Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 14:13:30 (754)

1995-11-07 14:13:30# 120. lþ. 29.10 fundur 118. mál: #A sveitarstjórnarlög# (Sléttuhreppur) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[14:13]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er áreiðanlega hárrétt hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að Sléttuhreppur var merkilegt byggðarlag og það er að vissu leyti eftirsjá í því og sorglegt að hann skuli hafa farið í eyði. En þetta var þróunin í þjóðfélaginu og við því getum við út af fyrir sig ekki neitt gert héðan af. Þaðan er komið kjarnafólk sem dreifst hefur víða um land, m.a. til Ísafjarðar, og það er ekki stjórnskipulega þægilegt að Sléttuhreppur sé einskismannsland. Það er óeðlilegt að Sléttuhreppur eða það svæði sem tilheyrir Sléttuhreppi, tilheyri ekki stjórnskipulega einhverju sveitarfélagi.

Menn kunna að spyrja sig hvaða sveitarfélagi ætti hann að tilheyra. Kannski Bolungarvík? Þar eru búsettir margir þeir sem eiga rætur í Sléttuhreppi, að mér er tjáð. En Snæfjallahreppur og Grunnavíkurhreppur eru í sveitarfélagi með Ísafirði og Ísafjörður hugsanlega að stækka eða verða aðili að sveitarfélagi byggðarlaga á norðanverðum Vestfjörðum með sameiningu og því þótti eðlilegra að sameina þetta sveitarfélag Ísafirði.

[14:15]

Ég vil leyfa mér að treysta á það að forráðamenn þess sveitarfélags sem Sléttuhreppur kemur til með að heyra í framtíðinni taki mjúklega á málum, sýni þeim sem artir hafa til Sléttuhrepps góða samvinnu og þeir fái að njóta þar réttar síns. En það er sem sagt ekki skynsamlegt að mínu mati að þarna sé nokkurs konar einskismannsland eða að þetta svæði tilheyri ekki stjórnskipulega einhverju sveitarfélagi.