Rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 15:53:36 (773)

1995-11-07 15:53:36# 120. lþ. 29.13 fundur 109. mál: #A rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[15:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir það sem kom fram í hans máli í upphafi að hann vildi leggja sitt af mörkum til að tryggja að þessi tillaga fái góða umfjöllun og farsæla niðurstöðu í þinginu. Hins vegar skildi ég ekki alveg allt í hans málflutningi, ekki síst þegar hann í upphafi vék að kjaraviðræðum sem fram færu í karphúsinu þar sem menn sætu gjarnan og semdu um það sem ekkert er, eins og hann orðaði það.

Ég rakti í upphafi og vék að því að Íslendingar eru ein ríkasta þjóð í heimi, en jafnframt erum við sú þjóð, og þá er ég að hugsa um þær þjóðir sem við helst miðum okkur við, þar sem launafólki eru búin hvað lökust kjörin. Í þessu er það misræmi sem við þurfum að sameinast um að ráða bót á.

Hins vegar er ég orðinn svolítið þreyttur á því að verkalýðshreyfingunni sé kennt um þegar þvergirðingsháttur atvinnurekenda, hvort sem þeir eru ríkisreknir eða einkareknir, veldur því að ár eftir ár eftir ár í kjarasamningum er staðið gegn öllum réttmætum kröfum launafólks um kjarabætur og launahækkanir. Og þegar hv. þm. Guðni Ágústsson segir að hér ríki lágtekjuhagfræði og gefur í skyn að það sé verkalýðshreyfingin og talsmenn hennar sem haldi henni á lofti, þá vil ég a.m.k. frábiðja mér slíka samtvinnun og slíkar skírskotanir. Í þeim málflutningi sem við höfum haft uppi í þeim samtökum sem ég er í forsvari fyrir höfum við einmitt talað um hve alvarlegt það sé þegar stórum hluta þjóðarinnar, þorra þjóðarinnar reyndar, er haldið á svo lágum kjörum að það veldur neyslukreppu í samfélaginu. Við höfum bent á þetta samhengi hlutanna. Það að draga úr neyslugetu almennings með því að halda kjörunum lágum leiðir til almennrar kreppu í þjóðfélaginu. Þannig að þetta er ekki okkar stefna og við erum orðin þreytt á því sem komum úr þessum ranni að vera kennd við þessa stefnu og jafnvel kölluð varðhundar kerfisins af þeim sem hafa staðið gegn réttmætum kröfum launafólks um kjarabætur.