Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 13:39:15 (750)

1995-11-07 13:39:15# 120. lþ. 29.8 fundur 75. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (fjárhagsaðstoð til sambúðarfólks) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[13:39]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sbr. lög nr. 31/1994. Frv. er á þskj. 75. Þetta frv. var einnig lagt fram á 118. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það er endurflutt óbreytt efnislega en gerð hefur verið orðalagsbreyting samkvæmt ábendingu frá Hagstofu Íslands. Hún gengur út á að sambúð miðist við sérstaka skráningu í þjóðskrá en upplýsingar um sameiginlegt lögheimili einar sér dugi ekki til.

Ástæða þess að frv. þetta er flutt er sú að við framkvæmd laga um félagsþjónustu sveitarfélaga hefur komið í ljós að óheimilt er að líta á sambúðarfólk sem hjón þegar fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum er ákveðin. Þess í stað verður að fara með mál sambúðarfólks sem mál tveggja einstaklinga. Þessu var slegið föstu með úrskurði úrskurðarnefndar félagsþjónustu hinn 23. júní 1993. Frv. felur í sér að sambúðarfólk eigi sama rétt til fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga og hjón. Þar sem engin almenn lög gilda um sambúðarfólk, samanber á hinn bóginn lög um réttindi og skyldur hjóna, er þess í stað að finna dreifð lagaákvæði um réttaráhrif sambúðar svo sem í lögum um almannatryggingar, lögum um tekju- og eignarskatt. Verði þetta frv. að lögum bætist nýtt ákvæði í þann hóp.

Ástæða þess að nauðsynlegt þykir að sambúðarfólk eigi sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón er sú að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga miðar að bættum hag fjölskyldunnar sem heildar. Frá þeim sjónarhóli gengur illa upp að líta á sambúðarfólk sem tvo einstaklinga. Skilyrði þess að litið verði á sambúðarfólk sem hjón eru einföld samkvæmt frv. en þau eru: Að um sé að ræða karl og konu sem búa saman og eru bæði ógift enda hafi þau látið skrá sambúðina í þjóðskrá og hún hafi varað í a.m.k. eitt ár áður en umsókn um fjárhagsaðstoð er lögð fram. Hér er því ekkert matsatriði á ferðinni og ætti ákvæðið að vera auðvelt í framkvæmd.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. þessu vísað til hv. félmn.