Landgræðsla

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 18:11:08 (788)

1995-11-07 18:11:08# 120. lþ. 29.15 fundur 93. mál: #A landgræðsla# (innfluttar plöntutegundir o.fl.) frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[18:11]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Ég endurtek þau orð mín að ég tel að þetta mál sé allrar athygli vert og taki á lagabálki sem nauðsynlegt er að breyta þó ég sé ekki efnislega sannfærður um að þetta frv. leiði til þess að þeim málum verði komið í betra horf en nú er. Ég vil aðeins koma hér inn á nokkur atriði sem komu fram í máli hv. 1. flm. frv., Hjörleifs Guttormssonar.

Fyrir það fyrsta taldi hann að sá skilningur minn að margir náttúrufræðingar væru haldnir safnahugsjón væri á misskilningi byggður. Það er nú svo að til allrar lukku hef ég átt mikið samneyti við náttúrufræðinga. Það hefur yfirleitt gengið vel, samstarfið við þá og ég hef lært mikið af þeim. En meðal færustu grasafræðinga landsins sem ég þekki mjög vel, er grasafræðingur sem hefur hvatt mig til þess mjög eindregið að fórna nú ekki flagi á landi sem er í eigu minni vegna þess að í flaginu þrífst sérstök flóra. Hún er að vísu ekki áberandi, þessi flóra sést varla, hún er svo lítil. En hún er sérstök. Í krafti þess taldi þessi ágæti grasafræðingur að það væri ástæðulaust og í rauninni skemmdarverk, að vera að hvetja menn til að taka flag í fóstur. Einnig er kunnara en frá þurfi að segja að allmargir af þeim sem telja sig vera náttúruverndarmenn vilja standa vörð um hrjóstrug öræfi landsins, leyfa þeim að vera eins og þau eru. Þeir telja það hversu hrjóstrug sem þau eru séu þau sérstök verðmæti í sjálfu sér. Það beri að vinna gegn því að þau séu grædd. Með öðrum orðum er ekki hægt að horfa fram hjá þeim vanda að tötrarnir af íslenskri náttúru eru hugsjón í augum sums fólks. Það er bara staðreynd. Allar breytingar sem menn vilja gera á þessum tötralega gróðri, þessum leifum af fyrra gróðurlendi Íslands, eru litnar hornauga. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikið verkefni að græða upp landið. Ég er þeirrar skoðunar að það sé hættulegt ef frumkvæði þess fólks sem vill taka þátt í þessu verki sé drepið í dróma af þeim sem líta svo á að náttúran eigi að vera og ekkert sé breytanlegt í því. Ég er þeirrar skoðunar ef það mál sem er fyrir þinginu í dag nær fram að ganga í þeim búningi sem það er nú í mundi það leiða til þess að ekki yrðu fluttar inn til þessa lands neinar erlendar tegundir til landgræðslu. Slíka íhaldssemi sé ég í þessu plaggi.

[18:15]

Ég tel víst að því verði mótmælt af hálfu 1. flm. frv., hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og hann sé einungis þarna að verja varúðarregluna. En ég tel að það sé svo langt gengið að það sé mjög líklegt að málið mundi leiða til þess að loku yrði skotið fyrir það að erlendar tegundir yrðu nýttar hér til uppgræðslu.

Ég vil einnig vekja athygli á þeirri spurningu í umræðunum um þetta mál í þinginu hversu traustar spár sé fræðilega hægt að vinna um framvindu gróðurlendis. Ég hef satt best að segja efasemdir um að það sé hægt að búa til slíkar fræðilegar forspár sem séu þannig að hægt sé að byggja mjög mikið á þeim. Hugsanlega er hægt að fyrirbyggja stórkostleg mistök, eða ég vona það a.m.k., en í mörgum tilfellum er mjög erfitt að sjá fyrir hvert gróðurframvinda sem sett er af stað leiðir.

Ég vil aðeins nefna í þessu sambandi tilraun sem var gerð um aldamótin, í Grundarreit, sem svo er nefndur. Þar var plantað ýmsum tegundum trjágróðurs. M.a. var þar, ef ég man rétt, skógarfura, bergfura, blæösp og lindifura, svo ég nefni nokkrar tegundir. Síðan gleymdist þessi reitur í nokkra áratugi. Ég rek þessa sögu eftir minni og ég held að Hákon Bjarnason hafi síðan tekið reitinn út og lýst gróðri þar. Síðan var honum ekki gefinn mikill gaumur í nokkur ár og svo eru aftur til lýsingar á þessum reit frá því á milli 1950 og 1960, ef ég man rétt. Síðan höfum við þennan reit fyrir augunum núna. Ef við berum saman lýsingu á þessum reit frá þessum mismunandi tímabilum, en hann er nú orðinn um 90 ára gamall, er augljóst að það var gjörsamlega ómögulegt árið 1900 að segja nokkuð fyrir um það hvernig hann lítur út í dag. Á vissu tímabili ýtti náttúran undir vöxt ákveðinna tegunda sem voru um 1930 einkennistegundir í þessum reit. Sumar þeirra eru nánast horfnar núna.

Sú tegund sem var afskaplega lítið áberandi framan af, raunar má segja í 40 ár, er nú búin að koma sér upp nokkuð mörgum trjám sem setja mjög mark sitt á reitinn. Ég á þar við blæöspina. En jafnframt er allur undirgróður undirlagður í blæösp. Hvað verður eftir 50 ár? Hvað stendur þá eftir?

Ef við erum að reyna að nota vísindalegar forsendur fyrir því að segja fyrir um hvernig einhverju gróðursamfélagi sem er að hluta til innflutt og hluta til innlent reiðir af þá vil ég aðeins taka vara við því að þetta mál er ekki svo einfalt að menn geti séð fyrir nákvæmlega eitthvert ákveðið ástand. Og jafnvel þótt menn setji sér eitthvert markmið ætla menn þá að grípa inn í náttúruna á vissum tíma og berjast gegn þróuninni? Ætla menn að stýra þessu með þeim hætti? Eða ætla menn almennt að sætta sig við það að við veljum okkur ákveðnar tegundir til að gera fjölbreytileika íslensks gróðurríkis meiri, flytjum inn ákveðnar tegundir trjáa til að gera íslenskt skóglendi fjölbreytilegra og tökum þá áhættu að leyfa náttúrunni að þróa þetta eftir sínum lögmálum? Ég held að við getum aldrei sagt að það sé áhættulaus framkvæmd. Ég held að við verðum alltaf að sætta okkur við einhvern áhættuþátt því við ráðum ekki yfir náttúrunni með þeim hætti sem mér finnst vera gert ráð fyrir hér í þessu plaggi.