Vatnsveitur sveitarfélaga

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 14:42:57 (758)

1995-11-07 14:42:57# 120. lþ. 29.11 fundur 119. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heimæðar, vatnsgjald) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[14:42]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Í 3. gr. frv. eru tekin af öll tvímæli um það að miðað skal við að gjaldið ásamt öðrum tekjum standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu. Þetta er að mínum dómi alveg nógu skýrt. Það getur vel verið að einhver sveitarfélög freistist til þess að leggja á þjónustugjöld sem eru raunverulega hærri en sú þjónusta sem innt er af hendi, ég skal ekki segja um það. En þá ber að hafa það í huga að fjárhagur nokkurra sveitarfélaga er í mjög alvarlegri stöðu. Ég held að menn geri sér ekki grein fyrir því almennt hve mörg sveitarfélög eru komin í alvarlega stöðu fjárhagslega. Hallareksturinn á nokkrum sveitarfélögin árin 1993 og 1994 hefur keyrt gersamlega úr hófi. Samanlagður hallarekstur sveitarfélaganna t.d. árið 1994 var hvorki meira né minna en 7 milljarðar. Samanlagðar fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna í landinu samsvara fjórða parti af fjárlögum ríkisins og halli sveitarfélaga upp á 7 milljarða jafngildir ríkissjóðshalla kannski upp á 28 milljarða eða 30 milljarða. Með því að bera þetta saman sjá menn hve þetta er stóralvarlegt mál og þetta bætist við mjög mikinn halla á árinu 1993. Að vísu er svona samanburður á fjárhagsáætlunum stærstu sveitarfélaganna á árinu 1995. Með athugun á því virðist staðan skána á þessu ári og menn sýni meiri aðgætni í þessu efni en þeir hafa gert.

[14:45]

Rétt er að taka það fram að þessar stóru hallatölur eru fyrst og fremst í þremur sveitarfélögum, þ.e. Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi. En þetta getur náttúrlega ekki gengið svona og þess ber að geta að sum minni sveitarfélög eru líka í mjög alvarlegri stöðu þó að þar sé um miklu lægri tölur að ræða. Það verður að bregðast við þessu.

Mér finnst eðlilegra að miða útsvar við að það geti kostað rekstur sveitarfélagsins fremur en vera með einhver svona laumugjöld. Arðgreiðslur af fyrirtækjum sveitarfélaga og það sem hv. síðasti ræðumaður sagði þar um er dálítið umhugsunarefni. Venjulega er það svo ef fyrirtæki sveitarfélaganna lenda í fjárþröng eða eru rekin með halla að það kemur niður á sveitarsjóði og þá sé ég ekkert óeðlilegt við það þegar þeim gengur vel séu þau látin borga sveitarfélaginu aftur.