Rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 15:44:30 (772)

1995-11-07 15:44:30# 120. lþ. 29.13 fundur 109. mál: #A rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna# þál., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[15:44]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka flm. þessa þáltill. sem er góðra gjalda verð og ég held að þurfi að fá góða þinglega meðferð og vonandi leiðir hún ýmislegt í ljós. Varðandi síðustu ræðu hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur um að það þurfi að rannsaka sérstaklega landbúnaðinn og sjávarútveginn, þá held ég að það sé kannski tímabært að fara að rannsaka hvað þeir eru að gera í karphúsinu. Við upplifðum smástund í karphúsinu áðan í samtali tveggja þingmanna, þeirra hv. þm. Ágústs Einarssonar og hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Kannski er þetta hluti af meininu sem við búum við. Vitringar landsins setjast að því að semja um það sem ekkert er og miða síðan út frá verst stadda fyrirtækinu hvað megi borga.

Ég er sammála því að ég tel að launamál á Íslandi séu í mjög miklum ólestri og það þurfi að fara yfir það hvað veldur. Við skulum bara taka glöggt dæmi. Menn sömdu fyrir stuttu síðan um lægstu laun fyrir fulla dagvinnu dálítið undir 50 þús. kr. á mánuði. Ég tel það ekki verjandi. Ég minnist þess að einhvern tíma sagði foringi Framsfl., Ólafur heitinn Jóhannesson, að það yrði að fara að lögbinda laun. Mig minnir að það hafi verið 1978--1979 sem hann sagði að engum ætti að líðast að borga undir 100 þús. kr. á mánuði. Auðvitað er mikið að í kerfi sem leyfir sér að borga undir 50 þús. kr. á mánuði og ég held að það sé hárrétt að fara þurfi yfir þetta frá a til ö hvað er að. Ég hef sannfærst um það í seinni tíð að við Íslendingar búum við mikla lágtekjuhagfræði. Atvinnulífið stjórnar eftir mikilli lágtekjuhagfræði og það kemst upp með það. Þess vegna get ég ekki varið kerfið með hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Ég held að það þurfi að endurskoða kerfið og í kerfinu sé fólginn hluti af meininu. Ég held að íslenska samfélagið þurfi svipaða aðgerð og gerðist þegar Pehr Gyllenhammar tók við Volvosamsteypunni á heljarþröm. Hvað gerði hann? Hann setti upp nýja vinnuhagfræði. Hann fann að þeir sem réðu úrslitum í fyrirtækinu, voru fólkið á gólfinu, fólkið sem vann hin almennu störf. Og hann skar ofan af, hann byggði upp nýja vinnuhagfræði og bónuskerfi. Honum var annt um fólkið. Kannski er það þetta sem við þurfum að gera og atvinnulífinu á ekki að líðast að borga jafnlág laun og það gerir. Það er spurning hvort það sé þjóðhagslega hagkvæmt að reka slík fyrirtæki sem leyfa sér svona lág laun eins og ég hef komið að. Og það er auðvitað sorglegt að þeir aðilar sem sitja yfir þessum samningum skuli allir vera á a.m.k. tvöföldum þingmannslaunum.

Hér er nýleg úttekt á forstjórum. Meðallaun forstjóra á mánuði eru 588 þús., það er mein í kerfinu sem þarf að fara yfir. Verkalýðsforkólfarnir sem eru nú að skammast alla daga eru líka á háum launum fyrir utan hv. þm. Ögmund Jónasson.

Það er svo, hæstv. forseti, að auðvitað er margt sem síðan vegur inn í svona rannsókn sem þarf að hugleiða. Það eru skattamálin. Það eru jaðarskattar og skattastefnan í landinu. Þetta þarf allt saman að yfirfara í svona rannsókn.

Ég velti því fyrir mér hvort það gæti jafnvel verið heppilegra fyrir launafólkið á Íslandi að forkólfarnir í atvinnulífinu og verkalýðshreyfingunni væru knúnir til þess einn daginn að setjast yfir kjaradómstól með allt fólkið og við ákvæðum hvar hver og einn ætti að vera með þeim hætti að það væru ekki til nema 6--8 launaflokkar á Íslandi. Forsetinn væri kannski í efsta flokknum og forsrh. næstur. Síðan gætu það verið ýmsir aðrir. (Gripið fram í.) Það skiptir ekki máli í þessu, hv. þm. Það er spurning hvort fallkandídatar ættu að fá einhverjar sárabætur. En ég velti þessu fyrir mér. Væri það heppilegra fyrir launafólkið að það yrði hreinlega bara sest yfir þetta í einhvers konar nýjum kjaradómstól og þar kæmust menn að niðurstöðu að lægsti maðurinn mætti aldrei vera undir þessu, hæsti maðurinn mætti aldrei fara yfir þetta nema það kæmu þá bara til ofurskattar.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Sé samanburður við launakjör í nálægum löndum réttur verður ekki mikill friður hér. Og auðvitað blasir við fólksflótti þótt þessi dagur sé hamingjudagur að því leyti að það blasir við nýtt álver og kannski ný umsvif sem skipta máli því að auðvitað er það slíkt sem hefur vantað.

Ég vil taka undir það að þáltill. er góðra gjalda verð. Ég vona að hún fái góða meðferð og leiði gott af sér. En ég ítreka það að ég held að við þurfum í heild sinni að hugsa þessi mál upp á nýtt. Ég get tekið undir vinnustaðasamninga. Er það kannski ekki hluti af meininu? Af hverju látum við sterkrík fyrirtæki sem sýna mikinn hagnað sem fólkið hefur skapað komast upp með að fá ekki út af kjarasamningum á vinnumarkaðinum að koma þessu í vasana hjá fólkinu? Það er samið um allt aðra hluti. Það mundi kannski leiða til nýs þróttar í atvinnulífinu fyrir utan hitt að svo er atvinnulífið náttúrlega virðingarlaust að því leyti að það virðist vera hafa verið lenska á Íslandi að það er betra að setja fyrirtækið á hausinn heldur en borga sæmileg laun. Það er alveg klárt að þeir vilja frekar setja það á hausinn með því að taka lán og aftur lán heldur en þurfa að borga krónu í skatta sem renna til samfélagsins. Það er hluti af þessari meinsemd þannig að næsta þáltill. ætti kannski ekki síst að snúa að því að laga atvinnulífið til svo það vinni á þjóðhagslegum grunni að ýmsum málum. Mér finnst verst í fari atvinnulífsins virðingarleysi gagnvart bæði skattalögum og ekki síður hinu að borga fólki mannsæmandi kjör.