Græn ferðamennska

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 11:02:19 (822)

1995-11-09 11:02:19# 120. lþ. 32.1 fundur 66. mál: #A græn ferðamennska# þál. 66, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[11:02]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ákaflega ljúft að staðfesta það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson átti góðan hlut að því að heimila brúargerð yfir Gilsfjörð. Það stóð ekki á því að hv. þm. tæki þar hraustlega á, alveg eins og hann gerði á sínum tíma, og ég hygg að það hafi verið eitt af hans síðustu embættisverkum, ef ekki það síðasta, þegar hann heimilaði líka lagningu vegar um fjörur Steingrímsfjarðar og greiddi fyrir því að þar með væri hægt að rjúfa þá einangrun sem íbúar Drangsness hafa búið við. Þetta var vissulega eitt af þeim umhverfismálum sem gátu verið álitaefni, en hv. þm. í ráðherratíð sinni, hjó á með skörulegum hætti eins og hans var von og vísa.

Ég vildi hins vegar upplýsa hv. þm. um það vegna þess að ég geri ráð fyrir að hann hafi verið fjarstaddur þegar umræðan um Gilsfjarðarbrú fór hér fram fyrr á þessu hausti, að hæstv. samgrh. greindi þá frá því að það væri ætlun hans og ríkisstjórnarinnar að standa við fyrirheitin um gerð Gilsfjarðarbrúar, um þverun Gilsfjarðar eins og það heitir á tæknimáli, þannig að hægt væri að aka um hið nýja mannvirki á haustdögum 1997 og það er ekkert sem gefur mér tilefni til að ætla annað en að staðið verði við það. Þannig að frýjunarorð hv. þm. voru að því leytinu alveg óþörf.