Rannsóknir í ferðaþjónustu

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 12:08:51 (835)

1995-11-09 12:08:51# 120. lþ. 32.4 fundur 76. mál: #A rannsóknir í ferðaþjónustu# þál., TIO
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[12:08]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsóknir í ferðaþjónustu. Flm. með mér að þessari tillögu eru hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, Sturla Böðvarsson og Valgerður Sverrisdóttir.

Þessi þáltill. fjallar um það að brýnt sé að efla rannsóknir í ferðaþjónustu og tryggja með þeim hætti grundvöll stefnumótunar og langtímaáætlana í atvinnugreininni. Þá er gert ráð fyrir því að það verði gripið til þeirra ráðstafana sem hér verða taldar upp á eftir.

Stofnuð verði gagnamiðstöð við skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri sem hafi eftirfarandi hlutverk:

Í fyrsta lagi að skipuleggja öflun upplýsinga um atvinnugreinina þannig að þær varpi sem skýrustu ljósi á stöðu og þróun greinarinnar og verði traustur grundvöllur rannsókna, þróunarstarfs og fjárfestingar í ferðamennsku.

Í öðru lagi að safna upplýsingum um erlenda ferðamarkaði og safna gögnum um erlendar rannsóknir í ferðamálum.

Í þriðja lagi að varðveita þessar upplýsingar og birta reglulega fréttir um stöðu greinarinnar.

Þá er lagt til að stofnaður verði sérstakur rannsóknasjóður við Ferðamálaráð Íslands og að lokum er lagt til að stofnuð verði staða rannsóknarfulltrúa við skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri og hlutverk hans verði að efla rannsóknir í ferðaþjónustu og skipuleggja samstarf ráðsins við fyrirtæki og rannsóknastofnanir á sviði rannsókna- og þróunarstarfs.

Ástæðan fyrir því að þessi tillaga beinist einkum og sér í lagi að skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri er sú að þangað hefur verið flutt innanlandsskrifstofa ráðsins og þar er upplýsingaöflunin nú til húsa en eins og hér kemur fram er mikil þörf á því að koma þeirri upplýsingaöflun í fastari farveg en nú er.

Í grg. sem ég ætla ekki að lesa frá orði til orðs er gerð grein fyrir því hversu mikilvæg atvinnugrein ferðaþjónustan er orðin og hve mikill vöxtur hefur verið innan hennar á undanförnum árum. Þar er jafnframt vakin athygli á þeirri sérstöðu þessarar atvinnugreinar að hún á ekki eins og landbúnaðurinn, iðnaðurinn og sjávarútvegurinn við sérstaka rannsóknastofnun þessara atvinnugreina að styðjast. Þó er atvinnugreinin það mikilvæg í efnahagslífi þjóðarinnar að hún skipar sér ýmist í annað eða þriðja sæti í gjaldeyrisöfluninni. Ég hef vakið athygli á því áður hér á Alþingi að þegar ég settist í Rannsóknarráð ríkisins árið 1991 spurðist ég fyrir um það hversu miklar rannsóknir hefðu verið styrktar af Rannsóknasjóði á vegum ferðamála. Hér í fylgiskjölum með þessu þingmáli er yfirlit yfir hagnýtar rannsóknir árin 1977--1993. Þar geta menn í stórum dráttum séð hvernig rannsóknir skiptast niður í flokka eftir hinum hefðbundnu atvinnugreinum. Og eins og þar kemur fram er þar ekki lagt fjármagn til sérstakra rannsóknaverkefna í ferðaþjónustu. Þetta varpar ljósi á þá einföldu staðreynd að það hefur ekki verið litið svo á hér á Íslandi að þróun þessarar atvinnugreinar væri tilefni sérstakrar rannsókna- og þróunarstarfsemi eins og aðrar atvinnugreinar hafa notið. Það er engin rannsóknastofnun á Íslandi sem hefur í raun og veru þar til nú, sýnt því áhuga að sérhæfa sig í málefnum ferðaþjónustunnar.

Nú er á margan hátt nauðsynlegt að sem flestir komi að þróunarstarfi í ferðaþjónustu, bæði fyrirtæki og opinberar stofnanir, en það skiptir þó mjög miklu máli að upplýsingaöflun sem er grundvöllur rannsókna- og þróunarstarfsemi sé í föstum og viðunandi farvegi. Það skiptir líka miklu máli að rannsóknastofnanir sérhæfi sig á sviði þessarar atvinnustarfsemi. Þær hugmyndir sem settar eru fram í þáltill. miða að því að gera Ferðamálaráði Íslands kleift að hafa yfirsýn yfir þær upplýsingar sem fyrir liggja um þróunarstöðu ferðaþjónustunnar, greina þörf atvinnugreinarinnar fyrir aðrar og ítarlegri upplýsingar en nú eru fáanlegar og beina öflun þeirra í æskilegan farveg. Það hefur að vísu verið gerð athugun á því á vegum Háskóla Íslands hversu mikið er til af upplýsingum um ferðaþjónustuna, hversu mörg rannsóknarverkefni hafa verið unnin í þessu sambandi, og það hefur verið gerð þar um mjög lausleg þarfagreining fyrir ferðaþjónustuna á upplýsingum. En sú þarfagreining var mjög gölluð. Hún fólst raunar bara í því að fyrirtæki voru spurð hvers konar upplýsingar þau vildu og síðan var talið saman hversu mörg fyrirtæki hefðu óskað eftir upplýsingum af þessu tagi eða hinu taginu. Það var ekki unnið úr þarfagreiningunni með þeim hætti að gera grein fyrir því að hvaða leyti upplýsingastarfsemi væri vanþróuð og hvers konar upplýsingar atvinnugreinin þyrfti með hliðsjón af því með hvaða hætti hún hefur t.d. þróast í öðrum löndum. Það liggur þó nokkuð ljóst fyrir að það sem einkum og sér í lagi skortir í upplýsingasöfnun greinarinnar eru reglubundnar kannanir á högum greinarinnar sem eru þá sambærilegar frá einum tíma til annars. Þar er bæði um að ræða viðhorfskannanir, kannanir sem beinast að ferðamönnunum sjálfum, en einnig vantar mjög ítarlegar upplýsingar um þróun atvinnugreinarinnar sjálfrar, m.a. um fjárfestingu í atvinnugreininni.

[12:15]

Sem dæmi um hversu mikilvægar slíkar upplýsingar eru get ég nefnt að það hefur farið fram ítarleg könnun á fjárfestingu og nýtingu hótelrýmis á vegum Háskólans á Akureyri. Sú athugun leiddi í ljós að þrátt fyrir að ferðaþjónustan hafi gert sér sérstakt far um að bæta nýtingu hótela og gististaða á jaðartímum, þ.e. utan háannatímans, hefur fjárfestingin í gistirými aukist í takt við fjölda ferðamanna á háannatímanum. Með öðrum orðum hefur framboðið aukist mest miðað við háannatímann. Það þýðir að nýtingin á jaðartímanum, sem var meginverkefni að bæta, hefur versnað til stórra muna og niðurstaðan er viðvarandi hallarekstur. Þetta bendir til þess að fjárfesting í gistirými haldist ekki í hendur við fjárfestingu í öðrum þáttum atvinnugreinarinnar og það bendir til þess að við fjárfestingu njóti menn ekki þeirrar sýnar til framtíðarinnar sem nauðsynlegt er að hafa, njóti ekki stefnumörkunar í ferðaþjónustunni sem nær til fjárfestingar og allra þátta ferðaþjónustunnar. Það er því mjög mikilvægt að þessum upplýsingagrunni verði komið í réttan farveg þannig að þær rannsóknastofnanir og þau fyrirtæki sem vilja sinna rannsóknum geti gengið að upplýsingagrunninum sem er grundvöllur alls rannsókna- og þróunarstarfs.

Það er einnig lagt til að stofnaður verði rannsóknasjóður við Ferðamálaráð Íslands. Tilgangurinn með flutningi þessarar tillögu er sá að Ferðamálaráð geti orðið virkur þátttakandi í rannsóknastarfinu, lagt fé í verkefni, t.d. með Rannsóknaráði Íslands, keypt verkefni af háskólastofnunum eins og Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri og öðrum rannsóknastofnunum og virkað sem hvati á þetta rannsóknastarf. Auðvitað hafa slíkar rannsóknir verið keyptar en svigrúm Ferðamálaráðs Íslands og skrifstofu ráðsins til þess að sinna slíku rannsóknastarfi hefur verið mjög takmarkað vegna þess að fjármunirnir sem renna til Ferðamálaráðs Íslands eru bundnir að mestu leyti í markaðsstarfi sem er ekki hægt að vanrækja. Það er orðið í mjög föstu formi og hefur skilað miklum árangri. Það væri afar ólíklegt til árangurs að taka fjármuni frá þeim verkefnum og eyðileggja það starf, brjóta það niður til þess að leggja þá í rannsóknastarfið hversu svo sem rannsóknastarfið er mikilsvert. Það er að mínu mati nauðsynlegt að stofna sérstakan rannsóknasjóð við Ferðamálaráð Íslands þannig að það geti orðið virkur þátttakandi í þessu rannsóknastarfi og virkað sem hvati á þróunarmálin í greininni.

Að lokum er lagt til að staða rannsóknafulltrúa verði sett upp við skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri. Hlutverk hans er ekki að annast rannsóknir, með þessu er ekki verið að leggja til að Ferðamálaráð taki að sér rannsóknahlutverk heldur að það ráði sérhæfðan mann til að sinna þessum málum. Ég er þeirrar skoðunar eftir að hafa setið í stjórn Ferðamálaráðs í nokkur ár að það skorti mjög á það að ráðið hafi fagleg tök á því að sinna þessum rannsóknarmálum. Það mundi verða styrkt mjög í því ef það hefði tök á því að ráða sér rannsóknafulltrúa til að efla rannsóknir í ferðaþjónustu og til að skipuleggja samstarf ráðsins við aðra rannsóknaraðila.

Mig langar til ekki síst að benda á þann áhuga í sambandi við þessa þáltill. sem Háskólinn á Akureyri hefur sýnt á því að koma sér upp sérstakri rannsóknadeild innan rannsóknastofnunar sinnar er sérhæfi sig í málefnum ferðaþjónustunnar. Það er mjög mikilsvert að þegar sá áhugi kemur fram sé honum sýndur skilningur og tækifærið sé notað til þess að auðvelda Háskólanum á Akureyri að koma sér upp slíkri sérstöðu á þessu sviði.

Ég ætla ekki að hafa miklu fleiri orð um þáltill. og greinargerðina sem fylgir henni. Þessi plögg skýra sig að mestu leyti sjálf. Mig langar aðeins til þess í lok máls míns að hugleiða stöðu okkar alþjóðlega í sambandi við ferðamálin. Það er nýkomin út skýrsla á vegum alþjóðlegrar stofnunar sem heitir World Travel and Tourism Council og þessi skýrsla leitast við að varpa ljósi á stöðu ferðaþjónustunnar í heiminum í dag en hún leitast einnig við að varpa ljósi á líklega þróun ferðaþjónustunnar fram til ársins 2005, þ.e. á 10 ára tímabili. Þessi skýrsla varpar mjög skýru ljósi á þær væntingar sem eru til þessarar atvinnugreinar í heiminum öllum. Þessar væntingar byggjast á því að atvinnugreininni er spáð vexti. Reiknað er með því að æ fleiri muni ferðast og það er reiknað með að menn muni leggja meiri peninga í ferðalög og menn muni leggja meiri tíma í ferðalög.

Það hefur einnig haft áhrif á væntingar manna til ferðaþjónustunnar að vonir manna um atvinnusköpun í öðrum hefðbundnum atvinnugreinum hafa brugðist. Þess vegna binda menn miklar vonir og í sumum tilfellum örvæntingarfullar vonir við það að ferðaþjónustan muni leysa úr vanda atvinnuleysisins. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að Evrópusambandið fjárfestir nú gífurlega í ferðaþjónustu. Ef litið er á þessa skýrslu þá kemur þar fram að á vegum Evrópusambandsins er ráðgert að fjárfesting í ferðaþjónustu muni vaxa um 45,7% á tíu ára tímabili. Í Evrópu í heild er gert ráð fyrir því að fjárfestingin vaxi um 57%. Ég vek athygli á því að gert er ráð fyrir að þessi fjárfesting muni vaxa um 90% í Austur- og Mið-Evrópu og um 359% í Mið-Austurlöndum. Hvarvetna er vöxturinn áætlaður mikill. Hvað þýða þessar tölur? Þær þýða einfaldlega að við Íslendingar munum lenda í gífurlega harðri samkeppni á þessu sviði í framtíðinni. Sú grein sem við bindum miklar vonir við lendir í óhemjuharkalegri samkeppni. Þessir fjármunir eru einmitt ekki síst lagðir í rannsókna- og þróunarstarf og þá nefni ég kannski sérstaklega Evrópusambandið. Á því sviði erum við veikastir. Full ástæða er til að benda á þetta. Af því að ég á örfáar sekúndur eftir ætla ég að vekja athygli á því að ef þessar tölur World Travel and Tourism Council eru réttar að því er varðar Ísland þá er gert ráð fyrir því að fjárfesting okkar Íslendinga í grunngerð, samgöngumannvirkjum og fjárfestingu almennt í ferðaþjónustu, sé rétt um meðallag og muni verða rétt undir meðallagi á næstu 10 árum en væntingar okkar til atvinnusköpunar sé langt undir því sem aðrar þjóðir vænta. Við reiknum bæði með því að umsvifin í greininni og atvinnusköpunin í greininni muni verða mun minni en aðrar þjóðir gera ráð fyrir. Þetta er athugunarefni. Þetta þarf að rannsaka betur og við þurfum að skoða vel hverjar væntingar okkar eru til þessarar fjárfestingar sem í vissum tilfellum er bæði fjárfesting fyrir ferðaþjónustuna en einnig fyrir þjóðina í heild. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvort við stefnum þarna að eðlilegri arðsemi í þessari miklu fjárfestingu sem við stöndum frammi fyrir í grunngerð ferðaþjónustunnar.