Græn ferðamennska

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 11:03:48 (823)

1995-11-09 11:03:48# 120. lþ. 32.1 fundur 66. mál: #A græn ferðamennska# þál. 66, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[11:03]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka alveg skýrt fram að ræðu mína áðan mátti ekki skilja þannig að ég teldi að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefði uppi viðhorf varðandi þessa tillögu sem við erum að ræða hér sem mér væri eitthvað á móti skapi. Ég tel að hann hafi sýnt í ræðu sinni að hann hefur góðan skilning á þessu máli. En að öðru leyti þá kem ég hér upp til að lýsa því yfir að það er mér fagnaðarefni að vegur þingmannsins er nú farinn að rísa víðar heldur en bara í huga mínum. Ég hef hins vegar séð það aftur og aftur að þær góðu skoðanir sem hv. þm. hefur og ég deili í mörgum efnum, þær verða aftur og aftur undir í Sjálfstfl. Ég minni hv. þm. á það að hann og félagar hans á Vestfjörðum höfðu uppi stór orð í öðru máli fyrir kosningar um að styðja ekki ríkisstjórn sem fylgdi stefnu núv. sjútvrh. í fiskveiðimálum. Hún hefur ekkert breyst. Hún hefur frekar harðnað. En ég sé ekki betur heldur en að hv. þm. og allir félagar hans að vestan séu meðal dyggustu stuðningsmanna þessara ríkisstjórnar. Það er auðvitað langt liðið frá kosningum.