Bjargráðasjóður

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 15:01:50 (763)

1995-11-07 15:01:50# 120. lþ. 29.12 fundur 125. mál: #A Bjargráðasjóður# (heildarlög) frv., GL
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[15:01]

Guðmundur Lárusson:

Herra forseti. Vegna orða hæstv. félmrh. þá vil ég taka það fram að það er ekki hægt að segja að einn ákveðinn aðili, þ.e. Halldór Gunnarsson, hafi ákveðið þetta fyrir hönd greinarinnar. Að sjálfsögðu var þetta ákveðið eftir að stjórn félags hrossabænda hafði fjallað um málið og ástæðan fyrir því að þeir bændur sögðu sig frá Bjargráðasjóði var fyrst og fremst sú, eins og hæstv. ráðherra kom að, að lífið var einskis metið og verð í sláturhúsum er afar lágt. Hins vegar er verð á lífhrossum hátt og þess vegna töldu hrossabændur á sínum tíma að þeir fengju ekki tryggingarvernd með hliðsjón af því sem þeir greiddu til sjóðsins. Það var einnig svo um garðyrkjubændur að þeir töldu sig ekki fá þá vernd sem þeir töldu sig eiga rétt á úr sjóðnum og fóru þess vegna út í að tryggja sín mannvirki sérstaklega hjá almennum tryggingafélögum og hafa þannig notið tryggingarverndar. En þeir eru hins vegar tilbúnir til að skoða það að koma aftur til Bjargráðasjóðs ef reglur sjóðsins verða með þeim hætti sem þeir geta sætt sig við.