Lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 17:22:11 (748)

1995-11-06 17:22:11# 120. lþ. 28.7 fundur 79. mál: #A lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra# frv., VÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[17:22]

Vilhjálmur Ingi Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal framkomu þessa frv. þó það komi fram vonum seinna og sé takmarkaðra en æskilegt væri.

Þegar ég uppgötvaði að með því að setjast á Alþingi í hálfan mánuð hefði ég öðlast rétt fyrir tilvonandi maka minn sem var meiri en almennir launamenn öðlast á mörgum árum skammaðist ég mín fyrir að þurfa að taka þátt í slíkri mismunun. Mér finnst Alþingi og alþingismönnum til vansa hvernig þeir hafa á undanförnum árum og áratugum skarað eld að eigin köku umfram aðra almenna borgara. Nægir þar að nefna það sem menn hafa verið að ræða um að undanförnu, sérskattaleg fríðindi fyrir alþingismenn. Eða þegar keyptir eru dýrir ráðherrabílar á sama tíma og verið er að hafna því að greiða þolendum ofbeldisverka svipaða upphæð og breyta lögum þar að lútandi.