Landgræðsla

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 17:32:58 (784)

1995-11-07 17:32:58# 120. lþ. 29.15 fundur 93. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntutegundir o.fl.) frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[17:32]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum um landgræðslu. Ég lít svo á að þetta frv. taki á málum sem tímabært er að taka á og nálgist þann vanda sem við stöndum frammi fyrir í sambandi við landgræðslu og þá einnig t.d. skógrækt með þeim hætti sem æskilegur er þó að ég hafi vissar efasemdir um efnislegt innihald þessa frv. Ég er þeirrar skoðunar að tímabært sé að taka lögin um landgræðslu til heildarendurskoðunar og ég tel að æskilegt væri að sú heildarendurskoðun mundi leiða til þess að landgræðslustarfið fæli í sér nákvæmari áætlanagerð og rannsóknir á því hvaða árangri við getum náð með landgræðsluaðgerðum heldur en nú er.

Það er hins vegar svo þegar við lítum á þetta frv., sem er ekki ýkja mikið í blaðsíðum talið en býsna atkvæðamikið efnislega séð, að rétt er að við skoðum hvaða hugmyndir eru þar lagðar fram og það er rétt að við hugleiðum einnig hvort Ísland njóti einhverrar sérstöðu að því er varðar landgræðslumál.

Nú er það svo að íslenskt vistkerfi hefur orðið oftar en einu sinni fyrir verulegum áföllum og nefni ég þar sérstaklega ísaldarskeiðin sem urðu til þess að fækka hér tegundum stórlega. Hér uxu áður tegundir eins og ölur og furutré sem þrifust í samræmi við þær náttúrulegu aðstæður sem þá voru og voru a.m.k. á tímabili ekki svo ólíkar þeim náttúrulegu veðurfarsaðstæðum sem við búum nú við. Eftir að ísaldarskeiðin höfðu grisjað íslenskan gróður sá einangrun landsins um að halda þessum gróðri í þeim fábreytileika sem náttúran hafði komið sér upp. Þeim líffræðilega fábreytileika sem ísaldarskeiðin höfðu skapað sér. Þegar þar við bættist eftir landnám Íslands að aldalöng ofnýting jarðargróðans, ekki síst afréttarlanda, leiddi til þess að veruleg breyting varð á gróðurfari landsins er ljóst að í heild er ekki hægt að tala um íslenskt gróðurkerfi sem óraskað heldur sem gróðurkerfi sem orðið hefur fyrir verulegri röskun, bæði af náttúrulegum ástæðum og af mannavöldum. Einnig verður að taka fram að vegna einangrunar landsins hefur náttúran sjálf ekki megnað að bæta Íslandi upp þessa gróðurrýrnun með náttúrulegum aðferðum. Maðurinn er að sjálfsögðu hluti af náttúrunni en það er alla vega ekki íslensk málvenja að telja það náttúrulega gróðurútbreiðslu þegar Hákon Bjarnason heitinn flutti hingað lúpínufræ eða lerkiplöntur erlendis frá.

Íslenska vistkerfið er jaðarsvæði og það er einangrað jaðarsvæði. Þar er lífríkið viðkvæmara fyrir áföllum en ella. Annars staðar í heiminum eru þessi jaðarsvæði þannig að náttúran bætir oft upp þau áföll sem orðið hafa. Það er t.d. svo ef ég tek dæmi sem ég kynntist fyrir nokkru að umhleypingar að vetri til á skógarsvæðunum í kringum Calgary í Kanada ollu því að talsverður hluti af öspinni sem þar vex eyðilagðist. Þetta svæði er hins vegar ekki náttúrufræðilega einangrað og þeir stofnar sem vaxa á hinu mikla meginlandi Norður-Ameríku sjá um það á náttúrulegan hátt að bæta þetta upp fyrir utan það að mannshöndin getur líka gert þarna talsvert. Hér á Íslandi er þessu ekki þannig varið. Náttúruleg einangrun okkar er það mikil að þegar íslenskt vistkerfi verður fyrir áföllum er það oft varanlegt áfall. Af þessum sökum hygg ég að skynsamlegt sé fyrir okkur Íslendinga að líta svo á að landgræðsla og skógrækt lúti hér nokkuð sérstökum lögmálum. Ég held að það sé skynsamlegt af okkur að búa okkur til okkar eigin hugmyndafræði að því er þetta varðar.

Við megum ekki gerast of íhaldssöm að því er varðar tilraun til þess að auka á fjölbreytileika íslensks gróðurríkis. Það er ljóst hvort sem við grípum til markvissra aðgerða til þess að auka íslenskt gróðurlendi eða jafnvel grípum til friðunarráðstafana geta ráðstafanirnar hvort tveggja leitt til þess að ákveðnar tegundir af jurtum þrífast betur en áður en aðrar tegundir af jurtum þrífast verr. Ef við tökum dæmi er það almennt nú viðurkennt að eftir aldalanga ofnýtingu á landinu og ofbeit hefur birki látið undan síga en í staðinn hefur fjalldrapi og blandað birki, birki sem er eiginlega erfðablanda milli fjalldrapa og birkis, náð að breiða sig út mun víðar en það mun hafa verið áður. Ef við mundum ná verulegum áföngum í því að friða landið, ekki síst með það fyrir augum að birki næði sér á strik aftur og mundum jafnvel beita vísindalegum aðferðum til að hreinrækta íslenskt birki og planta því sem víðast, mundum við breyta með þessum hætti stórum hluta af gróðurlendi Íslands. Við mundum breyta því gróðurlendi sem fyrir væri. Á mjög stórum og víðáttumiklum gróðurlendum á Íslandi er gróðurinn afleiðing ofbeitar. Þar sem áður var mun meira gróðurlendi, þar sem trjágróður var mun meiri áður, hafa rutt sér til rúms þær tegundir sem þrífast þar sem skógurinn hverfur. Eigum við þá að standa vörð um þetta gróðurlendi sem við höfum þannig búið til með ofbeit og ofnýtingu?

Á svæði kringum Røros í Noregi var skóg eytt gersamlega á 19. öld í sambandi við námagröft. Þar er núna að sjá eiginlega öll stig gróðureyðingar en jafnframt mörg stig uppgræðslu því að þar hefur gróðurverndarstarf verið rekið í marga áratugi. Þegar maður ræðir við skógfræðing á þessu svæði heyrir maður að gróðursamfélagið á þeim hlutum svæðanna í kringum Røros þar sem eyðilegging skóganna gekk lengst er allt annað en þar sem skógurinn hefur fengið að ráða sér sjálfur. Mörgum tegundum hefur þar verið útrýmt. Skógurinn hefur að sjálfsögðu útrýmt öðrum tegundum. Sumar tegundir nýta sér nálægð skógarins og þrífast þar vel. Það vekur því spurningar um það þegar við beitum okkur fyrir því að standa vörð um náttúrulegan gróður landsins hvað við köllum náttúruvernd og hvað við ætlum að standa vörð um. Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi fram vegna þess að um þetta er ekki sérstaklega fjallað í greinargerðinni og hefði þó verið full þörf á því að hafa nokkra umfjöllun um þetta atriði enda þótt sú umfjöllun sé vafalaust erfið, flókin og vandmeðfarin. Ég held að skynsamlegt hefði verið að fjalla um það nokkrum orðum vegna þess að þjóðin er nokkuð skipt í skoðunum sínum um þetta mál. Sumum rennur til rifja hversu fátæklegt gróðurlendi Íslands er og vilja bæta þar úr. Það hafa menn gert með innflutningi erlendra plantna sem hafa þegar unnið sér þegnrétt hér á landi í augum margra manna. Ég nefni þar sérstaklega lerki sem kemur frá Síberíu og Rússlandi. Ég nefni þar stafafuru sem kemur frá Norður-Ameríku sérstaklega og sitkagreni og það má líka nefna þar Alaska-lúpínuna. Þessar tegundir, og nefni ég þar sérstaklega lerkið, eru þegar farnar að sá sér út á Íslandi. Þær eiga sér ekki neinn þegnrétt hér ef menn líta svo á að sá gróður sem hér var við landnám sé eini gróðurinn sem eigi rétt á sér á Íslandi.

[17:45]

Í 1. gr. þessa frv. stendur:

,,Við það skal miðað að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni á náttúrulegum gróðri landsins.``

Það væri hægt að snúa út úr þessari grein og segja: Við það skal miðað að viðhalda líffræðilegri fábreytni gróðurs á Íslandi, vegna þess að gróðurinn sem hér er er á margan hátt miklu fábreytilegri heldur en náttúrlegar aðstæður gefa tilefni til og það er einangrun landsins sem hefur staðið vörð um þennan fábreytileika. Þess vegna hefði ég óskað eftir því að umfjöllunin um sérstöðu Íslands að þessu leyti yrði efnislega meiri, menn opnuðu á það að þetta sé meiri sérstaða heldur en hér kemur fram, vegna þess að ég tel að skilningur á því sé líklegri til þess að við getum náð einhverri sátt um þetta mál, en eins og stendur er þjóðin nokkuð skipt í þessu máli. Og ég hygg, satt best að segja, að við eigum það sameiginlegt, ég og 1. flm. þessa frv. að óska eftir því að menn nái sáttum í máli eins og þessu.

Ég vil einnig vekja athygli á því og það kemur fram í greinargerð með þessu frv. að menn gera sér býsna háar hugmyndir um það að maðurinn geti stjórnað náttúrunni. Þetta kemur m.a. fram í umsögn um lúpínuna. Þar er sagt að lúpína megi gjarnan vera sums staðar en megi ekki vera annars staðar og þá er væntanlega miðað við það að menn ætli sér þann kraft og þann mátt að geta stjórnað nátúrunni fullkomlega. Í fyrsta lagi eru því takmörk sett hvað menn geta stjórnað náttúrunni og í öðru lagi er það ekki alveg víst að það sé alltaf æskilegt að setja sér slík markmið. Við þurfum þess vegna að velta því fyrir okkur hvort fábreytileiki íslensks lífríkis er svo mikill að við höfum sérstaka ástæðu til þess að auka fjölbreytileikann. Þessi orð mín ber hins vegar ekki að skilja þannig að menn eigi að iðka einhvern glannaskap í þessum efnum, það er ekki það sem átt er við. En hins vegar er íhaldssemin í þessu plaggi ærið mikil.

Ég vil einnig taka fram að í 2. gr. frv. er allmörgum stofnunum gefið úrslitavald um að stöðva ákvarðanir um landgræðslu. Það segir: ,,Því aðeins skal taka til notkunar í landgræðslu innflutta plöntutegund að fyrir liggi jákvæð umsögn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins, Náttúruverndarráðs og Líffræðistofnunar Háskóla Íslands.`` Sérhver þessara stofnana getur komið með neikvæða umsögn um þetta. Aðeins ein stofnun nægir og þá er samkvæmt þessari laganna hljóðan ekki heimilt að taka til notkunar innfluttar plöntutegundir.

Það úrskurðarvald sem þessum stofnunum er þarna falið þykir mér ærið mikið þótt mér finnist jafnsjálfsagt að leita álits hjá þessum rannsóknastofnunum. Og að sjálfsögðu verður maður að fá rökstudda umsögn um málið. En ég geri fastlega ráð fyrir því að flm. hafi reiknað með því að þetta yrðu vísindalegar umsagnir og byggist á rökum. Ég geri engan ágreining við hann um það. En ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á þessum þáttum málsins.

Það er svo að þeir ágætu náttúrufræðingar sem við til allrar guðs lukku eigum innan fjölmargra stofnana hættir oft til að líta á náttúruna eins og safn og vilja standa vörð um náttúruna eins og safn. Þeim hættir líka til að lenda upp á kant við þá aðila sem vilja taka til hendinni og bæta þar sem þeim finnst úrbóta þörf. Þessi safnahugsjón náttúrufræðinganna getur verið mjög gagnleg en hún getur líka verið skaðleg. Það fer allt eftir eðli málsins. Hér er í greinargerð vitnað í þann ágæta vísindamann Hálfdán Björnsson og með leyfi forseta vil ég lesa eina setningu sem höfð er eftir honum og er þar átt við lúpínuna:

,,Þetta er alveg ódrepandi jurt þar sem hún nær fótfestu og ég held að menn átti sig ekki alltaf á því að lúpínan útrýmir öðrum jurtum.``

Ég hef sjálfur friðað land sem var að mestu leyti graslendi. Smám saman hefur það komið í ljós að íslensk jurt, sem ég er persónulega mjög hrifinn af, er að útrýma graslendinu. Hún heitir mjaðjurt. Það tekur hana nokkur ár að hasla sér völl í graslendinu, en smám saman nær hún sér á strik. Þar sem hún nær mestri grósku útrýmir hún ýmsum öðrum tegundum. Það segir í raun og veru ekki mikið þó að mjaðjurtin útrými öðrum tegundum. Það segir bara að í náttúrunni almennt gildi lögmál hins sterkasta og það þarf ekki að vera neitt nýtt lögmál. Mjaðjurtin er að þessu leyti ekkert verri jurt en lúpínan. Hún útrýmir öðrum jurtum þar sem hún fær virkilega að njóta sín. Hins vegar hverfur mjaðjurtin við beit, hún virðist vera góð til beitar. En það er nú svo með þessa jurt eins og ýmsar aðrar jurtir að þær nýta sér þær aðstæður sem fyrir hendi eru í náttúrunni og ef við tökum til friðunar verulega stór landsvæði, þá verðum við að gera ráð fyrir því að lögmál náttúrunnar leiði til þess að ákveðnar jurtir ryðji sér svolítið til rúms á kostnað annarra. Það er gangur lífsins. Og ég held, satt best að segja, að við hljótum að eiga það áhugamál sameiginlegt, ég og hv. 1. flm. þessa frv., að bæta gróðurlendi Íslands, ekki bara með því að leyfa íslenskum jurtum sem við teljum eiga þegnrétt í þessu landi heldur einnig innfluttum jurtum, til að gera íslenskt lífríki sterkara og fjölbreytilegra. Ég held að við hljótum líka að eiga það sameiginlegt báðir tveir að við viljum fara varlega í þessum efnum. En mér finnst ástæða til að hugleiða það hér og nú hver sérstaða landsins er að því er varðar gróðurlendið og einangrun landsins.