Rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 15:59:14 (775)

1995-11-07 15:59:14# 120. lþ. 29.13 fundur 109. mál: #A rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna# þál., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[15:59]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa þáltill. Hún er svo sem virðingarverð, en óneitanlega þarf mikla þolinmæði til að sætta sig við að enn ein könnun skuli gerð á kjörum landsmanna. Það er dálítið skondið, ef ég mætti segja svo, að land sem hefur íbúatölu eins og í smábæ í Bandaríkjunum, virðist þurfa að lúta öllum sömu lögmálum og milljónaþjóðir. Ég vil taka undir með hv. 19. þm. Reykv., Guðnýju Guðbjörnsdóttur, ég held að við vitum nokkurn veginn hvernig ástandið er í þessu þjóðfélagi. Og þess vegna út af fyrir sig er ekki að búast við neinum nýjum upplýsingum þó þessi könnun færi fram. En ég get tekið undir með öðrum hv. þm., það er alltaf gott að hafa hlutina á pappír.

Þolinmæði hins íslenska launamanns er auðvitað löngu þrotin og kannski var besta spurningin sem fram kom í máli hv. 17. þm. Reykv., Ögmundar Jónassonar, hvar eru fjármunir landsmanna? Hvar eru þeir? Það er alveg rétt sem hann hefur sagt, Íslendingar eru ein ríkasta þjóð í heimi miðað við fólksfjölda og þar í liggur vandinn.

[16:00]

Það var sorglegt að lesa viðtöl við ungt fólk, og reyndar miðaldra fólk líka, í laugardagsblaði Dagblaðsins þar sem það var að lýsa kjörum sínum í Danmörku. Fólk sem er fullvinnandi, dauðlangar að búa í landi sínu en getur það ekki, það hefur ekki efni á því. Hvað er hér að gerast? Ég viðurkenni að ég hef stundum verið grimm í garð verkalýðsforustunnar, mér þykir hún ekki hafa staðið sig á undanförnum árum. Ég hef haldið því fram að sú var tíðin fyrir svona 20 árum að víst var láglaunafólk í þessu landi, sama fólkið og alltaf er það, Iðjufólkið, fólkið í frystihúsunum, nákvæmlega þar sem allir peningar þjóðarinnar eru raunar og er ekki tilviljun. En þá var til millistétt sem engin sérstök ástæða var til að hafa áhyggjur af. Það var sæmilega menntað fólk. Það voru kennarar, hjúkrunarfræðingar, fóstrur, fagmenntað fólk sem hafði þokkalegustu laun. Þá var reynt að toga lægst launaða fólkið í áttina að því. Síðan hefur þetta snúist við og eitthvað sem á einhverjum punkti var kallað ,,jafnlaunastefna`` hefur mér sýnst snúast um það að toga alla niður til hinna lægst launuðu. Það þykir mér ekki góð launastefna. Fólk lætur svo auðveldlega blekkjast og dæmi um það er uppnámið varðandi laun þingmanna og ráðherra. Auðvitað vill ekki framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins neinar launabreytingar. Launin hans eru prýðileg og fari einn af stað kynnu aðrir að fara af stað, auðvitað vill hann algjöra kyrrstöðu, það kemur engum á óvart. Ég efast um að fólkið í landinu hafi skilið hvað það var að leiða yfir sig með því að vera sammála honum. Því síður held ég að forustumenn launamannasamtaka hafi skilið hvað hér er á ferðinni. En það hefur ansi margt gerst á 20 árum.

Einu sinni fyrir mörgum árum hélt ég ræðu í Hafnarfirði og sagði þar --- og var satt að segja fyndin sem mér er stundum álagt að vera við hátíðleg tækifæri --- að ákveðinn útgerðarmaður þar í bæ hefði átt allt, búðina, sjóarana og fiskinn í sjónum og Hafnfirðingar veltust um af hlátri. Þeir höfðu aldrei hugsað út í það --- ekki gekk það nú svo langt að hann ætti fiskinn í sjónum. En nú eru til menn sem eiga fiskinn í sjónum og selja hann og kaupa á víxl. Á meðan svo er skulu menn ekki ætlast til að hér gerist neitt af viti í kjarajöfnun í þessu þjóðfélagi. Menn fá gefins fyrirtæki eins og SR-mjöl og það líða ekki nema sex mánuðir þar til hundruð milljóna velta út í hreinum gróða. Fyrirtæki sem ríkið gaf ákveðnum hópi manna. Hér er ekki lengur hægt að snúa sér við hvorki á landi, láði né legi, án þess að milljónirnar mokist í vasa örfárra manna sem svo sannarlega eiga verðuga fulltrúa á hinu háa Alþingi. Verður ekki séð að hlutverk þeirra ágætu hv. þm. sé annað en að gæta hagsmuna þessara fyrirtækja hér.

Ég held að það sé mál til komið, hæstv. forseti, að við þorum að segja sannleikann. Við horfum upp á það með skelfingu hvernig komið er fyrir bændastéttinni í landinu, í þessu gjöfula landi. Hér eru framleiddar betri vörur en víðast hvar annars staðar og nægir að nefna mjólkurafurðir hér í landi sem menn skyldu halda að væri hægt að selja fyrir góðan pening. Við höfum betra kjöt en flestir aðrir. Nú hafa menn fundið út að þetta borgi sig ekki. Hafa menn ekki misst þolinmæðina að hlusta á það rugl? Það er kannski von að vesalings þjóðin segi: Það er sami rassinn undir öllu þessu stjórnmálaliði, það er alveg sama hvað maður kýs. Sannleikurinn er sá að engri hæstv. ríkisstjórn hefur tekist að gera nokkurn skapaðan hlut af viti í þessum málum.

Eitt stendur eftir. Það eru nógir fjármunir til í landinu til að 260.000 sálir geti lifað hér betra lífi en nokkur önnur þjóð í víðri veröld. En það hefst auðvitað ekki með því að obbinn af því fólki sem er með obbann af fjármagninu er ölmusufólk á okkur hinum sem greiðum skatta okkar og skyldur. Það erum við sem menntum börnin þeirra, það erum við sem greiðum fyrir heilsuþjónustu þeirra. Hvar halda menn að þessir peningar séu? Halda menn að þeir séu endilega hér í landi? Nei. Stór hluti þeirra er löngu kominn til útlanda enda væru þeir kjánar ef þeir færu ekki með þá þangað. Menn eiga stórkostlegar eignir erlendis og peninga á bönkum. Ég er of mikill Hafnfirðingur og búin að horfa upp á of mikið í útgerð í landi til að það sé hægt að segja mér að það borgi sig ekki að veiða fisk. Menn hafa alltaf grætt á tá og fingi sem hafa fást við fisk og gera enn. Þess vegna á ég stundum afskaplega erfitt, jafnt í flokknum mínum sem og þegar ég hlýði á jafnvel flokksfélaga mína sem eru í forustu fyrir verkalýðshreyfingunni, tala í fullri alvöru um kjarasamninga sem verið er að gera hér hvað eftir annað sem eru í þá veru að það er útilokað að sá sem fær greitt samkvæmt þeim geti lifað af laununum. (Forseti hringir.) Hvað á þetta að þýða? Hæstv. forseti. Mikið hefði mig langað að tala miklu lengur.

(Forseti (ÓE): Það gengur ekki.)

En ég á kost á að tala aftur ef þörf krefur og skal ég nú ljúka máli mínu að þessu sinni, hæstv. forseti.

(Forseti (ÓE): Ja, nú eru ekki fleiri á mælendaskrá.)

Þar fór í verra.