Bílalán til öryrkja

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 14:03:59 (808)

1995-11-08 14:03:59# 120. lþ. 30.4 fundur 110. mál: #A bílalán til öryrkja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GHelg
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[14:03]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Á þskj. 116 hefur hv. þm. Svavar Gestsson borið fram fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh. Er fyrirspurnin 110. mál þingsins og hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Hvaða rök eru fyrir því að fella niður svokölluð bílalán til öryrkja?

2. Hve margir hafa fengið: a. hærri, b. lægri lánin á undanförnum fimm árum?

Hv. þm. situr nú þing Sameinuðu þjóðanna og því fylgi ég fyrirspurn hans úr hlaði. Forsaga þessa máls er sú að á fundi tryggingaráðs í september sl. lagði formaður ráðsins, Bolli Héðinsson, fram tillögu þess efnis að lánveitingum til bifreiðakaupa öryrkja yrði hætt frá næstu áramótum. Vísað var til lánastofnana og með fylgdu upplýsingar frá hinum ýmsu tryggingafélögum sem buðu fram lánafyrirgreiðslu. Ekki þarf að lá nefndarmönnum þó að þeir teldu víst að tillagan væri komin frá hæstv. ráðherra þar sem það er tæplega í verkahring ráðsins að hafa frumkvæði um svo mikilvægar breytingar á kjörum öryrkja í landinu án samráðs við ráðuneytið. Ráðinu ber fyrst og fremst að gæta þess að Tryggingastofnun ríkisins fari að lögum og hafa eftirlit með rekstri hennar. Rétt þótti að senda tillögu þessa til Öryrkjabandalags Íslands og Sjálfsbjargar, landsambands fatlaðra. Umsagnir bárust skjótt og ég ætla að lesa brot úr umsögnum þeirra ef mér endist tími, hæstv. forseti. En þær voru að sjálfsögðu mjög neikvæðar.

Lánveitingar Tryggingastofnunar ríkisins hófust þegar árið 1947 og hafa alla tíð síðan verið mikilvæg aðstoð við þá sem komast ekki leiðar sinnar vegna fötlunar. Lán þessi eru nú 340 þús. kr. fyrir þá sem eru alls ófærir um gang án hjálpartækja en 180 þús. kr. fyrir aðra fatlaðra. Tryggingalæknar meta nauðsyn lánanna ásamt öðrum starfsmönnum stofnunarinnar. Lánin voru lengst af á sambærilegum kjörum og lán á almennum lánamarkaði en vegna verðbólgu urðu þau hagstæðari um tíma. Vextir af lánunum hafa síðan verið hækkaðir og vísitölubundin hafa þau verið frá árinu 1992 og eru nú bundin lánskjaravísitölu og bera 1% ársvexti umfram hana. Frekari hækkun var fyrirhuguð í áföngum. Lánin greiðast á þremur árum með jöfnum mánaðarlegum greiðslum sem teknar eru af bótum almannatrygginga. Þessi lán skila sér því ævinlega að fullu.

Þrátt fyrir mótmæli samtaka öryrkja var tillaga formanns samþykkt á fundi ráðsins 6. okt. sl. gegn atkvæðum Petrínu Baldursdóttur, fyrrv. þingmanns, og mínu og voru mótmæli okkar færð til bókar.

Okkur er ljóst að ekki eru bein ákvæði í lögum um almannatryggingar um lán þessi en við töldum þau eiga svo langa hefð í sögu stofnunarinnar og skipta fatlað fólk svo miklu máli að fráleitt væri að svipta það þessari fyrirgreiðslu. Við töldum ljóst vera að með því yrði gert erfiðara um vik að eiga að sækja lánafyrirgreiðslu til lánastofnana og tryggingafélaga í einkaeign. En málið gerðist enn undarlegra þegar hæstv. heilbr.- og trmrh. birtist í sjónvarpi og virtist ekkert um mál þetta vita enda væri hún algerlega mótfallin því. Það er því eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra líka: Verður lánafyrirgreiðslunni hætt?