Bjargráðasjóður

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 14:58:38 (762)

1995-11-07 14:58:38# 120. lþ. 29.12 fundur 125. mál: #A Bjargráðasjóður# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[14:58]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Varðandi spurningu hv. þm. Árna M. Mathiesen, 2. þm. Reykn., um það hvort aflagðar væru allar hugmyndir um að færa til tryggingarfélaganna búfjártryggingarnar þá er það efni þessa frv. að það sé nauðsynlegt að hafa þennan farveg a.m.k. líka. Nú er það svo að hagsmunafélag hrossabænda ákvað að slíta sig út úr Bjargráðasjóði, þ.e. hætta að greiða til Bjargráðasjóðs og þar með hættir Bjargráðasjóður að sjálfsögðu að bæta tjón sem verða á hrossum. Þetta gerðist ef ég man rétt 1991 fyrir forgöngu formanns hagsmunafélags hrossabænda, séra Halldórs Gunnarssonar í Holti, ef ég man rétt. Þeir munu hafa hætt að greiða búvörugjald árið 1991. Þarna var tekin nokkur áhætta og það hefur komið í ljós við snjóflóð norður í Langadal þegar stórtjón varð á hrossum. Einn bóndi missti 13 hross og þau voru af mjög góðu kyni, sum þeirra ágæt reiðhross og í mjög háu verði. Þannig að þar er um mjög mikið tjón að ræða. Reynslan af þessum bótum frá Bjargráðasjóði á tjónum á hrossum mun hins vegar hafa verið sú að það var bara borgað niðurlagsverð, þ.e. eins og hefði fengist fyrir hrossin í slátrun. Þannig að lífið var einskis metið eða kostirnir. Og það hefur sjálfsagt verið undirrótin að því að hagsmunafélag hrossabænda vildi ekki greiða þetta lengur. En hér er um ákveðið vandamál að ræða, fjöldinn allur af hrossum er ekki tryggður hjá tryggingafélögunum þó að sum séu það, þannig að sú leið er líka nokkuð áhættusöm.