Bílalán til öryrkja

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 14:11:45 (810)

1995-11-08 14:11:45# 120. lþ. 30.4 fundur 110. mál: #A bílalán til öryrkja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[14:11]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Halldór Kiljan Laxnes segir í einum stað: Guðs miskunn er hið fyrsta sem deyr í hörðu ári. Það er ekki tiltakanlega hart í ári núna en þegnarnir hafa séð að miskunn Framsfl. er samt óðum að deyja. Sú breyting sem tryggingaráð samþykkti varðandi bílakaupalán til öryrkja er auðvitað partur af miklu stærri heildarmynd þar sem vegið er að kjörum einmitt þessa hóps miklu víðar.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði: ,,Ég mun fara þess á leit við tryggingaráð``. Ég spyr því: Hefur hæstv. ráðherra ekki gert það nú þegar vegna þess að ég skildi mál hennar í fjölmiðlum með þeim hætti? Hæstv. ráðherra segir líka: ,,Þetta á sér ekki stoð í lögum.`` Eigi að síður ætlar hún að fara þess á leit við tryggingaráð að lánunum verði fram haldið. Ég spyr því enn: Ætlar hæstv. ráðherra á allra næstu dögum að leggja fram lagafrv. til þess að það verði gert kleift? Ef hún ætlar ekki að gera það þá ætla ég að beita mér fyrir því að stjórnarandstaðan geri það.