Græn ferðamennska

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 11:26:59 (827)

1995-11-09 11:26:59# 120. lþ. 32.1 fundur 66. mál: #A græn ferðamennska# þál. 66, GHelg
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[11:26]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar að leggja aðeins orð í belg varðandi þessa tillögu. Fyrst af öllu vil ég lýsa leiða mínum vegna þessarar orðnotkunar, ,,græn ferðamennska``. Óttalegt tungumál er þetta sem við erum farin að tala.

Góð umgengni um umhverfi okkar ætti auðvitað að koma inn í allt okkar líf, jafnt ferðamennsku sem aðra þætti þess en í öllum bænum vil ég biðja hið háa Alþingi um að vera ekki að nota ónefni á borð við þetta. Auðvitað er engin ,,græn ferðamennska`` til.

Það er prýðilegt að hér verði umræða um ferðaþjónustu og stefnumótun í henni. Ég er hins vegar ekki alltaf jafnhrifin af þessum óskum um stefnumótun í öllum sköpuðum hlutum. Ég held að það þurfi að átta sig á nokkrum atriðum þegar rætt er um að gera ferðaþjónustu að arðbærum atvinnuvegi hér á landi.

Ég held að Íslendingar hafi stundum ákaflega rangar hugmyndir um sjálfa sig. Ég er alveg sammála hv. 15. þm. Reykv., Össuri Skarphéðinssyni, að ég held að menn þeysi ekki til Íslands af því að þeir séu svo vel að sér í sögu þjóðarinnar og hafi slíkt ofurálit á íslensku þjóðinni. Fæstir þeirra vita nokkurn skapaðan hlut um sögu Íslands yfirleitt. Ég held að menn komi hingað af tveimur ástæðum: Annars vegar menn sem hafa áhuga á sérkennilegri náttúru og hins vegar kannski og ekki síður fólk sem hefur ferðast mjög mikið, hefur farið á alla algenga ferðamannastaði og vill nú reyna eitthvað annað. Það er líka ágæt ástæða og ekkert yfir því að kvarta. Ég held að Íslendingar þurfi ekki að vera með einhver skrípalæti með kjánalegri notkun á sögu þjóðarinnar til að draga hingað ferðafólk.

Það eru nokkrir hlutir sem Íslendingar þurfa að læra til þess að geta tekið á móti ferðamönnum. Menn eru að tala um að það verði að vernda ákveðna staði fyrir ferðamönnum. Undirstaða þess að fólk sé ekki alltaf á sama blettinum er að það séu sæmilegar samgöngur í landinu. Menn eru yfirleitt á sömu stöðunum vegna þess að þeir komast ósköp lítið annað og það er auðvitað framtíðarmál og sú vísa verður aldrei of oft kveðin að hér verður að gera gangskör að því að bæta samgöngur í landinu en það kostar auðvitað mikið fé og verður ekki gert í einu vetfangi.

[11:30]

Annað er það að við verðum líka að læra að koma fram við ferðamenn á eðlilegan hátt sem Íslendingar án alls belgings. Við erum ágæt, en við erum svo sem ekkert merkilegri en aðrar þjóðir. Ég hygg að það geti einmitt verið skemmtilegt að sýna ferðamönnum að þrátt fyrir óblíða náttúru, sem við höfum fengið að kenna mikið á á árinu sem nú er að líða, þá tekst okkur að búa í tiltölulega siðmenntuðu samfélagi og við eigum auðvitað að vera stolt af því, en án alls belgings og hroka, og sýna gestum okkar þjónustu og hafa til að bera þá þjónustugleði sem verður til þess að fólki líði hér vel.

Eins og segir í yfirliti, sem Ingiveig Gunnarsdóttir hefur tekið saman, eigum við að bjóða fólki það sem við búum til sjálf og það er alveg dæmalaust að ekki skuli vera hægt að setjast inn á veitingahús og fá algengan íslenskan mat á sæmilegu verði. Hvers vegna geta menn ekki fengið soðinn saltfisk og skyr að borða? Á Spáni er það dýrasti matur í borgunum, ekki bacalao þar sem búið er að setja saltfiskinn í alls kyns kryddjurtir, ávexti og grænmeti, heldur besti fiskurinn einfaldlega soðinn með smjöri og kartöflum. En hér erum við svo óörugg með sjálf okkur að við þorum ekki annað en pakka okkar góða hráefni inn í einhver grænmetislistaverk sem hleypa verðinu upp í mörg þúsund krónur og ég veit ekki hvort öllum þykir jafngott, en hvað um það. Auðvitað þarf að vera hægt að bjóða ferðamönnum upp á ódýran, góðan, íslenskan mat. Það er engin skömm að því að bera fram íslenska osta, íslenskan fisk, íslenskt kjöt. En það þarf ekki endilega að gera úr því einhver fáránleg austurlensk listaverk svo að fólk geti komið þessu í sig.

Annað er líka þýðingarmikið og það er að búa vel að fólki varðandi afþreyingu og t.d. varðandi afþreyingu barna. Það vill svo til að margir ferðamenn eru með börnin sín með sér og ég held að við séum afar lítið vinsamleg barnafjölskyldum. Allt er þetta auðvitað aðeins að lagast. Ég hef áður gert ferðaþjónustu að umræðuefni á hinu háa Alþingi og manni hefur ofboðið aulaskapurinn í sambandi við móttöku ferðamanna og nægir að nefna að ekki eru ýkjamörg ár síðan ekki var hægt að komast á salerni við Gullfoss. Ég held að það sé búið að bæta úr því núna en ekki er langt síðan ég kom þar og þar var búið að setja sögukort yfir staðinn en auðvitað á íslensku og þarna stóðu erlendir ferðamenn og botnuðu ekki neitt í neinu. Svona kauðaskap verðum við auðvitað að venja okkur af.

Við framleiðum ýmislegt fleira en mat í landinu. Þegar við erum að ferðast eigum við það til að kaupa okkur bækur þess lands sem við erum stödd í. Hér eru skrifaðar heilmargar bækur. Hvers vegna í ósköpunum er ekki séð svo til að erlendir ferðamenn geti kynnt sér það sem verið er að skrifa í þessu landi? Það er ekki óviðráðanlegt að þýða bækur og gefa út hér á landi og selja þær hér þannig að menn geti vitað hvað þetta fólk sem hér býr er að hugsa.

Því miður eru leikhús lokuð yfir sumartímann að mestu leyti, jafnvel minna um listsýningar, og mér vitanlega hefur ekkert verið gert til að sýna ferðamönnum þær íslensku kvikmyndir sem hafa verið framleiddar. Þetta er ekkert annað en klaufaskapur. Auðvitað kostar ekki neitt að halda uppi sýningum á íslenskum kvikmyndum yfir háannatíma í ferðaþjónustu. Það eru svona atriði sem ég vildi benda á. Það er gaman að sýna fólki frá öðrum löndum að við getum þrátt fyrir allt búið hér og verið svona sæmilega siðmenntað fólk. Ég verð að játa að ég er sú tegund ferðamanna sem þykir fyrst og fremst gaman að sjá hvernig fólk kemur sér fyrir í því landi sem það býr í og ég hygg að mörgum sé svo farið. Auðvitað er gaman að horfa á landslag eins og listaverk og víst eigum við nóg af slíkum stöðum en það er enn þá skemmtilegra að reyna að gera sér glögga grein fyrir hvers konar fólk býr í þessu landi. Hvernig hefur það fengist við að ráða við óblíða náttúru og fámenni, sem er auðvitað sérstakt og það er hlutur sem ég held að við eigum að reyna að leggja áherslu á.

Að lokum, hæstv. forseti. Er ekki hægt að spara auðæfi jarðarinnar með því að gefa út færri ferðamannabæklinga á Íslandi? Einu sinni taldi ég á þriðja hundrað bæklinga á Ferðaskrifstofu Íslands og spurði starfsfólkið hvort þetta væri virkilega nauðsynlegt og þá sögðu allir í kór: Nei, auðvitað ekki. Þannig mætti líka spara það sem við erum að leggja til að sparað verði með þessari tillögu.