Eftirlit með viðskiptum bankastofnana

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 14:01:26 (806)

1995-11-08 14:01:26# 120. lþ. 30.3 fundur 123. mál: #A eftirlit með viðskiptum bankastofnana# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[14:01]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil ekki láta þetta mál fara fram hjá garði án þess að benda á tvö atriði í þessu sambandi. Öll viðskipti bankakerfisins á Íslandi hvort sem er við fyrirtæki eða einstaklinga er með allt öðrum hætti en gerist annars staðar, þar ríkir í raun og veru fullur fjandskapur. Ég býst við að allir venjulegir borgarar kannist við það að í staðinn fyrir að bankar reyni að þjónusta viðskiptavini sína má varla nokkur hlutur út af bera fyrr en komin eru bréf með hótunum og ógnunum til fólks og benda má á alla þá pappírseyðslu sem þar fer fram. Þessu verður auðvitað að breyta. Einn þáttur þessa máls er svo auðvitað verðtrygging lána á Íslandi og það verður að gera gangskör að því að leggja hana af í áföngum. Mér er ljóst að hún getur ekki verið tekin af á einu augabragði eins og okkar ágæti samþingmaður, hv. fyrrv. þm. Eggert Haukdal, marglagði til og ég raunar studdi hann í því. En það er orðið óþolandi að horfa upp á þá eignaupptöku sem á sér stað með verðtryggingu lána hér í landi.