Eftirlit með viðskiptum bankastofnana

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 13:56:13 (804)

1995-11-08 13:56:13# 120. lþ. 30.3 fundur 123. mál: #A eftirlit með viðskiptum bankastofnana# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[13:56]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að svara einstökum efnisatriðum í ræðu hv. þm. heldur fyrst og fremst að svara þeim fyrirspurnum sem beint er til mín á þskj. 139. Fyrri fyrirspurnin hljóðar svo: Hvernig er háttað eftirliti viðskrn. með framkvæmd laga um viðskiptabanka og hver er verkaskipting þess og bankaeftirlitsins í því sambandi?

Samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands, sem staðfest er með auglýsingu nr. 96/1969, fer viðskrn. með mál er varða Seðlabanka Íslands, aðra banka og sparisjóði. Viðskrn. leggur því fram frv. til laga um viðskiptabanka og gefur út reglugerðir sem settar eru samkvæmt lögum um viðskiptabanka.

Með 13. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, er Seðlabankanum fengið það hlutverk að hafa eftirlit með að innlánsstofnanir hagi starfsemi sinni í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir sem hverju sinni gilda um starfsemi þeirra. Verkefnið skal falið sérstakri deild í bankanum og er sú deild nefnd bankaeftirlit. Viðskrh. skipar forstöðumann bankaeftirlits. Nánar er kveðið á um eftirlitshlutverk Seðlabankans í IV. kafla fyrrgreindra laga, nr. 36/1986.

Þá er einnig kveðið á um eftirlit bankaeftirlitsins í XIV. kafla laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði. Samkvæmt 92. gr. þeirra laga hefur bankaeftirlit Seðlabanka Íslands eftirlit með að starfsemi þeirra fyrirtækja og stofnana sem lögin taka til séu í samræmi við ákvæði þeirra, reglur settar samkvæmt þeim og samþykktir hlutaðeigandi stofnana.

Samkvæmt framansögðu fer bankaeftirlit Seðlabanka Íslands með eftirlit með starfsemi viðskiptabanka, viðskrn. ber hins vegar ábyrgð á þeirri löggjöf sem gildir um starfsemi þeirra og þeim reglugerðum sem viðskrn. ber samkvæmt lögum að setja um starfsemi þeirra.

Hv. þm. spyr einnig: Hefur ráðuneytið rannsakað eða hlutast til um rannsókn bankaeftirlitsins á viðskiptum Íslandsbanka hf. við fyrirtækið A. Finnsson hf. á Akureyri með tilliti til þess hvort um er að ræða brot á lögum um viðskiptabanka? Sé svo ekki, mun þá ráðuneytið rannsaka eða hlutast til um að viðskipti bankans og fyrirtækisins verði rannsökuð?

Í svari við fyrri lið fyrirspurnarinnar kemur fram að eftirlit með starfsemi viðskiptabanka er í höndum bankaeftirlits Seðlabanka Íslands. Ráðuneytið hefur því ekki rannsakað tilgreind viðskipti. Þá hefur ráðuneytið ekki heldur hlutast til um rannsókn bankaeftirlitsins á hinum tilgreindu viðskiptum. Hins vegar hyggst ráðuneytið í tilefni af fyrrgreindri fyrirspurn hv. þm. vekja athygli bankaeftirlitsins á umræddu málefni.