu auðvitað fram við meðferð málsins. En þetta er niðurstaðan og það kann að vera að ýmis rök mæli með því að fresta lögunum. En það er fyrst og fremst eitt atriði sem olli því að ég ákvað að stíga hér í stólinn að þessu sinni og það er sú umfjöllun sem hér á sér stað um litun á olíu. Ég vil koma því hér á framfæri að það kom fram í umfjöllun í efh.- og viðskn. að litun sú sem á sér stað úti í Evrópu sé mjög mengandi. Mjög sterk efni eru notuð við þessa litun og við fengum fregnir af því að lituð olía valdi jafnvel sjúkdómum bæði hjá þeim sem eru að afgreiða olíu og eins hafi þetta komið upp meðal bænda í Noregi sem eru skattskyldir í þessum efnum. Því vil ég beina því til hæstv. fjmrh. og í framhaldi við meðferð þessa máls að menn kanni vel hvað það er sem á að fara að innleiða. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. að menn töldu að þessi litunarleið væri mjög dýr og ef til vill er það rétt að menn séu að finna einhverjar ódýrari aðferðir en mér finnst skipta mjög miklu máli í þessu samhengi að það sé ekki verið að skapa þeim nýjar hættur sem starfa við afgreiðslu á olíu eða vinna með bíla og vinnuvélar og skip eða öðrum þeim sem koma nálægt þessu. Þess vegna spyr ég hæstv. fjmrh. hvort hann hafi kynnt sér mengunarhliðina á þessu máli. Hafi hann ekki gert það þarf að gera það í hv. efh.- og viðskn. þegar þar að kemur. En auðvitað gengur þetta mál fyrst og fremst út á það að fresta sjálfum lögunum og eins og ég nefndi hér í upphafi þá kemur það mér mjög á óvart að sú staða skuli komin upp.