Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 14:27:35 (757)

1995-11-07 14:27:35# 120. lþ. 29.11 fundur 119. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heimæðar, vatnsgjald) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[14:27]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil fjalla aðeins um þær breytingar sem hér er lagt til að gerðar verði á lögunum um vatnsveitur sveitarfélaga, lögum sem sett voru í desember 1991. Ég vil fjalla um það út frá þeirri meginbreytingu sem gerð var á þeim tíma sem var að menn felldu niður skatt en tóku upp gjald. Breytingin var veruleg og í grundvallaratriðum en það sem mér hefur fundist áfátt er framkvæmd laganna og þá sérstaklega það að félmrn. og sveitarfélögin hafa ekki af einhverjum ástæðum séð ástæðu til að fara að þessu meginefni laganna. Ég vakti athygli á þessu ósamræmi á síðasta ári og þarsíðasta við þá félmrh. sem þá sátu, án sýnilegs árangurs. Ég vil því enn á ný reifa mitt athugunarefni í þessu í þeirri von að nýr félmrh. sýni málinu meiri skilning og sé því fremur fylgjandi en forverar hans að fara beri að þeirri meginbreytingu sem varð á í lagasetningunni.

Þegar menn ákveða að leggja niður skatt og taka upp gjald er verið að afnema almenna skattlagningarheimild. Fram til þess tíma höfðu sveitarfélög heimild til að leggja á svonefndan vatnsskatt eftir ákveðnum reglum. Tekjur af honum runnu í sveitarsjóð án þess að tilgreint væri til hvers ætti að ráðstafa þeim tekjum. Þetta var einn af almennum tekjustofnum sveitarfélaga. Þegar felldur er niður vatnsskattur og upp tekið svokallað vatnsgjald þá er verið að afnema þessa almennu skattlagningarheimild sveitarstjórna en þess í stað er þeim heimilað að innheimta tekjur á móti tilgreindum kostnaði, þ.e. þeim tilgreinda kostnaði sem er í því fólginn að reka vatnasveitu bæði rekstrarkostnað og stofnkostnað. En gjaldtaka umfram það er óheimil samkvæmt ákvæðum laganna og var sérstaklega áréttað í nefndaráliti félmn. frá því í desember 1991 sem nefndin öll stóð að.

[14:30]

Nú hefur komið fram á Alþingi í svari við fyrirspurn frá mér að á árinu 1993 innheimtu 25 kaupstaðir mun meiri tekjur af vatnsgjaldi en þeir þurftu á að halda til að reka vatnsveitu sína það ár, bæði hvað varðar rekstrarkostnað og stofnkostnað. Sú fjárhæð sem innheimt var umfram þörf nemur um 250 millj. kr. Nú hef ég ekki beðið sérstaklega um sundurliðun frá hæstv. ráðherra fyrir árin 1992 og 1994 eða 1995 en grunur minn er sá eftir athugun á þessu í árbók sveitarfélaganna að ástandið sé mjög svipað öll þessi ár. Það þýðir að á þeim fjóru árum sem nýju lögin hafa verið í gildi hafa sveitarfélög innheimt um einn milljarð kr. í tekjur umfram skattlagningarheimild. Ég tel það vera fyrst og fremst á ábyrgð félmrh. og ráðuneytisins sem sér um framkvæmd laganna að sjá til þess að þeir sem eiga að búa við þessi lög, þ.e. sveitarstjórnirnar, fari að lögum og í því hafa umkvartanir mínar verið fólgnar á undanförnum tveimur árum án sýnilegs árangurs eins og ég gat um í upphafi máls míns. Hins vegar bind ég vonir við það að nýr félmrh. hafi litið málið öðrum augum og hafi á því skilning að þessi eðlisbreyting var gerð og það er vilji þingsins að rekstur vatnsveitna sveitarfélaga verði greiddur af notendum þess og ekki umfram það.

Ég tek eftir því að í frv. sem ráðherra leggur hér fram er einmitt ekki gerður ágreiningur um þessa lagasetningu, heldur miklu fremur áréttaður þessi skilningur laganna í breytingartillögunum eins og hér má sjá í 3. gr. frv. Þar er lögð til breyting til þess að taka af öll tvímæli um að þær tekjur sem eiga að standa undir rekstrarkostnaði við vatnsveitu eru ekki bara vatnsgjaldið heldur aðrar tekjur vatnsveitunnar, svo sem aukavatnsgjald, heimæðagjald og mælagjald o.s.frv. þannig að öll þessi gjöld samanlagt mega ekki nema hærri fjárhæð en þarf til þess að reka þetta mannvirki.

Nú kann auðvitað að vera að áætlanir bregðist eitt ár og sveitarfélag innheimti meira en það þarf. Þá ber því að mínu viti að lækka álagningu gjaldsins næsta ár á eftir til þess að skila til baka ofteknum tekjum. 3. gr. frv. ber það með sér að það er meining flm., hæstv. ráðherra, að þessi skilningur verði áfram að vatnsveitugjaldið eða vatnsgjaldið séu tekjur til að mæta tilgreindum kostnaði og ekki öðrum kostnaði en sveitarfélög hafa af sínum rekstri.

Þetta vildi ég árétta enn á ný, virðulegi forseti, til þess að halda til haga þeirri meginbreytingu sem varð í þessum efnum við setningu nýrra laga um vatnsgjald. Mér finnst skaði að því og undrast það satt að segja nokkuð að hafa ekki haft meiri stuðning í þinginu fyrir þessu sjónarmiði mínu en raun hefur borið vitni.

Ég get nefnt sem dæmi að fleiri lög þarfnast athugunar út frá þessu sama sjónarmiði, t.d. lög um gatnagerðargjöld, lög um holræsagjöld og fleiri má nefna og fyrr í dag var mælt fyrir nýju frv. til gatnagerðargjalda einmitt til þess að mæta verulegum annmörkum sem eru á þeim lögum sem í gildi eru um gatnagerðargjöld. En ég vil, virðulegi forseti, segja aðeins af því frv. og benda á að það frv. um gatnagerðargjöld sem hér liggur frammi er tvíátta. Það kveður á um heimild til að innheimta gjald en ekki skatt en kveður ekki á um það til hvaða kostnaðar gjaldið á að renna. Þvert á móti greinir það í sundur gjaldið og kostnaðinn þannig að að því leyti finnst mér þetta frv. til laga um gatnagerðargjald vera í hálfgerðu öngstræti. Menn þurfa að gera það upp við sig hvort gatnagerðargjald á að vera innheimt með sama hætti af tilgreindum kostnaði og þá að tilgreina hver sá kostnaður er eða hvort þetta á að vera almenn skattlagningarheimild sem getur auðvitað komið líka til greina. En það verður að vera skýrt í lögunum hvort um er að ræða. Nafnið ,,gatnagerðargjald`` bendir til þess ásamt ýmsum atriðum sem eru í frv. og greinargerð að meiningin sé að hafa það gjald en ekki skatt. Hins vegar er ákvæði í frv. sem vísa í aðrar áttir.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um önnur lög eins og lög um holræsagjald sem eru orðin mjög gömul og verulega áfátt. En ég nefni þetta tvennt sem dæmi um fleiri lög en lög um vatnsgjald sem ganga í þá veru að takmarka skattlagningarheimildir sveitarstjórna og breyta þeim yfir í að vera tekjur af notendum tiltekinnar þjónustu.

Hvað varðar einstök efnisatriði í þessu frv. til breytinga á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga er ég almennt fylgjandi þeim breytingum sem þar eru lagðar til. Þær eru til að taka af vafa sem hefur verið uppi í núgildandi lögum og eru að mínu viti heldur til bóta eins og sú meginbreyting í 3. gr. að tilgreina að aðrar tekjur vatnsveitu ásamt vatnsgjaldi skuli samanlagt vera þær tekjur sem vatnsveitan má innheimta til að mæta útgjöldum sínum. Þetta var ekki alveg skýrt áður.

Þá tel ég að það sé eðlilegt að huga að þeirri breytingu sem lögð er til í 2. gr. laganna og ég hygg að það séu fyrst og fremst hagsmunir Reykjavíkur sem menn hafa í huga því að heimæðar eru náttúrlega mjög margar, misjafnlega gamlar og margar mjög gamlar. Það þarf auðvitað að vanda lagasetningu svo að menn setji ekki um of kvaðir á sveitarfélag sem það hefur ekki áður borið.

Þá er breyting sem er gerð til þess að veita lagastoð reglugerðarákvæði um að heimilt verði að innheimta vatnsgjald af íbúðum áður en þær hafa verið metnar í fasteignamat til fullnustu. Ég tel eðlilegt að veita þessa heimild því að hún byggir á því að innheimta gjald af íbúð sem byrjar að nota vatnsveituna og það er eðlilegt að notendur borgi eitthvað fyrir að nota þessa veitu. Hins vegar hef ég efasemdir um lokamálsgrein 3. gr., bæði að miða upphaf vatnsgjaldsins við rúmmál og eins við álagningarstofn eins og hann er skilgreindur í lögum um fasteignaskatta. Ég tel að vilji menn miða álagningarstofn við fasteignamat eigi það að vera það fasteignamat sem gefið er út en ekki uppreiknað fasteignamat til fasteignaskatts sem úti á landi er verulega frábrugðið og hærra af því að menn eru þá að innheimta gjald af hærri fjárhæð en nemur metnu andvirði eignarinnar.

Mér finnst líka að hin leiðin að heimilt verði að ákvarða vatnsgjald við rúmmál ekki einboðin og er í mínum huga nokkur vafi á því hvort rétt sé að tengja vatnsgjaldið við rúmmál því að ég sé ekki að það sé neitt betri mælikvarði á notkun hússins á vatnsveitunni fremur en fasteignamatið eins og menn nota meginstofninn sem viðmiðun. En þetta er ekki stórt atriði og ekki ætla ég að gera það að ágreiningsefni við afgreiðslu málsins.

Ég vil svo að lokum nefna eitt atriði enn sem mér finnst að liggi aðeins á milli hluta í löggjöf um vatnsveitur sveitarfélaga og er ekki tekið á í þessu frv. eftir því sem ég best fæ séð. Það þarf að mínu viti að kveða skýrt á um það í lögum og í þessum lögum um heimildir sveitarstjórna til að innheimta hagnað af stofnunum sínum. Ég tel mjög nauðsynlegt út frá sjónarhóli þeirra sem eru að borga þessa þjónustu að það séu skýrt afmarkaðar reglur í lögum sem veita sveitarstjórnum heimildir og afmarka þeirra heimildir þá í leiðinni fyrir gjaldtöku umfram rekstrarkostnað og stofnkostnað. Að mínu viti eru mjög fátækleg ákvæði í lögum í dag sem lúta að þessu og mér finnst að menn séu farnir að ganga nokkuð langt í því að innheimta svonefnda afgreiðslu af stofnunum hlutafélaga. Ég held að bæði þurfi að vera almenn ákvæði um hvort það sé yfir höfuð meining löggjafans að þjónustustofnanir og þjónustukerfi eigi að vera rekin eins og hvert annað fjármálafyrirtæki sem eigi að skila arði eða fjárfesting sem bundin er í götum eða lögnum eigi að vera einhver stofn til að reikna arð eins og er í dag. Ég tel að löggjafinn verði að svara því hvort hann vilji hafa löggjöfina þannig að þetta sé heimilt og þá í öðru lagi við hvaða stofn eigi að miða. Á að miða við heildarfasteignamat vatnsveitunnar, lagna og annarra mannvirkja eða á að miða við einhvern annan mælikvarða sem kann að vera eðlilegra að miða við?

Ég held að menn sjái fljótt þegar þeir skoða að í stórum veitukerfum eins og hjá Rafmagnsveitunni eða hitaveitum er fráleitt að miða afgreiðslu mats við samanlagt matsverð eigna fyrirtækisins því að það er ekkert samhengi á milli þess og tekna fyrirtækjanna. Það væri þá eðlilegra að tengja saman arðgreiðslurnar og tekjur fyrirtækisins en þennan stofn.

Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um þetta efni að þessu sinni. Ég hef áréttað skoðanir mínar í þessum efnum og tilgang Alþingis á sínum tíma með nýjum lögum um vatnsgjald og vænti þess að nýr félmrh. sem sýnir af sér oft og tíðum röggsemi taki þetta fastari tökum en forveri hans.