Lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 17:10:03 (747)

1995-11-06 17:10:03# 120. lþ. 28.7 fundur 79. mál: #A lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra# frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[17:10]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal á heiður skilið fyrir frumkvæði sitt að því að undirbúa og flytja þetta mál hér á Alþingi. Það hefur lengi verið svo að hv. þm. hefur vafist nokkuð tunga um tönn þegar þeir lýsa almennt séð skoðunum sínum á lífeyrismálum, einfaldlega vegna þess að það fyrsta sem þeim er á bent þegar þau eru til umræðu, er að sjálfir njóti þeir réttinda svo langt umfram það sem þeir standa sjálfir undir með greiðslum sínum í lífeyrissjóð að þetta er gjarnan nefnt sem fyrsta dæmið um þá mismunun sem í kerfinu er. Þótt ekki væri nema fyrir það eitt að horfast í augu við þessa staðreynd og koma með tillögur til úrbóta, þá er það lofsvert og gagnlegt, sér í lagi ef það leiðir síðan til þess að þingmenn manni sig nú upp í að taka á þessu máli í heild. Því sannleikurinn er sá að skipan lífeyrismála er að verða, og er reyndar þegar orðið, eitt af eilífðarmálunum í íslenskum stjórnmálum. Það er svo langt síðan að settar voru niður stórar nefndir og reynt að ná pólitísku samkomulagi um að ráða bót á augljósum göllum sem allir viðurkenna og finna heildarlausn og skila skýrslum og jafnvel að útbúa frumvarp án þess að raunverulega hugur fylgdi máli, án þess að nokkur árangur náist. Ég minnist þess t.d. að vorið 1988 beitti undirritaður sér fyrir því að hér var lagt fram til kynningar slíkt heildarfrumvarp um framtíðarskipan lífeyrismála, byggt á nefndaráliti tveggja stórra nefnda. Því miður gafst ekki tími til þess þá að fylgja því máli eftir af þeirri einföldu ástæðu að sú ríkisstjórn sem þá var við völd hvarf frá völdum nokkrum mánuðum síðar. Og forræðið yfir þessum málaflokki, þ.e. fjmrn. hvarf í hendur annarra. Ég vil aðeins af þessu tilefni rifja það upp að á stjórnarandstöðutímanum 1984--1987, voru nokkrum sinnum flutt þingmál af hálfu okkar alþýðuflokksmanna um þessi mál. Meginkjarninn í þeim hugmyndum sem við reifuðum þá, og sér í lagi er ég þá að vísa til þáltill. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, var sá að fækka lífeyrissjóðum. Reyndar var málið gjarnan rekið undir slagorðinu: Einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. En jafnframt gefið í skyn að við værum hins vegar tilbúnir til þess að hlusta á allar tillögur um samræmd lífeyrisréttindi fyrir alla landsmenn. Leiðin sem við einkum sáum út úr þessum ógöngum var einmitt í því fólgin að horfast í augu við þá staðreynd að mismununin á markaðnum, þ.e. þau forréttindi sem opinberir starfsmenn nú njóta og nutu þá umfram lífeyrissjóði almenna vinnumarkaðarins, höfðu einmitt iðulega verið réttlætt með því að í staðinn kæmu lægri laun. Það var fyrst og fremst bent á þá leið að ríkisvaldið reyndi að beita sér fyrir heildarlausn sem fæli það þá í sér að þetta væri umreiknað til launa. En síðan í framhaldi af því reynt að ná samkomulagi um samræmd lífeyrisréttindi á vinnumarkaðinum öllum án tillits til þess hvort menn vinna í opinbera geiranum eða ekki.

Ég sagði þetta mál vera orðið eitt af eilífðarmálunum. Og víst er það svo. Mörg stór mál sem svo háttar til um að öllum er ljóst að það er verið að viðhalda kerfi sem ekki stenst. Það er verið að leggja blessun sína yfir mismunun sem ekki stenst og það er verið að viðhalda kerfi sem hvílir á svo feysknum fjárhagslegum grundvelli að það stenst ekki til frambúðar. Eða þá að það er af sérstökum, undarlegum sérhagsmunaástæðum verið að viðhalda kerfi sem brýtur í bága við grundvallarreglur en engu að síður treysta menn sér ekki til þess að taka á málinu.

[17:15]

Eitt dæmi um eilífðarmál af þessu tagi er að sjálfsögðu grundvallarmannréttindakrafan um jöfnun atkvæðisréttar. Einn maður, eitt atkvæði. Enginn maður er til sem getur fært rök fyrir því að eitthvert réttlæti sé í því í lýðræðisþjóðfélagi og þingræðisþjóðfélagi að mismuna mönnum um grundvallarlýðræðismannréttindi. Engu að síður hefur það verið gert. Satt að segja hafa Íslendingar aldrei náð þeim mannréttindum, ekki bara í sögu lýðveldisins, heldur á þessari öld. Þegar málið er rætt þá viðurkenna menn allir í orði að þetta sé grundvallarréttur sérhvers manns í lýðræðisþjóðfélagi að búa við jafnan atkvæðisrétt. Í reynd er það hins vegar með allt öðrum hætti. Í reynd hefur þingflokkum aldrei tekist að sameinast um útfærslu sem tryggi landsmönnum þessi grundvallarmannréttindi. Í almennum umræðum um lífeyrisréttindi viðurkenna að sjálfsögðu allir að ekkert tilefni er til þeirrar mismununar sem í þessu kerfi felst. En þegar kemur að lausnum hafa sérhagsmunirnir blindað mönnum svo sýn eða öllu heldur hafa menn viljað halda dauðahaldi í það sem þeir hafa hreppt og ekki sannfærst um að það sem í staðinn kæmi væri byggt á sanngirni þannig að þetta hefur ekki tekist.

Ég get tekið undir flest það sem segir í þessari greinargerð sem er lýsing á kerfinu, tilefninu til þess. Hér er því lýst hver munur er á grundvallarréttindum annars vegar opinberra starfsmanna og annarra. Hér er samt bent á að sú þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum er að sumu leyti jákvæð, þ.e. eftir verðtryggingu og upptöku jákvæðra raunvaxta hefur tekist að ávaxta söfnunarsjóði á almennum markaði með þeim hætti að þeir eru mun betur staddir en áður. Hér er bent á það sem grundvallarreglu þegar við leitum að lausnum að reikna lífeyrishlunnindi sem launaígildi og reyna að finna pólitíska samkomulagslausn, sem byggi á því að hækka laun en afnema ríkisvernduð forréttindi að því er varðar hlunnindin. Ég held að þetta sé í grundvallaratriðum rétt stefna. Hins vegar mundu væntanlega þeir sem vilja gagnrýna þetta mál vilja segja sem svo: Hvers vegna er það hins vegar að hv. flm. taka einungis á þessum tiltölulega litla þætti málsins sem varðar þingmenn og ráðherra? Er hægt að bjóða upp á það að þessi tiltölulega fámenni hópur sé tekinn sérstaklega fyrir án þess að það sé hluti af heildarlausn að því er varðar opinbera starfsmenn? Ég geri ráð fyrir því að flm. svari því til þegar um er að ræða svo stórpólitískt mál að umbætur eigi að byrja heima, að þingmenn og ráðherrar megi gjarnan ganga á undan öðrum með góðu fordæmi. Og út frá siðferðilegum sjónarmiðum sé eðlilegt að þessi þáttur, sem sker mjög í augun, verði tekinn fyrir fyrst. Hitt er annað mál að sennilega er ekki unnt að gera þetta nema það skapist einhvers konar samstaða um það að sú leið sem farin er, þ.e. að reikna lögvernduð lífeyrishlunnindi umfram aðra sem þingmenn og ráðherrar njóta, til launa verði almennt viðurkennt sem leiðin að því er varðar opinbera starfsmenn almennt.

Hv. þm. er flestum kunnugt um að öll eru þessi mál í umræðu og hafa verið það á seinustu kjörtímabilum og þessu. Lífeyrisréttindamál hafa verið á dagskrá í efh.- og viðskn. Efh.- og viðskn. hefur efnt til eins konar hálfakademískra seminara um þau mál. Veruleg upplýsingaöflun hefur verið unnin á vegum nefndarinnar og reyndar á vegum fjmrn. og menn hafa verið þar að spyrja réttra spurninga og ræða leiðir til úrbóta. Menn hafa bent á hluti eins og eftirfarandi: Það vantar heildarlöggjöf. Það þarf að gera ráðstafanir til þess að lífeyrissjóðirnir búi við ekki óburðugra eftirlit en aðrar fjármálastofnanir á markaðnum, eins og bankar og sparisjóðir. Það hefur verið rætt um að það þurfi að gera sérstök bindandi skilyrði fyrir starfrækslu lífeyrissjóða ekki síður en banka varðandi eiginfjárstöðu og rekstur. Það hefur verið rætt um grundvallarreglur varðandi lífeyrisréttindi, þ.e. um samræmingu á réttindum og skuldbindingum. Menn hafa auðvitað rætt um kreppu einstakra sjóða þar sem um er að ræða miklu meiri skuldbindingar en unnt er að standa undir af iðgjöldum og þannig mætti lengi telja. Þetta er einn þáttur þess vandamáls en ég viðurkenni fúslega að á meðan þingmenn taka ekki á þeim vanda sem að þeim sjálfum snýr er þess ekki að vænta að almenningi í landinu þyki það trúverðugt að umræðan haldi áfram eins og hún hefur verið, þ.e. að menn ræði um þetta almennt, menn skírskoti til grundvallarreglna, menn viðurkenni vandann sem við er að fást en standi svo uppi eins þvara í potti þegar kemur að leit að praktískum lausnum.

Ég stóð hér upp fyrst og fremst til að lýsa yfir af hálfu okkar jafnaðarmanna að okkur þykir þetta virðingarvert framtak. Við fögnum því ef þetta leiðir síðan til áframhaldandi umræðu og vinnu um úrbætur á núverandi kerfi sem fær ekki staðist. Við teljum að grundvallarreglan um það að reyna að ná pólitísku samkomulagi um heildarniðurstöðu og heildarlausn eftir þeirri leið að meta eða umreikna hlunnindi til launa styðjist út af fyrir sig við rétt rök og sé skynsamleg. Ég læt í ljós þá von að umfjöllunin um þetta mál í efh.- og viðskn., innan ramma heildarendurskoðunar á lífeyrismálum, verði til þess að ýta undir að tekið verði á málinu í alvöru og að það geti leitt til einhverrar varanlegrar lausnar.