Landgræðsla

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 17:53:59 (785)

1995-11-07 17:53:59# 120. lþ. 29.15 fundur 93. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntutegundir o.fl.) frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[17:53]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. flutningsmönnum endurflutning þessa máls. Ég held að hér sé hreyft þörfu máli sem við þurfum að takast á við. Ég á von á því, eins og kom fram hjá hv. frsm., að málinu verði vísað til landbn. og sem landbúnaðarnefndarmaður sé ég ekkert því til fyrirstöðu að því verði jafnframt vísað til umsagnar í umhvn. af landbn.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Það hefur verið ágætlega gert í framsögu hv. 1. flm. og einnig í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómasar Inga Olrich. Þar hafa verið reifuð öll helstu atriði sem upp koma þegar við fjöllum um þetta mál, en þar sem ég tók þátt í umræðu um þetta mál á 118. löggjafarþingi og gerði þá athugasemd við 2. gr. frv., þá vil ég jafnframt gera það hér og nú. Ég tel að 2. gr. feli í sér of þungt kerfi, ef svo má að orði komast. Samkvæmt henni þurfa raunverulega fimm aðilar að koma að því að meta hvaða erlenda plöntutegund sé rétt að nota hér innan lands við landgræðslu og allir aðilarnir þurfa að veita jákvæða umsögn.

Ég tel að það nægi að Landgræðslan hafi frumkvæðið að því að slík panta sé metin af einum þessara aðila. Þá dettur mér fyrst í hug Rannsóknastofnun landbúnaðarins en Náttúruverndarráð væri jafnframt umsagnaraðli. Ég tel að það sé of íhaldssamt kerfi að fimm aðilar þurfi allir að skila jákvæðu áliti og það fari betur á því að létta það og gera það jafnframt skilvirkara. Það vandamál sem við horfumst í augu við í sambandi við gróðureyðingu og jarðvegseyðingu er vissulega stórt og okkur veitir ekki af öllu því sem að gagni má koma og ekki eyðileggur fyrir okkur annað til aðstoðar í þeirri baráttu.