Landgræðsla

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 18:03:09 (787)

1995-11-07 18:03:09# 120. lþ. 29.15 fundur 93. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntutegundir o.fl.) frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[18:03]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið um þetta frv. en þakka það innlegg sem hefur komið fram af hv. þm. og hæstv. ráðherra. Margt af því sem hefur verið sagt gæfi tilefni til þess að skiptast á skoðunum um málið, ekki síst ræða hv. þm. Tómasar Inga Olrich. Ég met það alltaf ef menn reyna við framlagningu mála af þessum toga þar sem að álitaefnin eru auðvitað til staðar að lýsa sínum sjónarmiðum eins og hv. þm. gerði hér. Ég virði þau sjónarmið þó ég sé ekki sammála þeim að öllu leyti.

Það er eitt atriði sem mig langar aðeins að koma að og það er af einhverju leyti siðfræðilegs eðlis. Það er sem sagt hversu langt maðurinn telur sér bært og heimilt að ganga í sambandi við breytingu á umhverfi sínu. Það er með vissum hætti siðferðileg spurning eins og ýmislegt sem við höfum rætt á þingfundi í dag í öðru samhengi. Víða eru þau sjónarmið uppi að mönnum beri að fara með mikilli gát í þessum efnum.

Ég hafði gaman af ýmsum ábendingum frá hv. 5. þm. Norðurl. e. sem mér fannst nálgast að vera í föðurlegum dúr eða lærimeistara, jafnvel að færi vel í predikun. Það er sannarlega gott ef þessi ræðustóll er stundum notaður í því samhengi. Ein einkunn sem hv. þm. kom með og var að gefa náttúrufræðingum, ég held sem svona mengi, væri safnahugsun sem þeir eru haldnir margir hverjir, ef ég hef skilið rétt, og í því fælist að þeir vildu viðhalda sem mest óbreyttu ástandi. Ég held að þessi einkunn sé að talsverðu leyti byggð á misskilningi. Ég held það. Hins vegar er erfitt að hrekja það nema með gagnályktan. Ég held að íslenskir grasafræðingar sem hafa sérstaklega fjallað um gróðurlendi landsins og framvindu þess átti sig fullkomlega á þeim breytileika sem þarna er á ferðinni, þeirri þróun sem verður bæði við mannleg inngrip og búfénað sem og vegna tilkomu nýrra tegunda og þeir séu þess vegna fullfærir um að vera þátttakendur í slíkri umræðu. Ég vildi nú ganga svo langt að segja að þeir mundu geta lagt þar margt af mörkum sem ætti að verða mönnum til umhugsunar. Kannski ekki síður en hinum sem vilja taka til hendinni, gera sér ekki alltaf mikla rellu út af afleiðingum gerða sinna. Það sem hefur verið að gerast er aðferðin sem beitt hefur verið í sambandi við landgræðslu að því er varðar nýjar tegundir en margir hafa afskaplega lítið velt því fyrir sér hverjar verða afleiðingarnar fyrir gróðurríkið.

Ég held að þörfin, virðulegur forseti, á því að setja þessi efni í ákveðinn lagalegan farveg sé talsvert brýn. Hin tilfinningaþrungna umræða í samfélaginu nú síðustu árin ætti að vera okkur tilefni til þess og ákveðin áminning að reyna að sameinast um lagalegan farveg þannig að gott málefni líði ekki fyrir þrætu og deilur sem hljóta að hafa neikvæð áhrif á það sem öllum býr í huga, sem sagt að stuðla að því að varðveita auðlindir gróðurríkisins í landinu, bæta úr ýmsu sem að orðið hefur neikvætt að okkar mati í fortíðinni og stuðla að betra landi í almennu samhengi. Ég er einn af þeim fáu Íslendingum, sem hafa átt því láni að fagna að hafa alist upp í skógi og fylgst með þeim breytileika sem verður við friðun í skóglendi, sem var með miklum eyðum þó þar sem birkiskógurinn átti sér sóknarfæri og varð auðvitað oft hugsað til þess umhverfis sem utan við var og kantsins sem var eins og hnífsegg við skógargirðinguna og þar sem að úði og grúði af plöntum sem spruttu af fræi en fengu ekki leyfi til þess að koma upp. Þetta var mynd sem að maður hafði fyrir augum og má víða líta enn við skógargirðingar landsins. Ég varð einnig vitni að tilraunum með innfluttar tegundir í ríkum mæli og hef gefið þeim gaum. Ég hef reynt að hafa augun opin í sambandi við þetta á ferðum um byggð og óbyggð í landinu. Ég hef sannfærst um að menn þurfa að fara að með gát. Það er æskilegt, menn þurfa að setja leikreglur. Menn þurfa auðvitað að varast það sem gæti með réttu flokkast undir fordóma en mörg eru þarna álitaefnin og það er reynt að leiða þau í farsælan farveg sem á að vera verkefni okkar á Alþingi og sjá síðan til þess að þeir fjármunir sem að lagðir eru til af opinberri hálfu nýtist skynsamlega. Það hefur ekki alltaf verið í annars góðri viðleitni að það hafi gerst og við þurfum að læra af því. Læra af mistökum í fortíðinni og reyna að ná betri tökum á því sem horfir til framtíðar. Ég vil leyfa mér að hvetja þingið til þess að taka þennan þátt til sérstakrar afgreiðslu vegna þeirrar reynslu sem við höfum oft af endurskoðun stórra lagabálka sem vill taka tíma án þess að ég sé með hrakspár uppi. Við þekkjum það svo víða, m.a. af viðleitni til að breyta lögum um skógrækt sem hefur oft verið uppi í þinginu og tafist af ýmsum ástæðum. Þess vegna er oft gott að taka á brýnum aðkallandi málum og breyta lögum og vera ekki of hikandi við það og fella það síðan ef til vill með breytingum inn í heildarendurskoðun.