Græn ferðamennska

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 11:12:51 (825)

1995-11-09 11:12:51# 120. lþ. 32.1 fundur 66. mál: #A græn ferðamennska# þál. 66, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[11:12]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið og ég gerði m.a. grein fyrir í ræðu minni á ferðaráðstefnu nú á þessu hausti, er að hefjast skipulögð vinna að því að marka stefnu í ferðamálum og má segja að ekki sé vanþörf á. Unnið er að henni með þeim hætti að skipaður er sérstakur stýrihópur með fagmönnum undir stjórn formanns Ferðamálaráðs og að þessari stjórn koma fulltrúar atvinnugreina og menn sem hafa víðtæka þekkingu bæði á landinu, á umhverfismálum og markaðsmálum erlendis og hefur verið ráðinn háskólamenntaður ferðasérfræðingur til starfans til þess að vera tengiliður á milli stýrihópsins og Hagvangs sem mun síðan vinna verkið. Eins og hv. þm. er kunnugt hefur Hagvangur mikla reynslu í áætlanagerð og hefur sérstaklega komið að þessum málum. Vonir mínar standa til þess að vinnunni megi ljúka nú á þessum vetri og mun hún beinast að öllum þáttum ferðaþjónustunnar. Hún mun í fyrsta lagi beinast að því að reyna að gera sér grein fyrir því hver staða ferðaþjónustunnar er í rekstrarlegu tilliti. Hvert er rekstrarlegt umhverfi ferðaþjónustunnar borið saman við aðrar atvinnugreinar hér á landi og einnig borið saman við þau lönd sem við erum í keppni við? Upplýsingar á þessu sviði hafa verið af skornum skammti og þeim ekki gefinn nægilegur gaumur að minni hyggju en eins og hv. þm. er kunnugt, hefur sá árangur nú náðst í efnahagsmálum með því jafnvægi sem hér er og með því að verðbólga er minni hér en í nágrannalöndunum, stundum minnst í Evrópu, að gengi krónunnar er nú lægra en kannski nokkru sinni síðan við lýðveldisstofnun sem þýðir um leið að samkeppnisstaða íslenskra atvinnugreina er betri en hún hefur áður verið. Það er einmitt ávöxturinn af þessu sem við erum nú að tína þegar við horfum á þær auknu gjaldeyristekjur sem ferðaþjónustan gefur af sér sem fara langt fram úr þeim vonum sem við höfum gert okkur fyrir fram.

[11:15]

Í öðru lagi beinist þetta starf að því að halda áfram því verki sem áður hafði verið hafið. Ólafur Thoroddsen hafði forgöngu um það á síðasta kjörtímabili að leggja fram ítarlega skýrslu og stefnumörkun í sambandi við umhverfismál ferðaþjónustunnar og hvað við gætum gert til þess að reyna að dreifa spilinu ef svo má segja. Hér á landi hefur vandamálið verið að örtröð hefur verið á fáum stöðum en hins vegar ekki gætt að hinu að reyna að koma ferðamönnunum á fleiri staði. Til allrar hamingju sjáum við það víða að einstaklingar, sums staðar standa héruð að því, eða byggðarlög eru farin að þjóna ferðamönnum með öðrum hætti en áður. Þau hafa boðið upp á nýjar ferðir, lagt aðrar áherslur. Greinilegast í þessu efni eru kannski jöklaferðirnar, hvalaskoðunarferðir, hestaferðir, gönguferðir og ýmislegt af þeim toga sem verður okkur bæði til örvunar og hjálpar í því mikla starfi sem fram undan er.

Jafnframt var á síðasta kjörtímabili unnin vinna og lögð fram skýrsla um nýjar áherslur í ferðaþjónustu með hliðsjón af sögu og menningu þjóðarinnar. Það er líka gott efni sem nauðsynlegt er að vinna betur úr og það er líka hafið það verk að setja upp söguskilti á stöðum þar sem það þykir hæfa og jafnframt er það nýtt að verið er að opna svona sérstaka áfangastaði á algengustu leiðum þar sem fólk getur staldrað við, borðað nesti sitt, glöggvað sig á umhverfinu, fengið leiðbeiningar um vegakerfi og annað því um líkt. Gott dæmi um áningarstaði af þessu tagi er við Jökulsá í Dal. Það er mjög skemmtileg tilbreyting að koma þangað og sjá hversu vel Vegagerðin hefur einmitt gengið frá útsýnisstaðnum með því að það er hægt að ganga niður á brúnina hættulaust og horfa niður í gljúfrin og síðan stendur til að leggja göngubraut niður að gömlu brúnni þannig að fólk geti átt þarna góða stund og notið veðursins en veðursæld er mikil eins og menn vita á þessum slóðum á sumrin og ég geri ráð fyrir því að svo sé einnig að vetrarlagi en ég er ekki eins kunnugur því, ég hef satt að segja sjaldan verið þar á ferð að vetrarlagi.

Á fleiri sviðum ferðaþjónustu liggja fyrir ítarlegar upplýsingar. Úr þessu verður nú unnið. Jafnframt verður lögð áhersla á það að treysta þau samskipti sem við eigum við nágrannaþjóðir okkar. Eftir að ég varð samgrh. hef ég gert samninga bæði við ferðamálaráðherra Grænlands og ferðamálaráðherra Færeyja um miklu nánara samstarf á þessu sviði en áður hefur verið, ég vil segja á sviði samgöngu- og ferðamála yfirleitt. Það hefur m.a. haft í för með sér að áætlunarferðir með flugi milli Færeyja og Íslands eru traustari nú en áður og samvinna á nýjum sviðum ferðaþjónustu hefur tekist milli okkar og Grænlendinga. Við gerum okkur sannarlega vonir um að þessi vinna muni vera til hagsbóta fyrir allar þessar þrjár eyjar því að sú ferðastefna sem þær hafa haldið á hverju ári, annað hvert ár hér á landi og síðan til skiptis í Grænlandi og Færeyjum, hefur borið mikinn og góðan árangur og vakið athygli á eylöndunum þremur. Hugmynd er síðan að velta því fyrir sér hvort rétt sé að færa út þessa starfsemi, kannski til fleiri átta og vinna á þessum grundvelli.

Ég get einnig skýrt frá því að sérstaka áherslu er verið að leggja á markaðinn vestra, Vestur-Íslendinga, en þau ánægjulegu tíðindi gerðust á síðustu mánuðum að samkomulag hefur tekist milli okkar Íslendinga og Kanadamanna um að beint áætlunarflug milli Íslands og Kanada verði heimilt. Ég lagði áherslu á að ná þessu fram um leið og ég varð samgrh. og nú hefur tekist að opna þessa leið og mun fyrsta áætlunarferðin frá Íslandi til Halifax verða nú í maímánuði.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum en ég vil aðeins segja að sú vinna, sem gert er ráð fyrir að efna til er þegar hafin, er þegar komin á fullan skrið. Hins vegar dregur það ekki úr nauðsyn þess að vinna vinnu af þessu tagi en verkið er sem sagt hafið.