Bílalán til öryrkja

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 14:12:50 (811)

1995-11-08 14:12:50# 120. lþ. 30.4 fundur 110. mál: #A bílalán til öryrkja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GHelg
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[14:12]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. En ég tek nú undir með hv. 15. þm. Reykv. að ég vil heldur heyra að ráðherra hafi þegar lagt grundvöllinn að því annaðhvort að setja ákvæði inn í lög sem heimila þessi lán eða að hún hafi farið þess á leit við Tryggingastofnun ríkisins að þeirri ákvörðun um að leggja lánin niður verði frestað.

Ég upplýsi hv. þingheim um að tillögu formanns tryggingaráðs fylgdi hjálpargagn til nefndarmanna sem var nælt við tillöguna og þar er auglýsing frá VÍS: ,,Veldu bílinn og VÍS lánar þér.`` En það skiptir kannski engu máli að einn ráðsmanna er stjórnarmaður í Sambandi tryggingafélaga. Það er gjarnan í okkar litla landi að hvað rekst á annars horn þegar kemur að hagsmunum. Sannleikurinn er sá að málið er alls ekki eins einfalt og það virðist vera. Tryggingastofnun getur tekið afborganir af þessum lánum af greiddum bótum og tryggir þess vegna bæði bótaþeganum og stofnuninni sjálfri skil á þessum lánum. Enginn annar hefur leyfi til að taka af tryggingabótum afborganir og auðvitað getur ekkert tryggingafélag í bænum vaðið í Tryggingastofnun ríkisins og tekið greiðslur af bótum bótaþega. Auðvitað hafa þessi lán verið mikil hjálp fyrir öryrkja og fatlað fólk við að kaupa bifreið sem það sannarlega þarf að nota og þess vegna er það mikill skaði ef þessi fyrirgreiðsla verður lögð niður. Stofnunin tapar engu á henni, þeir einu sem tapa á því að þetta verði lagt niður eru öryrkjarnir og hinir fötluðu. Það getur ekki verið meiningin að tryggingaráð stuðli að því að svo fari. Ég vona þess vegna að hæstv. ráðherra standi við orð sín og taki þegar í stað af allan vafa um að Framsfl. og hæstv. ríkisstjórn ætli að stuðla að þessari kjaraskerðingu öryrkja.