Bjargráðasjóður

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 14:47:29 (759)

1995-11-07 14:47:29# 120. lþ. 29.12 fundur 125. mál: #A Bjargráðasjóður# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[14:47]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Bjargráðasjóð á þskj. 143. Þessu frv. er ætlað að leysa af hólmi þau lög sem gilt hafa um Bjargráðasjóð frá árinu 1972. Frv. er samið af nefnd sem skipuð var fulltrúum af félmrn. og landbrn. auk fulltrúa frá stjórn Bjargráðasjóðs.

Fyrsta athugunarefni nefndarinnar var hvort unnt væri að leggja Bjargráðasjóð niður. Ástæðan var sú að eftir gildistöku laganna árið 1972 voru sett lög um viðlagatryggingu í kjölfar Vestmannaeyjagossins. Það þótti eðlilegt að kanna hvort Viðlagatrygging Íslands gæti ekki yfirtekið a.m.k. almenna deild Bjargráðasjóðs er bætt hefur tjón af völdum náttúruhamfara. Heilbr.- og trmrn. fór með málefni viðlagatryggingar á þeim tíma sem endurskoðun laganna fór fram. Afstaða þess ráðuneytis var sú að það taldi óæskilegt að verkefni almennu deildarinnar yrðu færð til Viðlagatryggingar.

Hlutverk Bjargráðasjóðs hefur í raun verið tvíþætt: Annars vegar að bæta tjón af völdum náttúruhamfara, sem veitt hefur verið til einstaklinga, félaga eða sveitarfélaga, og hins vegar bætur til bænda vegna tjóns sem þeir hafa orðið fyrir í búrekstri. Stærstur hluti tekna Bjargráðasjóðs hefur farið til að bæta tjón í gegnum búnaðardeild sjóðsins. Má nefna sem dæmi að árið 1993 er tjón í sauðfé, nautgripum og hrossum bætt með liðlega 30 millj. kr. en árið 1994 var samsvarandi tala liðlega 46 millj. kr. Árið 1993 var óveðurstjón úr almennu deild sjóðsins bætt með 2,2 millj. en árið 1994 voru það liðlega 25 millj. kr. Þar var um að ræða að mestu kaltjón en grasbrestur var hins vegar bættur af búnaðardeild sjóðsins.

Eftir tilkomu Viðlagatryggingar hefur hlutur Bjargráðasjóðs að því er varðar tjón á náttúruhamförum snúist m.a. um afleidd tjón en Viðlagatrygging bætir einungis bein tjón. Bjargráðasjóður hefur bætt sveitarfélögum tjón á gróðri og lýsingu svo að dæmi séu tekin. Þá hefur verið bætt tjón af völdum snjóþunga en það fellur utan hlutverks Viðlagatryggingar. Ákvæði bjargráðasjóðslaga hafa hins vegar ekki verið nægilega skýr en þau hafa verið þannig:

Hlutverk almennu deildarinnar hefur verið að veita einstaklingum, félögum og sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar tjón á fasteignum og lausafé af völdum náttúruhamfara að svo miklu leyti sem ekki er unnt að tryggja gegn slíkum tjónum eða þá þau bætt með öðrum hætti og er í því sambandi vísað til laga um Viðlagatryggingu Íslands. Hér kemur skýrt fram munurinn á viðlagatryggingunni og Bjargráðasjóði. Viðlagatrygging byggist á iðgjaldagreiðslum en bætur úr Bjargráðasjóði vegna náttúruhamfara koma einungis til álita ef ekki væri unnt að kaupa tryggingavernd.

Leitað var eftir afstöðu Sambands ísl. sveitarfélaga til þess hvort ætti að leggja Bjargráðasjóð niður. Eftirfarandi bókun var gerð á fundi stjórnar sambandsins 21. okt. 1994:

,,Hugmynd hefur komið fram í nefnd sem skipuð var í mars 1993 til að endurskoða lög um Bjargráðasjóð, einkum með tilliti til þess að kostnaður við tryggingar í landbúnaði gæti lækkað. Hugmyndin gengur út á að Viðlagatrygging taki við hlutverki A-deildar sjóðsins og að B-deild sjóðsins verði vistuð í sérstökum sjóði fyrir landbúnaðinn. Fyrir lá minnisblað frá heilbr.- og trmrn., dags. 29. apríl 1994, þar sem kemur fram að ráðuneytið telur óæskilegt að verkefni A-deildar Bjargráðasjóðs verði færð til Viðlagatryggingar. Ekki er ljóst hvort framlög sveitarfélaga til A-deildarinnar féllu niður þó starfsemi hennar færist annað.

Sveitarfélögin greiða árlega framlög til sjóðsins sem nema á þessu ári 22,2 millj. kr. Framlögin renna að 75% hluta til A-deildar sjóðsins og 25% hluta til B-deildar. Auk þess fær A-deildin vaxtatekjur af eigin fé sjóðsins en allur rekstrarkostnaður hans er greiddur af tekjum a-deildarinnar. A-deild sjóðsins gegnir því hlutverki að veita bætur vegna margvíslegra tjóna vegna náttúruhamfara sem ekki fást bætt með öðrum hætti.

Af afstöðu heilbr.- og trmrn. má ráða að litlar líkur eru til að Viðlagatrygging taki við hlutverki Bjargráðasjóðs. Einnig er með öllu óljóst hvort framlög sveitarfélaganna féllu niður ef sjóðurinn yrði vistaður annars staðar. Með vísan til þess leggst stjórn sambandsins á þessu stigi gegn því að Bjargráðasjóður verði lagður niður í núverandi mynd. Stjórnin er þó reiðubúin til frekari viðræðna um breytingu á hlutverki Bjargráðasjóðs sjái ráðuneytið ástæðu til þess.``

Frumvarpsdrögin voru send iðnrn. og viðskrn. til umsagnar en Viðlagatrygging hefur verið flutt undir það ráðuneyti. Athugasemdir voru gerðar við eina grein frv. og hefur verið tekið tillit til þeirrar ábendingar.

Af hálfu Bændasamtakanna var mikill vilji til að lækka þann hluta búnaðarmálasjóðsgjalds sem rennur til Bjargráðasjóðs. Á árunum 1994 og 1995 hefur með lagasetningu í tengslum við fjárlagagerð sá hluti búnaðarmálasjóðsgjalds sem á að renna í Bjargráðasjóð verið lækkaður úr 0,6% niður í 0,3%. Í ljósi þeirrar afstöðu var ákveðið að byggja á því að Bjargráðasjóður yrði áfram starfræktur en verulegar breytingar eru gerðar á honum. Helstu breytingar sem lagðar eru til á sjóðnum eru þessar:

Gjöld til sjóðsins geti verið á bilinu 0--1% af söluvörum landbúnaðarins. Hlutfallið getur verið mismunandi eftir búgreinum og skal það ákveðið til eins árs í senn.

Í fskj. kemur fram yfirlit yfir síðustu fjögur ár um þær greiðslur sem einstaka búgreinar hafa lagt til sjóðsins og hve miklar greiðslur hafa farið til einstakra búgreina. Á þessu fskj. kemur í ljós að gjöldin eða framlögin vegna sauðfjárframleiðslu og nautgripaframleiðslu hafa borið uppi sjóðinn og þær búgreinar hafa lagt til hans miklu meira fé en hefur gengið til þeirra til baka.

Hlutverk almennu deildarinnar er skilgreint mun skýrara en áður og er þar höfð hliðsjón af þeim bótum sem Viðlagatrygging getur innt af hendi en lög um viðlagatryggingu voru samþykkt 1975 og frá þeim tíma hefur ekki farið fram heildarendurskoðun á lögunum um Bjargráðasjóð. Nákvæmlega er skilgreint hvað fellur utan við hlutverk sjóðsins, svo sem orku- og hafnarmannvirki, sjávargarðar, fiskeldismannvirki og veiðarfæri í sjó.

Hlutverk búnaðardeildar er skilgreint betur en áður þannig að einungis er bætt tjón á búfé, á afurðum búfjár og uppskerutjón á garðávöxtum. Einnig er opnuð heimild til þess að styrkja fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að koma í veg fyrir tjón. Þá er skýrt kveðið á að einungis eru veittir styrkir en ekki lán úr sjóðnum, jafnframt að styrkhlutfall geti verið breytilegt eftir búgreinum og einnig eigin áhætta og er þá horft til þess að Bjargráðasjóður hefur mismunandi tekjur af einstökum búgreinum.

Ég tek sérstaklega fram að sú hugmynd nefndarmanna sem sömdu frv. þetta að flytja almenna deild Bjargráðasjóðs undir Viðlagatryggingu er að mínum dómi á margan hátt æskileg. Þá yrði búnaðardeild sérstakur sjóður er yrði í vörslu Bændasamtakanna en á meðan ekki fást fram breytingar á lögum um Viðlagatryggingu er nauðsynlegt að almenna deild Bjargráðasjóðs sé fyrir hendi. Því er lagt til að sjóðurinn verði áfram tvískiptur og að rekstrarkostnaður Bjargráðasjóðs verði greiddur úr almennri deild sjóðsins.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.