Bílalán til öryrkja

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 14:07:44 (809)

1995-11-08 14:07:44# 120. lþ. 30.4 fundur 110. mál: #A bílalán til öryrkja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[14:07]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hvaða rök eru fyrir því að fella niður svokölluð bílalán til öryrkja? Rök tryggingaráðs, sem tók þessa ákvörðun, eru m.a. þessi: Þau eiga sér ekki stoð í lögum. Tryggingastofnun hóf veitingu lána til bifreiðakaupa árið 1947 eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda en þá var aðgangur almennings að lánsfé takmarkaður. Auk bílalána veitti stofnunin öryrkjum námslán svo og lán til verkfæra- og tækjakaupa án þess að fyrirmæli væru um það í lögum. Með lagasetningu um málefni fatlaðra hafa þessi verkefni flust til svæðisskrifstofa fatlaðra.

Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við bílalán Tryggingastofnunar. Í stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar um Tryggingastofnun segir: ,,Lán til bifreiðakaupa eiga sér ekki stoð í lögum og samræmist það tæpast hlutverki Tryggingastofnunar að stunda lánastarfsemi.``

Önnur rök eru þessi: Aðstæður á lánamarkaði hafa breyst, lánveitingum Tryggingastofnunar var fyrst og fremst ætlað að gera fötluðum kleift að fá lán þegar erfitt var að fá lán á almennum markaði. Nú er framboð lána á fjármagnsmarkaði mun meira og mörg fyrirtæki bjóða hagstæðari lán en Tryggingastofnun hvað varðar lánstíma, upphæð lána, aldur bifreiða og ábyrgðir. Bílalán Tryggingastofnunar voru lengst af á sambærilegum kjörum og lán á almennum lánamarkaði þó að nokkuð hafi dregið í sundur á verðbólgutímum. Hagstæð vaxtakjör lánanna voru því ekki meðvitaður tilgangur þeirra heldur afleiðing verðbólguþróunar í landinu. Árið 1992 ákvað tryggingaráð að vísitölubinda bílalánin og þá var um leið gert ráð fyrir áfangahækkun vaxta. Bílalánin hafa borið 1% vexti og nú er komið að framkvæmd vaxtahækkunar. Vaxtamunur á bílalánum Tryggingastofnunar og lánum á almennum lánamarkaði hefði orðið hverfandi ef nokkur eftir fyrirhugaða hækkun. Því taldi tryggingaráð ekki lengur grundvöll fyrir þessum lánveitingum stofnunarinnar.

Hve margir hafa fengi bílalán að undanförnu, hærri og lægri lán? Árið 1992 fengu 304 einstaklingar lægri lánin og 86 hærri lánin. Árið 1993 fengu 301 lægri lánin og 77 hærri. Árið 1994 fengu 244 lægri lán og 69 hærri lán. Árið 1995 fengu 263 einstaklingar lægri lán en 57 einstaklingar hærri lán. Þess má geta að hærri lánin eru upp á 340.000 kr. en hin lægri upp á 180.000 kr.

Virðulegi forseti. Hér á undan hef ég greint frá rökum tryggingaráðs um þá ákvörðum að hætta lánafyrirgreiðslu. Ég hef áður sagt og segi hér að ég mun fara þess á leit við tryggingaráð að það endurskoði ákvörðun sína þannig að lánafyrirgreiðslan verði ekki skorin niður með einu pennastriki. Þar með tel ég að ég hafi svarað fsp. hv. þm.