Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 14:17:49 (756)

1995-11-07 14:17:49# 120. lþ. 29.11 fundur 119. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heimæðar, vatnsgjald) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[14:17]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991. Hinn 1. jan. 1992 tóku gildi lög um vatnaveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991. Var frv. til þeirra laga að mestu leyti samið á grundvelli eldri laga um vatnsveitur, þ.e. vatnalaga, nr. 15/1923, og laga um aðstoð til vatnsveitna, nr. 93/1947.

Frá því að lög nr. 81/1991 tóku gildi og í framkvæmd þeirra hafa komið fram nokkur atriði varðandi lögin sem ástæða hefur þótt til að taka til endurskoðunr miðað við fengna reynslu. Atriði þessi varða aðallega heimæðar annars vegar og aflagningu vatnsgjalds hins vegar. Með frumvarpi þessu er lagt til að breytt verði ákvæðum laga um vatnsveitur sveitarfélaga er varða nefnd atriði.

Frumvarp þetta er unnið að mestu í félagsmálaráðuneytinu en við samningu þess var haft samráð við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og jafnframt stuðst við ábendingar um úrbætur sem fram hafa komið m.a. frá Reykjavíkurborg.

Frumvarpið er samhljóða frumvarpi sem lagt var fram á 118. löggjafarþingi og náði ekki fram að ganga vegna anna á lokadögum þess.

Í 1. gr. frv. er leitast við að skýra nánar ákvæði 2. mgr. 14. gr. laganna, en það hefur ekki þótt nægilega skýrt. Með þessari breytingu er ítrekað að sveitarstjórnir verða ekki sjálfkrafa eigendur heimæða sem lagðar voru fyrir gildistöku laga nr. 81/1991, heldur verður eigandi heimæðar að gera sérstakt samkomulag um það við sveitarstjórn.

Í 2. gr. frv. er lagt til að breytt verði 1. mgr. 6. gr. laganna og jafnframt bætt við nýju ákvæði, 5. mgr. Í a-lið er lagt til að breytt verði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna og jafnframt bætt við nýju ákvæði. Ennfremur er lagt til að breytt verði lokamálslið 1. mgr. 6. gr. laganna varðandi gjalddaga heimæðagjalds. Það er lagt til að skýrt verði tekið fram í greininni að eigandi eða rétthafi lóðar við veg eða opið svæði, þar sem götuæð liggur, eigi rétt á að fá eina heimæð lagða frá götuæð. Ekki er talið rétt að skylda sveitarfélög (vatnsveitur sveitarfélaga) til að leggja nema eina heimæð að hverri fasteign eða lóð. Ef fasteignareigandi óskar hins vegar eftir fleiri heimæðum að fasteign eða lóð verður að semja um það sérstaklega við sveitarstjórn. Í því sambandi er talið rétt að taka fram að ef óskað er eftir fleiri en einni heimæð inn á lóð af hagkvæmnisástæðum, t.d. að sjúkrahúsum eða öðrum þjónustubyggingum, skuli eigandi eða rétthafi lóðar hlíta þeim reglum um tæknileg atriði sem sveitarstjórn eða vatnsveita sveitarfélags setur. Jafnframt þykir eðlilegt að sú heimæð teljist hans einkaeign, nema sérstakt samkomulag hafi verið gert við sveitarstjórn eða vatnsveitu sveitarfélags um annað.

Rétt þykir að veita sveitarstjórnum svigrúm til að ákveða gjalddaga heimæðargjalds, en í núgildandi lögum er gjalddagi bundinn við ákveðið tímamark, þ.e. gjaldið fellur í gjalddaga 30 dögum eftir lagningu heimæðar. Lagt er til að sveitarstjórn tilgreini gjalddaga í gjaldskrá viðkomandi sveitarfélags sem samin er á grundvelli 11. gr. laganna. Þó þykir rétt að tilgreina í lögum hvenær fyrst má krefjast heimæðagjalds og þykir eðlilegt að miða þar við útgáfu byggingarleyfis eða úthlutun lóðar sem er í eigu sveitarfélags

Í b-lið er lagt til að við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 5. mgr. Tillagan er efnislega á þá leið að vatnsinntak á húsi skuli almennt vera á götuhlið þess þar sem vatnslögn liggur, nema sveitarstjórn eða vatnsveita viðkomandi sveitarfélags samþykki annars konar fyrirkomulag.

Þetta ákvæði er nýmæli og er með því leitast við að greiða fyrir starfsemi vatnsveitna sveitarfélaga að því leyti að auðvelda viðhald á heimæðum. Algengt hefur verið að kaldavatnsheimæðar væru teknar upp úr gólfi, t.d. í þvottaherbergi, á þeirri hlið húss sem snýr frá götu. Augljóst er að slíkt getur skapað mikil vandamál við viðhald á heimæðum þar sem mjög erfitt hefur verið að komast að þeim.

Jafnframt er lagt til að í ákvæðunum komi fram að hönnuðir mannvirkja skuli hafa samráð við sveitarstjórn eða vatnsveitu sveitarfélags varðandi staðsetningu vatnsinntaks á húsið. Gert er ráð fyrir því í 4. gr. laganna að sveitarstjórn sé eigandi m.a. heimæða og skuli annast og kosta viðhald þeirra. Með hliðsjón af því verður að telja eðlilegt að gera þá kröfu til hönnuða mannvirkja að þeir hafi viðkomandi sveitarstjórn eða vatnsveitu sveitarfélags með í ráðum þegar ákveðið er hvar vatnsinntak skuli vera á húsi.

Í 3. gr. frv. eru gerðar tillögur um nokkrar breytingar á 7. gr. núgildandi laga sem varða álagningu vatnsgjalds á fasteignaeigendur, sem vatns geta notið frá vatnsveitu sveitarfélags.

Í 1. mgr. 3. gr. frv. er gerð tillaga um breytingu á 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. núgildandi laga á þá leið að miða skuli við að vatnsgjald ásamt öðrum tekjum standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu. Í núgildandi lögum er einungis tilgreint að vatnsgjald skuli standa straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu en sveitarfélög hafi hins vegar aðrar tekjur af vatnsveitu, m.a. aukavatnsgjaldi sem eðlilegt þykir að standi ásamt vatnsgjaldi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu. Með þessari breytingartillögu er því nánar tilgreint hvaða tekjur skuli standa undir stofn- og rekstrarkostnaði vatnsveitu sveitarfélags.

Í 2. mgr. 3. gr. frv. er gerð tillaga um að sett verði í lögin heimild til að innheimta vatnsgjald af fasteignum sem notið geta vatns frá vatnsveitu sveitarfélags, en matsverð þeirra fullfrágenginna liggur ekki fyrir.

Umboðsmaður Alþingis sendi 6. janúar 1994 frá sér álit þar sem fjallað var um álagningu vatnsgjalds á fasteign sem ekki hafði verið metin fasteignamati samkvæmt heimild í 3. mgr. 9. gr. reglugerðar um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 421/1992. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að lagastoð umrædds reglugerðarákvæðis væri vefengjanleg. Í framhaldi af þeirri niðurstöðu umboðsmanns Alþingis felldi félmrn. úr gildi ákvæði 3. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 421/1992 og var það gert með reglugerð nr. 175/1994. Það er hins vegar talið nauðsynlegt, m.a. af sveitarfélögum, að fyrir hendi sé heimild í lögum að innheimta vatnsgjald af fasteignum sem ekki hafa verið metnar fasteignamati, ef þær geta notið vatns frá vatnsveitu sveitarfélags. Með hliðsjón af því er lagt til að 2. mgr. 7. gr. laganna verði á þá leið að slík álagning og innheimta verði heimil og við álagningu verði heimilt að miða við hver verði líklegur álagningarstofn fullfrágenginnar eignar. Í þeim tilfellum ber að miða við fasteignamat sambærilegra fasteigna í viðkomandi sveitarfélagi.

Slík viðmiðun við líklegan álagningarstofn fullfrágenginna fasteigna getur verið vandmeðfarin í framkvæmd. Af þeim sökum er talið rétt að opna ákveðna kæruleið ef til ágreinings kemur milli gjaldanda og sveitarstjórnar. Leiðin sem valin er í 3. mgr. 3. gr. frv. er sú að verði ágreiningur um gjaldstofn skv. 2. mgr. skuli vísa honum til úrskurðar Fasteignamats ríkisins. Þeim úrskurði má skjóta til yfirfasteignamatsnefndar ríkisins og úrskurði nefndarinnar má síðan skjóta til dómstóla. Þessi kæruleið er sú sama sem tilgreind er í 3. mgr. 4. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, en í því ákvæði er fjallað um ágreining sem upp getur komið við álagningu fasteignaskatts.

Í 4. mgr. 3. gr. er lögð til sú viðbót miðað við 2. mgr. 7. gr. gildandi laga að sveitarstjórn verði heimilt að ákveða hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseigna, enda verði álagning ekki hærri en segir í 1. málsl. þeirrar málsgreinar. Ýmsir hafa velt fyrir sér þeirri spurningu hvort sams konar ákvæði í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 421/1992 standist lögin. Rétt þykir að taka af allan vafa, að tilgreina þessa heimild í lögunum enda þykir m.a. sveitarfélögunum nauðsynlegt að hafa slíkt ákvæði til að miða við í gjaldskrám sínum.

Herra forseti. Ég hef rakið þær breytingar sem nauðsynlegt er talið að gera á lögunum um vatnasveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, miðað við fengna reynslu. Full sátt var á milli höfunda frv. um efni þess. Ég legg til að það verði gert að lögum og að lokinni þessari umræðu verði því vísað til hv. félmn. til athugunar.