Erfðabreyttar lífverur

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 17:12:20 (781)

1995-11-07 17:12:20# 120. lþ. 29.14 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[17:12]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir viðbrögð hans og svör hans við máli mínu. Þótt hann skrifaði e.t.v. ekki upp á allt sem ég var að segja, enda fór ég ekki fram á það, leitaðist hann við að svara fyrirspurnum mínum. Ég vil ítreka það í andsvari, virðulegur forseti, að ég tel ekki eftir neinu að bíða og það megi ekki horfa fram hjá þessum siðferðilega þætti og festa í lög leikreglur varðandi erfðabreyttar lífverur án þess að siðferðilegi þátturinn sé samofinn þeirri löggjöf og hluti af henni og hluti af því ferli sem á að fara fram samkvæmt lögunum. Því aðeins kemur það að þeim notum sem við getum væntanlega verið sammála um að þurfi að verða af slíkri umræðu. Það gildir nákvæmlega eins um það þegar sett verða lög sem snerta meðferð á stafrófi tegundarinnar maður sem þegar er farið að fitla við í allríkum og sívaxandi mæli með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir þróun mannsins og stöðu á jörðinni eins og reyndar allt þetta sem varðar erfðabreytingar á lífverum. Auðvitað verður einnig að samþætta siðferðilega umfjöllun þeirri málsmeðferð og ég vona að við getum afgreitt þessi mál, lögfest í góðri sátt á Alþingi, því auðvitað er þörf á reglum á sviði sem er í reynd í fullum gangi, en þá lítum við yfir sviðið allt og tökum þennan þátt inn í löggjöf okkar.