Þjónusta og kynning Egilsstaðaflugvallar

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 14:25:09 (817)

1995-11-08 14:25:09# 120. lþ. 30.5 fundur 121. mál: #A þjónusta og kynning Egilsstaðaflugvallar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JónK
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[14:25]

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans varðandi þetta mál. Ég vil eindregið hvetja til þess að Flugmálastjórn beiti áhrifum sínum til að bæta úr eldsneytismálunum á Egilsstaðaflugvelli. Spurningin er hvort kemur á undan, eggið eða hænan. Það er satt að segja ekki von á mikilli sölu meðan ekki er rými fyrir þær eldsneytisbirgðir sem til þarf til þess að vélar geti athafnað sig á vellinum. Ég hvet hæstv. samgrh. til að koma þessu áfram til stofnana sinna og láta á það reyna hvort þeir aðilar sem sjá um þessa þjónustu eru ekki tilbúnir til að taka á málinu, en það þarf vissulega að gera til að ljúka uppbyggingunni á viðunandi hátt.

Ég heyri að það hefur verið gert ýmislegt til kynningar á vellinum og er ekki nema gott eitt um það að segja. Ég vil hvetja til þess að áfram verði haldið á þeirri braut að kynna þá möguleika sem þarna felast fyrir flugrekstraraðilum.