Rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 15:03:42 (764)

1995-11-07 15:03:42# 120. lþ. 29.13 fundur 109. mál: #A rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[15:03]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um að fram fari rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna. Rannsóknin taki bæði til opinberra starfsmanna og launafólks á almennum vinnumarkaði og verði hugað að samanburði á milli einstakra hópa og einnig samspili samningsbundinna launataxta og yfirborgana.

Það eru margar ástæður fyrir því að nauðsynlegt er að ráðast í rækilega könnun af þessu tagi. Reyndar þarf að kortleggja landið allt í kjaralegu tilliti og nægir þar ekki að horfa á launin ein. Íslenska þjóðin hefur ætíð verið þekkt fyrir eljusemi sína. Á tímum þegar nægt framboð hefur verið af vinnu hefur launafólk unnið hörðum höndum til að láta enda ná saman þar sem dagvinnulaun venjulegs launafólks á Íslandi hafa aldrei nægt til framfærslu fjölskyldunnar. Ljóst er að vinnuvikan á Íslandi hefur um langt árabil verið einna lengst í OECD-löndunum. Þannig kemur í ljós að árið 1991 var Ísland með næstlengstu vinnuvikuna í OECD-löndunum samkvæmt skýrslu Aflvaka um samkeppnisstöðu Íslands. Vinnuvikan var einungis lengri í Tyrklandi.

Með þeim samdrætti sem átt hefur sér stað í atvinnuuppbyggingu á íslenskum vinnumarkaði sl. fimm ár, hafa hins vegar skapast nýjar aðstæður. Fólki stendur ekki lengur til boða að bæta við sig vinnu til að bjarga heimilisbókhaldinu fyrir horn. Jafnframt hafa beinir skattar hækkað og bætur verið tekjutengdar við laun langt fyrir neðan meðallaun, þannig að ráðstöfunartekjur, einkum barnafólks sem er að koma yfir sig þaki, hafa verið skertar verulega.

Kjör fólks ráðast af kaupmætti launa, ráðstöfunartekjum eftir skatt en útgjöldin skipta einnig miklu máli. Þannig skiptir máli hvort fólk aflaði húsnæðis á vísitölulausum verðbólguáratug eða eftir 1980 eftir að verðtrygging kom til sögunnar með háum vöxtum í ofanálag. Í Dagsljósi ríkissjónvarpsins var nýlega birtur samanburður á kjörum tveggja einstaklinga sem keyptu íbúð, annar á áttunda áratugnum, hinn á þeim níunda. Sá fyrrnefndi var laus allra mála að örfáum árum liðnum, hinn greiðir rúmar 300 þús. árlega í 25 ár og er hér aðeins verið að ræða um skuldir til opinberra húsnæðislána. Einnig getur skipt sköpum á hvaða tíma fólk stundaði langskólanám. Hvort það var í námi á þeim árum sem lánin voru ekki verðtryggð eða eftir að verðtrygging og raunvextir komu til. Áfram mætti telja sig fram í tímann því þegar fram líða stundir þá hefur það gerst á þessu sviði sem flestum öðrum að jafnt og þétt hafa verið stigin skref í kjaraskerðingarátt. Fyrst kom verðtrygging á námslán, síðan var greiðsluþakið hækkað og fer nú upp í 7% af tekjum en var undir 4% árið 1992. Ofan á þetta hafa verið settir vextir sem ekki þekktust áður í þessu kerfi. Þannig geta hjón sem eru nýkomin úr námi verið að greiða á bilinu 200 til 300 þús. kr. í afborganir af námslánum á ári. Síðan er það spurningin hvort fólk er með börn á leikskólaaldri en aðkeypt barnapössun getur verið 30 þús. kr. á mánuði og eru það drjúg útgjöld að ekki sé á það minnst ef börnin eru fleiri en eitt. Þá skiptir máli hvort fólk á við sjúkdóma að stríða og þarf að standa straum af kostnaði af þeim en sá kostnaður hefur verið að aukast á síðustu árum eins og mönnum er kunnugt um.

Þannig mætti áfram telja dæmi um mikilvægi þess að hyggja að útgjöldum fjölskyldunnar þegar kjörin eru skoðuð.

En hyggjum þá að tekjum fólks. Er einstaklingur með innan við 100 þús. kr. í tekjur eða skipta mánaðartekjurnar hundruðum þúsunda meira? Ljóst er að launamunur hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum en nákvæmar tölur um þróunina eru ekki handbærar. Rekstrarumhverfi fyrirtækjanna hefur verið bætt þannig að hér eru skattar á fyrirtæki með því lægsta sem þekkist. Það hefur skilað sér í auknum hagnaði fyrirtækjanna en ekki í bættri afkomu almenns launafólks né heldur í auknum fjárfestingum fyrirtækjanna hér á landi sem hefði stuðlað að atvinnuuppbyggingu.

Þessir þættir sem hér hafa verið taldir upp, minnkandi kaupmáttur, minni vinna, hærri skattar, skerðing bóta og aukin útgjöld, auk vaxandi kjaramisréttis í þjóðfélaginu, eru undirrót þeirrar óánægju sem braust út í kjölfarið á úrskurði Kjaradóms um launakjör ráðherra, alþingismanna og embættismanna. Í fjölmiðlum hefur birst samanburður á launum hér á landi og erlendis og er sláandi munur þar á. Þetta eru engin ný sannindi en það sem er nýtt, er að margt bendir til þess að fólk vilji ekki lengur una þessu. Enda engin furða. Ísland er eitt auðugasta land í öllum heiminum. Engu að síður eru launin hér lægri en í samanburðarlöndum okkar og er reyndar svo komið að alvarlegur landflótti er brostinn á og láglaunafólk í fullu starfi er ekki lengur matvinnungar. Samkvæmt árbók yfir norræna tölfræði árið 1994 sem Norðurlandaráð gefur út, voru meðaltímalaun karla í framleiðsluiðnaði 488 kr. á Íslandi árið 1992. Í Noregi voru meðallaunin um 1.050 kr. Í Danmörku voru meðallaunin 1.344 kr. Í Svíþjóð 810 kr. Í Finnlandi 853 kr. Er að undra að fólk spyrji hvað valdi þessum lágu launum hjá einni ríkustu þjóð veraldar? Ekki er það vegna þess að samneyslan sé meiri hér en annars staðar. Reyndar er hún minni. Borið saman við hin Norðurlöndin er einkaneysla meiri hér en þar. Hér á landi er samneyslan innan við 20% af þjóðarkökunni en yfir 30% í Svíþjóð svo dæmi sé tekið. Lítil samneysla endurspeglar það að velferðarkerfi okkar er ekki samanburðarhæft við velferðarkerfi þeirra landa sem við berum okkur helst saman við. Bætur eru almennt lægri hér en í nágrannalöndum okkar og minni stuðningur hins opinbera við umönnun barna og aldraða. Og við skulum ekki gleyma því að eftir því sem félagsleg þjónusta er lakari, í þeim mun fleiri tilvikum þarf fólk að kaupa dýrari einkalausnir, samanber tilkostnað við barnauppeldi eins og áður var nefnt.

Ef við erum ein ríkasta þjóð veraldar, hvar eru þá peningarnir fyrst þeir fara ekki til almenns launafólks og þeir fara ekki heldur í samneysluna? Hvar eru peningarnir? Í fyrsta lagi eru milljarðar á sveimi í svarta hagkerfinu. Ef allir greiddu skatta væru hér rekin hallalaus fjárlög. Og við gætum verið að greiða niður skuldir þjóðarinnar, á milli 10--15 milljarðar væru til ráðstöfunar. Í öðru lagi eru miklar fúlgur hreinlega ekki skattlagðar. Við erum eina ríkið í gervöllu OECD þar sem fjármagnstekjur eru ekki skattlagðar. Auðvitað á að skattleggja fjármagnstekjur eins og hverjar aðrar tekjur og er ég þar að tala um raunávöxtun, ekki nafnvexti og að sjálfsögðu eiga þessar tekjur, arðurinn af fjármagni, að lúta sömu lögmálum og aðrar skatttekjur og taka mið af skattleysismörkum. Meðalskattur vaxta í Danmörku er 51%. Í Sviss 31% og í Bandaríkjunum 28%. Lægsta meðalskatthlutfallið er í Tyrklandi, 10%, en á Íslandi 0%. Ekkert. Þ.e. Íslendingar skattleggja ekki arð af fjármagni, ekki um eina einustu krónu. Í þriðja lagi ber að hyggja að því þegar við veltum því fyrir okkur hvar peningana sé að finna í þessu ríka landi landflóttans, að hér eru skattar á fyrirtæki lægri en tíðkast nánast hvar sem er á byggðu bóli. Samkvæmt Frjálsri verslun fjórfaldaðist hagnaður 68 fyrirtækja á sl. ári. En þessi fyrirtæki eru í hópi 100 stærstu fyrirtækja landsins. Á sama tíma og hagnaður fyrirtækjanna fjórfaldaðist hækkuðu meðallaun hjá fyrirtækjunum um 3.000 kr. á mánuði. Það er því ljóst að betri afkoma fyrirtækjanna hefur ekki skilað sér til launafólksins almennt nema þá í mjög litlum mæli.

En þetta segir aðeins hálfan sannleikann. Auðvitað eru til fjölmennir hópar launafólks sem eru skilgreindir sem slíkir, sem búa við bærileg kjör. Staðreyndin er sú að launakerfið er einn allsherjarfrumskógur og það er inn í þann frumskóg sem við viljum lýsa. Út á það gengur okkar tillaga. Lággróðurinn í þessum skógi þekkjum við nokkuð vel, upplýsingar um hann er að finna í umsömdum launatöxtum stéttafélaga en um óumsamin launakjör vitum við hins vegar minna og í þessum kjörum liggur hin mikla mismunun eða hluti af henni. Mönnum hefur orðið tíðrætt um yfirborganir hjá hinu opinbera í launamálaumræðu upp á síðkastið. Ekki eru þær þó síðri á almenna vinnumarkaðinum en þar er algengt að fólki sé beinlínis bannað að upplýsa hver laun það hafi umfram það sem samið er um í almennum kjarasamningum og launataxtar kveða á um. Fólki er bannað að segja þetta vegna þess að menn óttast að slíkt mundi valda óróa, upplausn og óánægju. En það er eitthvað mikið bogið við það sem ekki þolir dagsljósið.

Eina könnunin sem við höfum um launamyndun á íslenskum vinnumarkaði, og þá er ég að tala um launakönnun tölfræðihóps norræna jafnlaunaverkefnisins, sýnir að þau skil sem mikilvægast er að skoða með tilliti til mismununar í launakerfunum eru ekki á milli opinbera vinnumarkaðarins annars vegar og hins almenna hins vegar, heldur á milli hærra launaðra hópa sem eru á einstaklingsbundnum kjörum og lægra launaðra sem fá laun greidd samkvæmt launatöxtum, umsömdum launatöxtum. Ef við ætlum að breyta tekjuskiptingunni, en það er skýr krafa frá þjóðinni að svo verði gert, þá er grundvallaratriði að hætta að trúa að mismunandi lögmál gildi um opinbera geirann og einkageirann og horfist verði í augu við að þetta er spurning um hversu nærri kjötkötlunum menn standa hverju sinni, hversu nánir og þóknanlegir þeir eru þeim sem halda um pyngjuna.

[15:15]

Hæstv. forseti. Hin lágu laun á Íslandi og hin laka félagslega þjónusta er orðin að ávísun á landflótta og skapar auk þess erfiðleika og óánægju í landinu. Ekki síst þegar menn sjá það í sínu daglega lífi hve gæðunum er misskipt í okkar þjóðfélagi. Upp úr sauð í haust þegar laun ráðherra, þingmanna og æðstu embættismanna þjóðarinnar voru til umfjöllunar. Þjóðin sendi valdhöfunum þá skýr skilaboð um að henni væri nóg boðið. Spurningin nú er því hvort valdhafarnir kunna að túlka þessi skilaboð. Til að þeir geti það þurfa þeir að hafa glöggar upplýsingar um hvernig ástandið er í raun og veru. Til þess er þessi þáltill. flutt. Til að taka á þessum málum þurfum við að þekkja allar stærðir. Það þarf að búa til kjarakort af íslenska þjóðfélaginu. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir kortlagningu á einum þættinum, tekjum fólks og starfskjörum. Rannsókninni er ætlað að taka bæði til opinberra starfsmanna og launafólks á almenna vinnumarkaðinum og huga að samanburði milli einstakra hópa og samspili samningsbundinna launataxta og yfirborgana. Mikilvægt er að fulltrúar vinnumarkaðarins komi að þessari vinnu og því er lagt til að fulltrúar frá öllum stærstu samtökum launafólks og atvinnurekenda sitji í nefndinni.