Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 14:16:20 (755)

1995-11-07 14:16:20# 120. lþ. 29.10 fundur 118. mál: #A sveitarstjórnarlög# (Sléttuhreppur) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[14:16]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Að umfjöllun lokinni tel ég einnig að það sé rétt niðurstaða að Sléttuhreppur sameinist Ísafirði fremur en Bolungavík og ég er alveg sammála félmrh. um að það þýðir ekkert að líta um öxl. Það var komið að þeim tímapunkti að nauðsynlegt var að ganga frá þessum málum. Í þessum efnum sem öðrum verður að horfa til framtíðar og það hefur sennilega ekki gengið lengur að þetta byggðarlag væri einskismannsland. Það sem ég vil árétta er að ég er fegin því að þetta mál var ekki keyrt fram fyrir tveimur árum vegna þess að þá held ég að við hefðum frekar kveikt elda en lægt þá. En ég held að þessi tími sem liðinn er hafi verið notaður vel, þannig að flestallir sem að málinu hafa komið geri sér grein fyrir því að það þetta var óumflýjanlegt og skynsamlegast að taka saman höndum um að gera það á besta hátt.