Vörugjald af olíu

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 16:14:38 (736)

1995-11-06 16:14:38# 120. lþ. 28.5 fundur 111. mál: #A vörugjald af olíu# (frestun gildistöku) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[16:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins fáein orð í viðbót við þessa heldur dapurlegu umræðu um þetta frestunarmál. Ég held að það geti enginn verið stoltur af því, hvorki við sem lögðum hér hönd á plóginn í hv. efh.- og viðskn. eða á Alþingi við að afgreiða þetta á sl. vori og enn síður hæstv. ráðherra sem flytur þetta, að lagasetningin gangi til með þessum hætti. Ef eitthvað er hægt að læra af svo snautlegri niðurstöðu, sem heldur er ekkert einsdæmi, ætti það að vera að það er ótækt að lögfesta breytingar með þeirri aðferð sem hér var viðhöfð. Að standa frammi fyrir óleystum vandamálum tæknilegum, lagalegum eða efnislegum í einhverjum skilningi, ákveða að setja þau mál í nefnd og gefa þeirri nefnd tiltekinn tíma og gefa sér fyrir fram að vandamálin leysist á nokkrum mánuðum og í kjölfarið skuli lögin koma til framkvæmda. Svo bara gerist það aftur og aftur að vandamálin leysast ekki. Þau reynast erfiðari en menn höfðu reiknað með og uppskeran er eins og raun ber vitni. Og hver er þá niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að menn eru að hringla með lagasetninguna. Þetta er annað mjög dapurlegt dæmi á skömmum tíma þar sem verið er að hringla með lagasetningu. Og á síðustu stundu, jafnvel nokkrum dögum áður en efnisákvæði nýrra laga eiga að verða virk, dæmi lyfjalög, er svo skotið inn frestun á málinu. Þetta er alveg ótækt.

Ég segi þetta þótt ég beri auðvitað ábyrgð á því eins og aðrir sem stóðu að því að lögfesta breytinguna hér með þessum hætti. Ég gerði það að vísu með böggum hildar, herra forseti, því mér var alveg ljóst að það var ólíklegt að það mundu gerast kraftaverk á þessu sumri og vandamál sem menn hafa glímt við bæði hér á landi og víða erlendis og reynst hafa torleyst hyrfu eins og dögg fyrir sólu. Eins og það að finna einfalt en skilvirkt eftirlitskerfi með því hverjir skyldu vera undanþegnir þessum gjöldum og hverjir ekki og hvernig það yrði hert. Eða hin vandamálin varðandi eftirlit í gegnum litun en það átti nú ekki að koma mönnum á óvart hver staðan væri í því máli. Mér þykir það satt best að segja merkilegt ef ég hef heyrt rétt hjá hæstv. ráðherra hér áðan að menn hefðu verið að fá einhverjar nýjar upplýsingar um þetta í september frá Danmörku. Ég veit ekki betur en að þessar upplýsingar hafi í raun og veru allar legið meira og minna fyrir. Það er a.m.k. vitað að það hefur verið unnið að því og rannsóknir á því a.m.k. í ár ef ekki tvö ár í Danmörku og víðar, hélt ég nú, hvort hægt sé að koma við litun í dælum, litun á afgreiðslustöð þannig að ekki þurfi að byggja upp tvöfalt dreifikerfi olíu um allt landið, annars vegar fyrir litaða og hins vegar fyrir ólitaða. Sömuleiðis eru engar nýjar fréttir í þessu mengunarvandamáli, a.m.k. ekki fyrir okkur sem áttum sæti á sl. vetri í efh.- og viðskn., því það er búið að vera til umræðu í einhver missiri að þarna kynni að vera á ferðinni hættulegur, jafnvel krabbameinsvaldandi mengunarvaldur. Því finnst mér það svolítið skrýtið ef verið er að færa það fram sem einhver veigamikil rök hér að einhverjar nýjar upplýsingar af þessu tagi hafi komið inn í umræðuna óforvarindis um miðjan september.

Það er hið versta mál að þurfa að fresta þessu því mælakerfið gamla sem við Íslendingar rekum, ég held ábyggilega einir þjóða orðið, er alveg gjörsamlega ónýtt og það skapar hreinlega margháttuð vandræði í rekstri í dag. Fyrir utan fáránleikann að ef sú stefna liggur fyrir og allir eru sammála um að stefna beri að skatttökunni í gegnum olíuna að þvinga menn þá til að halda þessu áfarm og fjárfesta í mælum enn í tvö ár sem er afar vont satt best að segja. Ég veit ekki betur en að það séu hreinlega orðin vandræði að fá þessa mæla og nothæf eintök enda heimsmarkaðurinn ekki stór fyrir þessa mæla þar sem Íslendingar eru eina þjóðin í víðri veröld sem notar þá með þessum hætti. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki til viðtals um það og ráðuneytið að það verði reynt að finna einhverja einfaldari lausn gagnvart meðferð málsins í þessi tvö ár, t.d. hvað snertir ný ökutæki. Mér finnst það sárgrætilegt ef það þarf að fara að tína saman rusl í einhverja mæla og fjárfesta í því að setja þá í bíla sem verða keyptir inn eða settir á götuna á þessum millibilstíma og spurning hvort hægt væri að láta nægja að lesa af hefðbundnum mælum eða ökuritum í slíkum nýjum ökutækjum sem kæmu þá til sögunnar á þeim tíma sem eftir er þar til skattlagningin fer yfir í olíuna. Nóg er víst samt sem verið er að þvinga menn til að gera í sambandi við langferðabíla og vöruflutningabíla og hvað það nú er vegna heimskulegra reglugerða eftirlitsofstækis frá Evrópusambandinu sem mér skilst að við séum varnarlaus gagnvart að taka upp með ærnum tilkostnaði.

Herra forseti. Þetta er hið versta mál. En sjálfsagt er það rétt sem hér er fram fært að málið sé ótækt í þeim skilningi að láta það koma til framkvæmda nú eins og ætlunin var um áramótin. Þá er ég út af fyrir sig sammála ráðherranum um að það er skárra að fresta því í tvö ár og hafa þá sæmilega traustar forsendur til að ætla að það haldi og ekki þurfi þá að koma til enn frekara hringl með þetta. Auðvitað væri hægt að hugsa sér að þetta væri þannig úr garði gert að ef aðstæður leyfðu þá mætti þetta koma fyrr til framkvæmda. En ef sú leið er hvort sem er valin sem hér er lögð til og er út af fyrir sig smekksatriði, að láta lögin um olíugjald vera í gildi en fresta gildistöku þeirra um tvö ár, í staðinn fyrir að fella þau þá úr gildi og láta eldri ákvæði gilda þangað til aftur yrðu sett lög þegar menn væru tilbúnir með endanlega útfærslu á málinu. Það er ekki heldur til fyrirmyndar að vera með þykka lagabálka óvirka inni í lagasafninu um eitthvert árabil af því að það sé fyrirhuguð gildistaka á þeim einhvern tímann í framtíðinni. Þannig að allt er þetta svona heldur óáferðarfallegt, herra forseti.

Ég hefði talið satt best að segja að annað eins hefði nú verið reynt og önnur eins áhætta hefði verið tekin eins og sú að láta þetta ganga í gegn engu að síður og láta reyna á eitthvert eftirlit með þessu. Mér finnst stundum eins og menn séu sokknir í það far hér þegar vissir þættir eiga í hlut í þjóðlífinu að það sé gengið út frá því að allir séu svindlarar. Og ef menn hafi ekki fyrir fram alveg gjörsamlega öruggt kerfi til að koma í veg fyrir að menn svindli þá muni allir gera það. Er þetta þannig að mannskepnan sýni sig í því í öllum tilvikum, smábátasjómenn eða bændur og fiskimenn eða aðrir þeir sem hér ættu undir og ættu að fá gjaldfría olíu að það sé gefið mál að þeir muni allir svindla nema til sé fullkomið eftirlitskerfi til að koma í veg fyrir það. Er ekki alveg hægt að ætla hið gagnstæða, að það væri hægt að láta þetta ganga í gildi með einhverju hóflegu eftirliti eins og menn telja fullnægjandi á ýmsum öðrum stöðum í þjóðlífinu og láta á það reyna hvort það tækist ekki að framkvæma það þannig? Ég hef stundum tekið dæmi af þeim reglum sem við setjum í sambandi við umferðina. Ég verð ekki var við að menn telji að þar sé ekki hægt að setja ýmsar almennar reglur, boð og bönn, og ætla mönnum svona að breyttu breytanda að virða þau. Og svo sé kannski eitthvert minni háttar eftirlit eða stikkprufur framkvæmdar til að ganga úr skugga um að svo sé. Þetta ræddum við í öðru samhengi á sl. vori þegar ekki var hægt að taka upp sóknardagakerfi á smábátasókn vegna þess að það væri alveg öruggt mál að menn mundu misfara með þær reglur svo heiftarlega nema komið væri fullkomið gervihnattaeftirlit sem vaktaði menn á nóttu sem degi, hverja einustu hreyfingu sem skeljarnar tækju á sig. Ég veit ekki á hvaða braut menn eru ef menn ganga alltaf út frá því að það sé ekki hægt að gera neitt af þessu tagi öðruvísi en að svona gífurlegt eftirlit af hálfu stóra bróður sé þar á ferðinni. En þetta er kannski í samræmi við nýju stjórnarstefnuna og þá frelsisást sem þeir sem þar ráða húsum gefa sig nú alveg sérstaklega út fyrir á tyllidögum.

Ég ætla ekki að hafa um þetta mál fleiri orð, herra forseti, svo dapurlegt sem það er enda á ég væntanlega kost á því að fylgja því eftir í hv. þingnefnd, ef fallist verður á það þrátt fyrir heldur slaka frammistöðu sömu nefndar á fyrra þingi að hún fái það til meðferðar.