Lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 17:08:24 (746)

1995-11-06 17:08:24# 120. lþ. 28.7 fundur 79. mál: #A lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra# frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[17:08]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að gefa í skyn að ég og hv. 10. þm. Reykv. værum fullkomlega sammála í öllu sem snertir lífeyrissjóðsmálin. Og ekki ætla ég heldur að fara að endurtaka umræðu okkar frá því á 117. löggjafarþingi um frelsi í lífeyrismálum. En ég tel hins vegar að það sé mjög mikilvægt að framgangur þessara mála sé tengdur og þá geri ég mér fullkomlega grein fyrir þeim vanda sem uppi er í Lífeyrissjóði sjómanna hvað varðar örorkuna. En ég tel jafnframt að það sé jafnvel auðveldara að leysa slík vandamál vegna einstakra starfsstétta sem búa við sérstök skilyrði í kerfi sem er opnara og frjálsara þar sem jafnvel er mögulegt, eins og kom fram í ræðu hv. þm., að tengja eða rjúfa þá tengingu sem nú er á milli örorkubóta og síðan lífeyrisins sjálfs. Slíkt opnara og frjálsara kerfi mundi gera okkur auðveldara að leysa sértæk og sérstök vandamál einstakra stétta og jafnframt tryggja kjör þeirra í ellinni og ef vandræði steðja að, betur en við gerum í dag.