Vörugjald af olíu

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 16:35:56 (741)

1995-11-06 16:35:56# 120. lþ. 28.5 fundur 111. mál: #A vörugjald af olíu# (frestun gildistöku) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[16:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt athugað hjá hv. 9. þm. Reykv. að þegar lesinn er textinn með grg. frv. nú þá kveður þar verulega við annan tón en að látinn var uppi með málinu hér sem stjórnarfrv. á sl. vetri. Ég fullyrði að ef efh.- og viðskn. hefði verið bombarderuð með svona rökum gegn þessu endurgreiðslukerfi hefði hún ekki látið sér detta í hug að afgreiða málið frá nefndinni á sl. vetri. Þar var þvert á móti talið að ekki væri ástæða til að hafa í sjálfu sér áhyggjur af stóru, gjaldfríu notendunum, þ.e. flotanum og kannski landbúnaðinum þar sem um væri að ræða niðurfellingu eða endurgreiðslu. Það væru fyrst og fremst ákveðin jaðartilvik þar sem um blandaðan rekstur aðila væri að ræða, sem væri áhyggjuefni, þar sem til að mynda verktakafyrirtæki eða aðrir slíkir aðilar væru með hvoru tveggja í gangi, gjaldskylda bílaútgerð og hins vegar þungavinnuvélar, jarðýtur eða annað því um líkt sem ekki er ætlunin að fara að leggja á vegaskatt. Það væri aðaláhyggjuefnið og aðalúrlausnarefnið að finna eftirlitsmöguleika og upplýsingar um hvernig hægt væri þá að nota upplýsingar úr bókhaldi og rekstri viðkomandi fyrirtækja til þess að hafa þar eftirlit. Annað tveggja hefur þarna gerst, að mönnum hefur snúist allverulega hugur eða að aðrir hafa verið höfundar að þessum texta en þeir hinir sem sömdu framsöguræður og grg. eða aðstoðuðu ráðherrann í þeim efnum á sl. vetri eða mættu fyrir efh.- og viðskn. En meira er ekki um þetta að segja. Ég held að þau orð séu öll komin fram sem eru við hæfi í sambandi við þetta mál.